Eingin er sum Stoltenberg – minningar úr Færeyjaferð

Forøyja løgmaður biður Benadikt Jóhannesson sýna sær ta sømd at koma til døgurða í Kirkjubø mikukvøldið 11. mars 2009 kl. 19.00 í samban við ráðstevnuna “Framtíð Føroya í Evropa”. Bussur fer frá Hotel Hafnia kl.18.45.

Ég kemst alltaf í gott skap þegar ég sé færeysku. Þess vegna fannst mér gaman þegar ég fann þetta kort í töskunni minni. Það rifjaði líka upp góðar minningar frá heimsókninni þangað.

Aldrei hef ég gumað sérstaklega af dönskukunnáttu minni. Og þó. Þegar ég fór fyrst til Kaupmannahafnar talaði ég óhikað danska tungu og var spurður hvort ég væri frá Jótlandi. Ég var afar stoltur af þessu þangað til ég heyrði í Jóta og skyldi ekki orð.

Ólöf móðursystir mín kenndi dönsku í Menntaskólanum í Reykjavík í áratugi. Einhvern tíma spurði nemandi sem var að fara í munnlegt próf Ólöfu: „Eigum við að tala dönsku eins og Danir tala hana eða eins og þú talar?“ Hún hafði nógu gaman af þessu til þess að segja frá því.

Á flugvellinum í Kaupmannahöfn kom flugfreyjan til mín og spurði: „Er du Thorvald?” og þar sem ég er ekki hann svaraði ég neitandi, en datt í hug að hún væri að leita að manninum við hliðina á mér, manninum sem ég hafði ekki talað við áður og þekkti reyndar ekki. Þegar hann svaraði játandi kynnti ég mig fyrir honum. Þetta var sem sé fyrrverandi utanríkisráðherra Noregs og Íslandsvinur fyrr og síðar, Thorvald Stoltenberg. Á leiðinni til Þórshafnar í Færeyjum sagði ég ekki annað við sessunaut minn. Danska beinið var heldur stirt.

Á flugvellinum röltum við þegjandi að flugstöðinni. Á leiðinni las ég Mojo, gagnmerkt tónlistartímarit, með grein um The Who. Hann las pappíra um stjórnmál í Færeyjum og tölvupóst frá Birni Bjarnasyni.

Ég kveikti á símanum og fékk umsvifalaust SMS sem ég bjó mig undir að eyða. Eflaust frá Föroyja Telefon, hugsaði ég. En nei, þetta var frá Einari Kárasyni sem var svo vinsamlegur að láta mig vita að greinin hefði birst eftir mig. Ég hafði ekki séð blöðin þennan morgun. Einar er eini maðurinn sem sá þessa grein svo ég viti.

Einhver hringdi frá Íslandi og þegar hann heyrði að ég var í Færeyjum spurði hann hvort ég væri að ræða um söluna á Sjóvá. Ég sagðist reikna með að tala um sitt af hverju. Ég hafði ekkert heyrt um þessa sölu, en vissi af reynslu að það borgar sig að vera dularfullur.

Þegar taskan norska var komin velti ég því fyrir mér hvort ég ætti að bjóðast til þess að bera hana. Þetta er aldurhniginn maður, en mér datt í hug að hann myndi móðgast við hugulsemina þannig að ég bauð það ekki. Svo sagði ég eins og hugsunarlaust: „Sonur þinn á afmæli um helgina.“ Sonur hann er forsætisráðherra í Noregi, ef einhver lesanda áttar sig ekki á því.

„Þekkist þið?“ Ég velti því fyrir mér hvort ég ætti að skrökva því að við værum gamlir félagar, en líklega tók það mig of langan tíma, því að hann bætti við: „Hann er yngsti forsætisráðherra í Noregi.“ Engin viðbrögð frá mér og svo bætti hann við. „Ekki lengur, en hann var það á sínum tíma.“

Óli Samró beið eftir okkur. Hann var búinn að skipuleggja allt. Við vorum ekki vissir um hvaða mál við ættum að tala. Reyndum fyrst ensku, en þegar Stoltenberg kom skiptum við yfir í dönsku. Ég settist aftur í. Stoltenberg er heimsfrægur maður. Þeir töluðu um fyrri ferðir til Færeyja og hvar Óli byggi. Ég kom lítið við sögu. Það hentaði ágætlega.

Á hótelinu blasti við forsíða Sósíalsins, blaðs kratanna í Færeyjum. „Eingin er sum Stoltenberg.“ Á stórri mynd var kona sem komin var yfir miðjan aldur. „Þú þarft að eignast þetta blað,“ sagði ég við förunaut minn. Konan á myndinni var einlægur aðdáandi og sagðist hafa fylgst með sínum manni frá 1956 þegar hann var í Austurríki að bjarga flóttamönnum frá Ungverjalandi. Ég þýddi það sem stóð á forsíðunni. Hann fékk blaðið ókeypis.

Það var lítið við að vera á hótelinu þannig að ég rölti um bæinn. Það er auðvelt. Eftir ellefu mínútur var ég búinn að því. Þórshöfn er lítill bær. Göturnar minna á strætin í kvikmyndinni um Barböru enda eru þetta sömu strætin.

Á herberginu var boðskortið sem ég nefndi í upphafi. Ég settist niður og vann að erindinu. Samkvæmt Óla var í lagi að tala á ensku. Eftir nokkrar mínútur fór ég út aftur og gekk í hina áttina. Þar voru nokkrar búðir sem ég gat kíkt í. Við hliðina á hótelinu var sérstæð snyrtistofa. Í glugganum var skilti sem á stóð „viðgerðir.“ Samkvæmt myndunum í glugganum gátu þau eytt hrukkum, tekið poka undan augum og losað fólk við annað það sem stendur í vegi fyrir fullkomnu útliti. Það leyndi sér ekki að þarna vann fagfólk því að allir voru fallegri eftir en áður. Í Wiesbaden í Þýskalandi er svipuð stofa sem líka setti myndir út í glugga. En þar var ómögulegt að sjá hvor var á undan og hvor á eftir. Þessi þjónusta er víða í boði. Í London er auglýst: „Búðu þig undir sumarið. Farðu í fegrunaraðgerð.“ Það er gott að þurfa ekki á þessu að halda.

Svo fór ég á hótelið og reyndi að leggja mig en var ekkert þreyttur. Loksins var stundin upprunnin og ég fór niður til þess að bíða eftir bússinum. Þar var kominn aðstoðarmaður lögmannsins. Lögmaðurinn er ekki hæstaréttarlögmaður heldur forsætisráðherra Færeyja. Mér skilst hann sé skipstjóri. Hann og aðstoðarmaðurinn höfðu verið á Íslandi og létu vel af dvöl sinni, einkum hvað Jákúp í Rúmfatalagernum hefði tekið vel á móti þeim. Við vorum sammála um að hann væri fínn náungi.

Loks voru allir komnir nema bússurinn. Á endanum kom sex manna hýruvogn og það var látið duga.

Það er gaman að koma að Kirkjubæ. Þar ræður Patursson fjölskyldan ríkjum en hún er íslensk að hluta. Margir Færeyingar eru íslenskir að hluta. Fyrst fengum við yfirferð um staðinn og sögu hans. Svo var okkur boðið inn og í dyragættinni var rétt að okkur staup með einhverri ólyfjan. Færeyingum finnst greinilega gaman að því eins og öðrum að láta gesti fá beiska drykki.

Maturinn var ekta færeyskt fínerí. Hörpudiskur, lambakjöt og rabarbaragrautur. Við vígsludrykkinn hafði danska beinið liðkast í mér og ég þorði að láta aðeins í mér heyra í þessum tigna félagsskap. Þarna voru núverandi og fyrrverandi lögmenn, ráðuneytisstjóri (sem heitir eitthvað allt annað), aðstoðarmaðurinn og svo Óli, Stoltenberg og ég. Þeir töluðu um konuna sem var svo hrifin af norska kratanum og ég sagðist hafa heyrt af því að rokkstjörnur væru með grúppíur, en hefði aldrei heyrt um slíkt hjá fyrirlesurum.

Svo spurði einhver: Hvað finnst þér um þetta Stoltenberg? og hann og spurði: „Hvers vegna kallarðu mig ekki Thorvald? Eða ertu kannski að tala við son minn?“ Svona voru allir alþýðlegir.

Ég spurði hann hvenær hann hefði orðið fyrir mestu áfalli á ferlinum. Hann sagði að verst hefði sér þótt þegar Norðmenn felldu Evrópusambandaðildina, sérstaklega í seinna sinnið. Þá sagðist hann hafa orðið viss um að ekki þýddi að vera með boðskap um Evrópuaðild frá stjórnmálamönnum. Þjóðin yrði sjálf að vilja ganga í sambandið.

Þá spurði ég hann um Arne Treholt, trúnaðarvin hans og starfsmann í utanríkisráðuneytinu norska, sem varð njósnari fyrir Sovétmenn. Stoltenberg sagði að Treholt hefði valdið sér vonbrigðum, sonur gamals félaga og maður sem átti glæstan feril framundan. En hann hefði einfaldlega selt sig, hann hefði ekki verið merkilegri pappír en þetta.

Svo sagði ég Færeyingunum að mér fyndist færeyska skemmtilegt mál. Hún væri stundum eins og barn væri að tala íslensku. Líklega hef ég verið búinn að fá of mikið af snöfsum þegar hér var komið. Þeir svöruðu þessu fáu og höfðu ekki sambærilegar líkingar um okkar ylhýra mál. Ég veit ekki hvort ég átti von á því að þeir segðu að íslenskan væri eins og fullorðið fólk talaði færeysku.

Daginn eftir var ráðstefnan sem við komum til þess að tala á. Framtíð Føroya í Evropa. Þeir töluðu hver á fætur öðrum, lögmaðurinn, Thorvald, Óli og svo ég. Stoltenberg var náttúrlega aðalnúmerið. Við innganginn beið konan, aðdáandi hans, með úrklippur í stórri möppu. Ég þekkti hana strax en hann áttaði sig ekki. Í hléinu náðu þau loks saman, spjölluðu og héldust í hendur.

Hans ræða var með miklum tilvitnunum í þekkt fólk og atburði þar sem hann kom við sögu. Hann lék Havel Tékklandsforseta með miklum tilþrifum. Áhrifamesta sagan var frá Júgóslavíu þar sem hann var samningamaður 1993. Hann var inni á hóteli og horfði út yfir torgið fyrir framan. Það var útgöngubann í gildi. Sólin skein og þrjár skólastúlkur gengu yfir torgið með bækur í hendinni. Tilgangsleysi stríðsins var augljóst þegar hann horfði á þessi börn sem voru á leiðinni heim úr skólanum. Allt í einu rufu skothvellir þögnina og þegar hann leit aftur á saklausar stelpurnar sá hann að þær lágu í blóðpolli.

Boðskapurinn var að Evrópusambandið væri bæði efnahags- og friðarbandalag því að menn sæju enn betur tilgangsleysi stríðsins þegar það kæmi niður á þeirra eigin afkomu.

Mín ræða var sögulegust fyrir að hún var flutt á dönsku. Ég þýddi hana úr ensku af blöðunum meðan ég flutti hana. Þó hafði ég ekki fengið neinn snafs þennan dag.

Stoltenberg vann ræðukeppnina. En ég var býsna ánægður með mig að kvöldi. Hafði þá bætt útvarps- og sjónvarpsviðtölum á þessari fögru lágheiðatungu við afrekaskrána. Færeyingar voru svo vinsamlegir að setja ekki einu sinni texta á viðtalið við mig. Siggi bróðir hafði reyndar sagt mér að þeir ættu auðvelt með að skilja dönsku „eins og við tölum hana.“

Benedikt Jóhannesson

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.