Stundum spyr fólk mig hvort ég ætli að skrifa pistil um eitthvað sem það segir eða gerir í návist minni. Líklega óttast flestir þetta. Að minnsta kosti finnst mér fólk almennt tala miklu greindarlegar við mig núna en mig minnir að það hafi gert áður en ég byrjaði að skrifa pistlana.
Við höfum mörg gaman af því að vera með. Kannski flest. En það eru frásagnir í gangi þessa dagana sem fæstir hafa áhuga á því að vera bendlaðir við. Icesave-málið er eitt dæmi. Af fjölmiðlum að dæma virðist þessi „tæra snilld“ nánast hafa kviknað af sjálfri sér, svo fáa aðstandendur á hún. Meinhornin vilja hins vegar kenna nánast öllum sem komu nálægt Landsbankanum um að vera sökudólgarnir. Ekki er hægt að treysta neinum fyrrverandi gjaldkera eða dyraverði í Landsbankanum fyrir neinu starfi því að þeir bera allir ábyrgð. Andrúmsloftið er mengað.
Ég hef lesið það að eftir seinni heimstyrjöldina hafi svipað ástand ríkt í Danmörku. Menn kepptust við að saka náungann um að hafa verið nasistar. Guðmundur Kamban var skotinn án dóms og laga og ódæðismaðurinn slapp. Svo héldu menn áfram að lifa lífinu eftir að búið var að fórna nokkrum. Nú virðist mega sparka í ákveðna menn án þess að nokkuð sé gert. Þeir njóta ekki lengur lágmarksréttinda.
Ég segi: Látum dómstólana um að dæma. Höldum í réttarríkið. Á endanum kemur sannleikurinn í ljós. Heiftin sem eitrar samfélagið gerir það ekki betra.
Þetta er ekki vinsælt sjónarmið. En við viljum eflaust fæst vera bendluð við Icesave-málið og okkur er sama þó að við komumst ekki í bókina sem um það verður skrifuð.
Þingið er búið að umsnúa Icesave-samningunum. Það er gott og þar léku sjálfstæðismenn lykilhlutverk. Ég sé að margir flokksbræður mínir vilja ekki að Sjálfstæðisflokkurinn leggi neitt gott til málanna sem geti hjálpað þessari hræðilegu ríkisstjórn. En einmitt vegna þess hve veik ríkisstjórnin er verður að hjálpa henni. Hún hefur sannarlega meirihluta þingmanna. Hefðu kosningarnar verið viku seinna er ekki víst að hún hefði haft sigur. Stór hluti þingmanna stjórnarinnar kann hins vegar ekki að vera í ríkisstjórn. Þegar menn taka að sér stjórn landsins fylgir því ábyrgð. Allar vinstri stjórnir fram að þessu hafa verið sundurlyndar. Þessi fylgir því mynstri.
Líklega springur ríkisstjórnin í haust á ríkisfjármálunum. Ég er viss um að Steingrímur vill standa við það að skera niður í ríkiskerfinu. Samflokksmenn hans munu eiga mjög erfitt með að kyngja þeim niðurskurði, hvað þá að eiga frumkvæði að honum. VG situr uppi með mörg erfiðustu ráðuneytin og flokkurinn verður að skera niður.
Farsælast væri örugglega að flokkarnir tækju sig saman um þjóðstjórn. Það hefur alltaf reynst erfitt að stjórna landinu án Sjálfstæðisflokksins. Nauðsynleg gæfuspor fyrir þjóðina eins og innganga í Evrópusambandið verða ekki stigin án hans. Icesave-lausnin sýnir að það er heppilegt að flokkurinn komi að málum.
Þegar sagan verður skrifuð um endurreisnina er mikilvægt að við verðum öll með í bókinni.
PS. Tvennt gladdi mig öðru fremur um helgina. Í fyrsta lagi ótrúlegt heimsmet Usains Bolts í 100 metra hlaupi, 9,58. Ég sá hlaupið í beinni útsendingu og finnst ég hafa orðið vitni að einhverju mesta afreki sögunnar. Vonandi er allt í lagi með Bolt og hann ekki á lyfjum.
Svo vek ég athygli á skemmtilegri auglýsingu frá Tryggingamiðstöðinni um stuðning við kvennalandsliðið á mbl.is. Þar leikur knattspyrnukona listir sínar. Í dálknum á móti er auglýsing um flösusjampó. Þar stendur: Segðu bless við flösuna og hæ við dömurnar. En það er ekki bara þessi óborganlegi texti sem gerir auglýsinguna skemmtilega. Allt í einu fær náunginn boltann frá Margréti Láru í hausinn og hendir honum svo aftur til baka til hennar. Stórsnjallt bragð sem gladdi mig mjög.