Sjáið þið tindinn?

Það var um miðjan mars 2006 sem ég fékk upphringingu á skrifstofuna. „Það er kona í símanum sem vill gera þér tilboð sem þú getur ekki hafnað.“ Þetta hljómaði áhugavert. En ég hafði á þeirri stundu ekki hugmynd um hve mikil áhrif þetta símtal mynd hafa á líf mitt næstu tvo mánuðina. Í símanum var nefnilega gömul vinkona mín sem sagði mér að í lok maí ætti ég að ganga á Hvannadalshnjúk með hópi af fólki. Nú vill svo til að ég hef áhuga á fjallgöngum og á mér nokkur fjöll sem ég ætla að ganga á einhvern tíma, en því miður var Hvannadalshnjúkur ekki eitt þeirra. En af því að ég læt vel að stjórn sagði ég náttúrlega já. Þar með var framtíð mín næstu tíu vikurnar ákveðin.

Á tindinn kemst maður varla nema vera búinn að æfa sig vel. Þetta þýddi að sérhverjum þriðjudagseftirmiðdegi var ráðstafað í gönguferð á Esjuna. Ég var í sjálfu sér ekki óvanur því að ganga á Esjuna á þriðjudögum. Á fjórða ár höfum við nokkrir félagar gengið á fjöll á hverjum einasta þriðjudegi. En vel að merkja á sumrin þegar líkur á því að maður renni á svellbunkum, lendi í snjóflóðum eða verði úti eru í lágmarki. Á veturna er þetta allt öðruvísi. Ég þekki að vísu menn sem ganga á fjöll allt árið. En það eru menn sem hlaupa milli Landmannalauga og Þórsmerkur á örfáum tímum eða eiga að baki glæstan feril í landsliðinu í skíðagöngu. Ekki einn einasti venjulegur maður.

En undan varð ekki skorast og úlpan og vettlingar dregnir fram. Upp við Esjuna fann ég út að á veturna er gott að hafa húfu í fjallgöngum. Góðviljaður göngufélagi sem var með fullan bakpoka af fatnaði og neyðarbúnaði bjargaði mér um lambhúshettu. Fyrsta gangan gekk vonum framar. Við fórum ekki alla leið upp og það var oft stoppað á leiðinni. Einstaka fólk var í hjálparsveitargöllum og skeiðaði langt á undan en samt var þetta skaplegt. Ég hugsaði með mér að þetta væri ekki svo slæmt.

Syrtir í álinn

Margir halda að fæturnir séu mikilvægasti hluti líkamans í fjallgöngum. Ekki get ég neitað því að þeir eru býsna mikilvægir. En lungun eru örugglega vanmetin, líklega vegna þess að oftast virka þau vel því að hér á landi eru fjöllin ekki svo há að loftið þynnist til muna eftir því sem ofar dregur. Í byrjun apríl fékk ég lungnakvef. Hálfur dagurinn fór í að hósta upp slími, en ég varð aldrei veikur þannig að ég þyrfti að vera heima. Ekki örlaði á hita og útávið voru það bara heldur óviðfelldnar ræskingar sem gáfu til kynna að eitthvað væri í ólagi.

En þetta þýddi að lungun voru alls ekki á fullum afköstum og í fyrstu göngu fann ég að súrefni er ekki metið að verðleikum dags daglega. Loturnar milli þess sem maður þurfti að stoppa til þess að kasta mæðinni voru styttri en áður. Nokkrir vaskir sveinar ákváðu að fara brattari leið en hinir og ég hugðist fylgja á eftir til þess að vera ekki minni maður. Fljótlega hurfu félagar mínir út í buskann. Ég skeytti því engu og hélt áfram á mínum hraða.

Í fjarska sá ég förunautana hverfa bak við brekkubrún. Ná var ég orðinn mjög þreyttur og það eina sem jók gleði mína var að sjá hinn hópinn, þann sem léttari leiðina fór, tals vert neðar í fjallinu. Ekki jók það á ánægjuna að hitta stöðugt brosmilt og glatt fólk á niðurleið. Það er ekkert jafnniðurdrepandi og fólk sem ekki blæs úr nös og segir við mann: Það er talsvert eftir enn. Þau geta trútt um talað.

Nú var ég löngu hættur að sjá nokkurn á undan mér. Kominn upp fyrir snjólínu og gat rakið slóðina. Næsti maður sem ég mætti heilsaði mér með nafni en ég hafði ekki hugmynd um hver hann var. En nú var illt í efni. Farið var að fjúka í sporin og ég vissi að talsvert var eftir enn. Lendingarstaðir fyrir þyrluna voru hvergi sjáanlegir og ég hugsaði með hryllingi til þess að vera hífður upp í kaðalstiga.

Loksins, loksins birtist mér hópurinn við steininn sem förinni var heitið til og mér heyrðist þeir kalla eitthvað til mín. Ekki veit ég hvort það voru hvatningarorð eða háðsglósur, ég ráfaði áfram og rifjaði nú upp sögur manna sem komast á leiðarenda á Everest. Einn var orðinn svo ruglaður að hann gafst upp rétt neðan við tindinn, en það kom út á eitt, hann hrapaði svo á leiðinni niður. En upp komst ég og niður aftur, en það hefur aldrei verið jafnerfitt að ganga niður og þennan dag.

Dagurinn mikli

Fer ég nú hratt yfir sögu. Þriðjudagsgöngurnar voru farnar án þess að víkjast undan. Auk þess var svo farið í lengri göngur suma laugardaga. Í einni þeirra varð einhverjum það á að kasta mæðinni fullákaft og fararstjórinn sagði: „Ef ykkur finnst þetta erfitt eigið þið ekki mikið erindi á Hvannadalshnjúk.“ Það er alltaf gott að fá hvatningu.

Við lögðum í hann á uppstigningardag. Það var kannski táknrænt. Um kvöldið þegar við komum í Svínafell fór sumt fólkið til móts við hóp sem var að koma niður. Þau höfðu ekki skemmtilega sögu að segja. Þau lentu í þoku og hríð og skyggni var 20 metrar lengst af. Ein konan sagði: „Að hugsa sér að maður hafi lagt þetta á sig og sjá ekkert.“

Flestum varð ekki svefnsamt nóttina fyrir gönguna. Tvennt olli mér áhyggjum. Annars vegar að við gætum ekki lagt í hann vegna veðurs eða það yrði jafnleiðinlegt hjá okkur og fólkinu sem var að koma niður. Það leit ekki vel út og spáin slæm. Hins vegar hafði ég heyrt af hópi sem fór upp í vor þar sem margir urðu að snúa við vegna þess að þeir voru bundnir við einhverja sem gáfust upp. Hvað ef það yrði ég sem gæfist upp og eyðilegði fyrir hinum?

Klukkan fjögur voru allir ræstir. Fáir höfðu náð að festa svefn meira en tvo, þrjá tíma. En nú varð vart aftur snúið. Við hittum leiðsögumennina við brekkufótinn. Foringi þeirra messaði yfir okkur og útskýrði fyrir okkur hvað við ættum að gera þegar við dyttum í sprungur. Ekki „ef“ heldur „þegar“. Þetta var uppörvandi. Svo lögðum við í hann með ísöxi og mannbrodda á bakinu. Auk þess nesti, föt og sólvörn. Hún má ekki gleymast.

Framan af gekk þetta ágætlega. Veðrið gekk gegn öllum spám, glaðasólskin. Upp undir snjólínu var þetta ekki ósvipað venjulegri fjallgöngu. Þá vorum við bundin saman, átta í hvert band, og kennt að hafa nægilega strekkt á bandinu (betra þegar við dyttum í sprunguna). Þetta er ótrúlega löng ganga. Oftast sá maður brúnina ekki langt framundan en um leið og þangað var náð tók við önnur brún. Fararstjórinn hvatti okkur til þess að drekka mikið og oft.

Martröðin byrjar

Skyndilega varð ég var við krampa í lærinu. „Nú byrjar það,“ hugsaði ég. Allir verða að snúa við út af mér. Ekki var annað að gera en veina upp og hópurinn stoppaði. Ég var aftastur og boðin voru flutt mann fram af manni til fararstjórans. En hann kannaðist við þetta. „Drekka meira.“ Ég fór í pokann, sótti flösku og drakk ótæpilega. Verkurinn leið hjá.

Loksins vorum við komin upp á brún í 1.800 metra hæð. Við tekur stórt flatlendi og hnjúkurinn blasti við í fjarlægð. Einhver sagði mér að næsta klukkutímann myndum við ganga yfir gíginn sem væri nú fullur af snjó, en ég var of þreyttur til þess að hafa áhyggjur af þessu. En það er fátt jafnfallegt og ganga á jökli í sólskini. Allt í einu var öll kvölin og pínan orðin þess virði og við uppskárum ríkulega. Þá fékk ég krampa í hitt lærið. Í þetta sinn hafði ég vit á því að þegja og tók stóran gúlsopa.

Um átta tímum eftir að við lögðum af stað áðum við fyrir neðan tindinn sjálfan. Hann er um 300 metrar á hæð og þar er ekki annað að gera en að setja á sig mannbroddana. Gangan ætti ekki að vera neinum ofviða nema af því að menn voru úrvinda af þreytu, leiðin var öll gegnum harðfenni og á henni er djúp jökulsprunga. Þar varð fararstjórinn að búa til þrep og við að klöngrast yfir. Það var ekki auðvelt um leið og maður horfði niður í hyldýpið. Ég ákvað að horfa frekar annað. Á endanum drógu hin mig upp. Það er stundum gott að vera síðastur.

Eftir þetta var það bara spurning um að hníga ekki niður. Fararstjórinn sagði okkur að allir væru öruggir um að komast á tindinn úr því sem komið var. Korteri seinna gekk það eftir. Seinustu metrarnir virtust eins og kílómetrar. En tindinum var náð og nú getur enginn tekið það frá þessum hópi að hann náði á hæsta fjall landsins.

Leiðin til baka var ólíkt auðveldari. Nú var ég fremstur niður af hnjúknum. Það var ekki einfalt því skjótt skipuðust veður í lofti og skyndilega var komin stórhríð. Ég sá enga slóð. Þótti þó líklegt að þyngdaraflið myndi leiða mig á rétta braut. Helst velti ég því fyrir mér hvernig ég fyndi sprunguna stóru. Ekki leið á löngu þar til hún fann mig. Snjóbarðið sem ég hætti mér út á gaf sig og ég sunkaði niður. Lenti þó á hinum barmi sprungunnar og kallaði, í því að ég staulaðist á fætur: „Sprunga!“ Næsti maður á eftir mér datt líka, en eftir það gekk þetta ágætlega. Mér flaug það í hug hvort þarna væru aldrei snjóflóð, en svo hvarf það úr huga mér aftur þangað til það féll þremur dögum seinna á annan hóp. Á þessum sama stað.

Við komumst svo niður í hríðinni. Ég mæli með því að menn gangi niður á mannbroddum. Það gerði minn hópur og varð fyrstur niður úr snjónum. En þó að ferðin niður sé mun auðveldari en uppgangan þá er hún ótrúlega löng. Maður hugsaði margoft: „Gengum við virkilega alla þessa leið?“ Gangan í heild var 14 tímar.

Eftirköst

Það tók marga daga að jafna sig eftir átökin. Mér leið betur eftir á þegar ég heyrði að ég hefði ekki verið sá eini sem var við það að missa móðinn. Fjölmargir fóru síðasta áfangann á viljastyrknum einum. En allir sem reyndu við hnjúkinn náðu honum í þetta sinn. Ég missti tilfinningu í fingrunum eftir ferðina. Fyrst hélt ég hefði misst einhver vítamín úr líkamanum og þess vegna væri ég tilfinningalaus. En það var ekki skýringin. Eftir nokkrar vikur flagnaði húðin af fingrunum. Þetta var þá kal. Það var eins gott að fingurnir duttu ekki af. Góðir vettlingar bætast á listann yfir nauðsynlegan búnað.

Eftir því sem frá líður verður þetta ekki eins erfitt í minningunni. Kannski fer maður einhvern tíma aftur eitthvað svona. Ég sá það í blöðunum að Halldór Ásgrímsson segir að ef maður geti gengið á Esjuna komist maður flest. Eftir að hafa hugsað málið lengi held ég að það sé öfugt.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.