Ég hef alltaf haft áhuga á kosningum. Þegar ég var lítill var kosningaskrifstofa Sjálfstæðisflokksins alltaf heima hjá pabba og mömmu. Á kjördag var sett upp plakat í gluggann með X-D og nokkrir traustir karlar komu til þess að merkja við hverjir voru búnir að kjósa. Sumir komu á bíl en boðið var upp á akstur á kjördag. Þá töldu menn það ekki eftir sér að sækja aldrað fólk sem þurfti á aðstoð að halda. Eða bara fínar frúr sem vildu láta keyra sig. Tómas bróðir ók stundum bílnum og þá fékk ég að fara með. Úr speglinum hékk D á bláum grunni og þegar við komum að Langholtsskólanum varð hann að gæta þess að bókstafurinn sæist ekki. Oftast var látið nægja að snúa merkinu við en það vildi snúast á bandinu og þá fékk ég það hlutverk að halda því þannig að hvíta hliðin sneri að þeim sem væru fyrir utan meðan Tómas fylgdi gamalmenninu inn. Það var gaman að vera ungur maður með hlutverk.
Allir í hverfinu voru merktir, A, D eða G. Kannski voru kommar merktir K en ekki G. Þó held ég ekki. Ég man varla eftir því að nokkur í hverfinu hafi verið talinn framsóknarmaður. Þó var einn bekkjarbróðir minn sem átti þau skelfilegu örlög að eiga foreldra sem studdu framsókn. Hann bjó fyrir utan kosningahverfið okkar.
Nú væru þetta eflaust taldar persónunjósnir, en svona var þetta þá. Ég veit ekki hvort þessi viðamikla skrifstofustarfsemi hafði mikið að segja en hún hélt mönnum heitum á kjördag.
Fyrir kosningar var blöðum dreift í hús. Fyrir borgarstjórnarkosningar bar ég út Bláu bókina. Þar voru rakin afrek Geirs Hallgrímssonar sem allir voru sammála um að væri besti borgarstjóri sem hægt væri að hugsa sér. Allan viðreisnaráratuginn vann hann meirihluta fyrir Sjálfstæðisflokkinn í borginni. Í prófkjöri árið 1970 fékk hann 99% atkvæða.
Ég var viljugur að bera út. Fannst sjálfsagt að gera þetta fyrir góðan málstað. Oftast var nóg að setja Bláu bókina inn um lúguna. Í eitt skipti var þó tekið á móti mér og ég vinsamlegast beðinn að afhenda ekki þetta rit heldur færa foreldrum mínum það aftur. Í því húsi bjó Ragnar Stefánsson, sem um það leyti var að geta sér frægðar sem formaður Fylkingarinnar. Svo mann ég líka eftir gömlum manni sem bjó í húsi í grasgarðinum í Laugardalnum. Honum var lítið um þennan littereatúr gefið. En ég man ekki til þess að ég hafi fengið nein ónot fyrir útburðinn.
Um kvöldið komu snittur og kók. Kannski var kók á boðstólum allan daginn. Þetta voru miklir hátíðisdagar. Kók var ekki haft hversdags í gamla daga. Þetta kvöld drakk ég ótæpilega. Þegar ég var búinn með tíundu kókflöskuna bannaði mamma mér að drekka meira. Þetta var lítil kók í gleri.
Einn kjördagur var mér eftirminnilegri en aðrir. Líklega hefur það verið árið 1962. Þá fór ég niður í bæ með Guðrúnu systur og frænkum mínum Völu Bjarna og dætrum Ólafar móðursystur. Við vorum vopnuð plakötum með X-D. Á þeim árum voru plaköt svolítið kreatív og á þeim var annaðhvort mynd af því hve vel öllum liði undir styrkri stjórn sjálfstæðismanna eða varað við ógnum kommúnista og annarra vinstrivillinga.
Í endurminningunni gengum við eftir Suðurgötunni. Öðru hvoru hurfu stelpurnar niður að einhverju húsi með plakat, límdu það á bárujárnið og hlupu svo til baka. Þessi skæruhernaður var mjög áhrifaríkur. Stundum kom einhver út og steytti hnefann, en stelpurnar voru þá alltaf komnar í skjól þannig að hættan var ekki bráð. Eftir tíu mínútur var aðgerðinni lokið. Tjarnargata 20, heimili Æskulýðsfylkingarinnar, Tjarnargata 26, aðsetur Framsóknarflokksins og heimili Hermanns Jónassonar, formanns framsóknar, voru öll fagurlega skreytt veggspjöldum sem vöruðu við vinstri slysunum.
Ég man hvað ég var stoltur af því að eiga svona hugaðar frænkur og enn í dag fæ ég í magann af spenningi þegar ég hugsa til þessarar velheppnuðu aðgerðar.
—
Bjarni Ívarsson (sjá mynd efst), afi Vigdísar minnar, var bóndi á Álfadal á Ingjaldssandi sem er milli Dýrafjarðar og Önundarfjarðar. Bjarni hafði farið á búnaðarskóla en þótti meira skáld en búmaður. Gunnar sonur hans sagði mér, að þegar hann heyrði að bændurnir í sveitinni kölluðu pabba hans búskussa, hefði hann verið mjög hreykinn af föður sínum. Gunnar hélt að þetta væri prófgráða úr búnaðarskólanum.
Þar í sveit voru menn framsóknarmenn. Það þurfti lengst af ekki að ræða. Þegar Ásgeir Ásgeirsson gekk úr Framsóknarflokknum komst rót á sveitamennina. Þá stofnaði Tryggvi Þórhallsson, mágur Ásgeirs og fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, Bændaflokkinn. Ásgeir studdi ekki mág sinn sem féll fyrir Hermanni Jónassyni. Árið 1937 var myndað kosningabandalag Sjálfstæðisflokks og Bændaflokks, svonefnd Breiðfylking. Í Morgunblaðinu birtist í leiðara eftirfarandi skilgreining á bandalaginu: „Breiðfylking er mjög breið fylking.“
Fyrir kosningarnar það ár var haldinn kosningafundur í Dýrafirði. Þá var Bjarni grunaður um að vera orðinn blendinn í trúnni á sinn gamla flokk, svo mjög að hann klappaði fyrir andstæðingunum. Um hann var þá ort þessi vísa:
Takið eftir hverjir klappa
kuldahrollur sest að mér.
Breiðfylking sást Bjarna’ í nappa,
með burgeisunum sást hann vappa.
Andskotist hann aldrei hér.
Höfundur þessarar vísu var Jói Davíðs frá Bakka í Dýrafirði. Jói var mikill framsóknarmaður, sem vildi láta kalla bæ sinn Neðri-Hjarðardal. Ástæðan var sú að á Bakka var tvíbýli og á hinum bænum bjó bróðir Jóa. Ekki vildi hann að þeir yrðu þekktir sem Bakkabræður. Um Jóa er líka til vísa og þar er hann sagður breiðmynntur, kiðfættur og sjálfumglaður.
Upp úr þessu brá Bjarni búi og öll fjölskyldan flutti suður.
Þessa sögu sagði ég nágranna mínum, Þorsteini Bernharðssyni, fyrir nokkrum árum. Þorsteinn var frá Vöðlum í Önundarfirði, fyrrverandi eigandi Raftækjaverslunar Íslands, sjálfstæðismaður og mikill sómamaður. Þorsteinn kannaðist vel við þetta því hann hefði verið á fundinum. Það var gaman að fá þannig staðfestingu á þessari sögu sem Elísabet föðursystir Vigdísar hefur oft sagt okkur.
Við héldum áfram að tala um kosningafundi og ég sagði frá því að í mínu ungdæmi hefðu flokkarnir keppst um að fá sem flesta á kosningafundi sína. Vorið 1967 var kosið til Alþingis. Alþýðubandalagið hafði troðfyllt Háskólabíó á kosningahátíð. Það bauð upp á skemmtiatriði af ýmsu tagi og á myndum af fundinum sást að allir gangar voru troðfullir þannig að við lá að húsið spryngi.
Sjálfstæðismenn buðu upp á kjósendafund á sama stað. Þar fluttu frambjóðendur og stuðningsmenn ávörp. Á myndinni í Mogganum sást að setið var í nær öllum sætum en ekkert umfram það. Miðað við fund kommanna var húsið tómt að sjá.
Þetta sumar var ég sendill í afgreiðslunni á Mogganum. Morguninn eftir var þar fólk að pakka blöðum og ég kom, horfði á þessa forsíðu og fjargviðraðist yfir því að Sjálfstæðisflokkurinn hefði greinilega orðið undir í áróðursstríðinu. Verður þá konu sem sat við borðið að orði: „Snemma beygist krókurinn að því sem verða vill.“ Ég var tólf ára.
Þetta segi ég Þorsteini og hann svarar þá að bragði: „Já ég man eftir þessum fundi líka. Hann var ekki skemmtilegur. Þegar ég gekk út heyrði ég í konu við hliðina á mér sem sagði við vinkonu sína: Að hugsa sér að maður skuli hafa sleppt Flintstones í sjónvarpinu fyrir þetta.“