Síðasta fjallið (BJ)

„Við höfum sést áður“. Við Vigdís vorum á tali við vingjarnlegan mann á Akureyri. Hópur sem ætlaði að ganga á Herðubreið á vegum Ferðafélags Akureyrar var að tínast saman. Ætlunin hafði verið að leggja í hann réttu ári fyrr en óvænt sjötugsafmæli setti strik í reikninginn. Nú vorum við sem sé komin alla leið til Akureyrar og fátt virtist geta hindrað okkur í að komast alla leið. Og þó. Nokkrum dögum áður hafði jarðskjálfti skekið allt svæðið. Herðubreið er ekki besti staður til þess að vera á ef jörðin skelfur. Fjallið er býsna bratt og sjálfar herðarnar umluktar klettabelti sem er laust í sér. Skriður falla af litlu tilefni og örugglega minna tilefni en jarðskjálftum.

Föstudaginn sem við ókum norður voru stöðugar viðvaranir í útvarpinu að fólk ætti ekki að vera á ferli norðan Vatnajökuls. Þar var frost, hávaðarok og nýfallinn snjór. Rætt var við landvörð í Herðubreiðarlindum. Hann sagði frá köldu og hröktu fólki sem hefði bjargast við illan leik en björgunarsveitir virtust hafa fundið alla sem vitað var um. Þetta var áfangastaður okkar um kvöldið.

Fyrir tólf árum ákvað ég að ganga á þrjú fjöll á Íslandi. Skjaldbreiði, Snæfell og Herðubreið. Fyrsta fjallið gengum við á helgina eftir að ákvörðunin var tekin, Snæfell fyrir þremur árum og nú ætluðum við að ljúka þrennunni.

Ég mundi ekki eftir manninum, en ég er orðinn svo ómannglöggur með árunum að til vandræða horfir. Fyrrverandi nemendur mína þekki ég ekki nema í undantekningartilvikum og jafnvel fólk sem ég nauðaþekki sé ég ekki, þó að það sitji beint á móti mér. Oft hef ég orðið fyrir því að mæta á fund þar sem ég þekkti engan þegar ég kom. Svo uppgötvað smám saman að ég kannaðist við hálfan salinn.

„Benedikt Sveinsson, er það ekki?“ sagði  maðurinn.

„Benedikt Einarsson“, sagði Vigdís. Spyrjið mig ekki hvers vegna, við erum búin að þekkjast í bráðum fjörutíu ár og verið gift í aldarþriðjung á næsta ári.

„Benedikt Jóhannesson“, sagði ég.

Smám saman gátum við rakið saman tengsl hér og þar, veislur sem við höfðum verið í báðir, sameiginlega vini og kunningja. Sem sé dæmigerð íslenskt tengsl. Allir eiga einhverja sameiginlega vini. Þetta var vingjarnlegur maður sem gaman var að spjalla við.

Fljótlega birtist maður á svæðinu sem tók stjórnina í sínar hendur. Þar var fararstjórinn greinilega mættur. Hann leit á listann, sá í hendingskasti hverjir voru mættir og tók upp símann til þess að hringja í þá sem ekki voru á staðnum.

„Þú ert í Reykjavík. Ætlarðu ekki að ganga á Herðubreið? … Jú við erum á leiðinni. … Vitlaust veður í nótt, en við ætlum að ganga á morgun. … Ég geri þá ekki ráð fyrir þér.“

Á fimm mínútum var allt klárt, um 30 manns ætluðu að leggja Íslandsfjallið að fótum sér. Ákveðið að hittast í Reykjahlíð við Mývatn, en fararstjórinn færi ekki frá Akureyri fyrr en eftir 15, 20 mínútur. Þurfti að koma við á flugvellinum og víðar.

Við Vigdís rötum í Reykjahlíð og héldum beina leið þangað, stoppuðum hvergi og ókum allan tímann á leyfilegum hámarkshraða. Við Reykjahlíð lögðum við bílnum og gengum inn í búðina, fulla af Frökkum, Ítölum og Spánverjum. Í því að við gengum inn renndi fararstjórinn í hlað.

Hann var í fararbroddi inn að Herðubreiðarlindum. Á leiðinni skoðuðum við gangnamannaskála sem átti eftir að koma síðar við sögu, sögu sem okkur var sögð um kvöldið. En það vissi ég ekkert um fyrr en löngu seinna.

Í Herðubreiðarlindum var hvorki hagl né jarðskjálfti. Við gistum í Þorsteinsskála sem Ferðafélagið á. Eftir að hafa tekið vel til matar okkar boðaði fararstjórinn kvöldgöngu. Við bjuggum okkur út í gönguskóm, með trefil og húfu, dúðuð yst sem innst. Gangan var samtals 200 metrar eða svo.

Fyrst gengum við að Eyvindarbæli, einum af fjölmörgum íverustöðum Fjalla-Eyvindar. Það er smákofi og í gegnum hann rennur lækur. „Lúxusíbúð með rennandi vatni“ sagði fararstjórinn.

Svo könnuðum við vatnsveituna á staðnum. Hvort tveggja mjög áhugavert, og innan seilingar frá skálanum.

Um kvöldið ræddum við saman ferðalangarnir um væntanleg ævintýri morgundagsins. Maðurinn sem við höfðum hitt á Akureyri sagði okkur að það hefði lengi verið draumur sinn að ganga á Herðubreið. Einu sinni var gönguhópur hans við rætur fjallsins en hvarf frá vegna þess að það var þoka. Svo fóru þau að Öskju og þjóðarfjallið blasti við hnoðralaust.

Nú ætlaði hann að sigra þetta tigna fjall. Þar sem hann sat við gluggann sagði hann: „Þarna er hún, drottningin“, sagði hann með virðingu og hlýju í röddinni. Við ræddum um gönguhópinn hans sem ég þekkti svolítið til og ég spurði hvort ekki væru einhverjir farnir að heltast úr lestinni í hópnum. Hann taldi þetta greinilega varla svaravert, þannig að ég flýtti mér að bæta því við, að ég þekkti til annars hóps þar sem væri miklu yngra fólk en í hans hópi, þar sem ferðirnar væru orðnar miklu léttari á seinni árum.

Svo kom í ljós að ég kannaðist við son hans og við gátum gantast með þau kynni þó að lítil væru. Í ljós kom að viðmælandi minn var þjóðgarðsvörður á Þingvöllum og talið leiddist að Valhöll. Við höfðum heyrt að vel hafði tekist til við frágang reitsins þar sem hótelið stóð og hann sagði að staðurinn væri líklega fallegri á eftir. Við Vigdís töluðum um að margar góðar stundir hefðum við átt þar og fleiri lögðu í púkkið að helsti missirinn að Valhöll væri að menn myndu ekki endurlifa sælustundina þar nema í huganum.

Á mig sótti svefn eftir langa ferð um daginn, en von var á kvöldsögu frá fararstjóranum. Loks kom hún eftir að húmað hafði mjög að kvöldi. Hún var um frægan mann norðan heiða, Fjalla-Bensa. Hann hefur áður komið við sögu pistla hjá mér. Gunnar Gunnarsson hefur skrifað um hann stutta sögu sem þó varð mér ofviða. Nú fékk ég sem sé aftur að kenna á þessum nafna mínum.

Sagan var svona: Fjalla-Bensi fór á fjöll til þess að leita kinda ásamt vini sínum. Þeir gistu í fjallakofa við illar aðstæður. Daginn eftir hrepptu þeir óveður og komust við illan leik í næsta skjól með kindina og hund. Um þetta leyti hittu þeir Fjalla-Eyvind í bælinu og áttu þar illa vist. Svo hlógu allir, ég vaknaði og tók undir dynjandi lófatak samferðamanna minna. Seinna sagði Vigdís mér að næturnar hefðu verið hver annarri verri, en Bensi hefði oft gist í gangnamannakofanum sem við stoppuðum í á leiðinni. Ekki veit ég hvort hann gerði það í þetta skipti, en þar hefur vistin væntanlega verið vond.

Við héldum upp á svefnloftið og allir sváfu þar í flatsæng. Ólíkt nóttinni fyrir Hvannadalshnjúk held ég að flestir hafi sofið ágætlega. Fáir hrutu, en ég held varla að það hafi verið vegna þess að þeir hafi verið andvaka. Um sjöleytið voru allir vaknaðir og komnir á ról.

Sólin skein glatt rétt eins og Norðmenn höfðu lofað á www.yr.no. Drottningin skartaði sínu fegursta. Allir voru spenntir og eflaust svolítið kvíðnir eins og ég. Herðubreið er bratt fjall og þar er hætt við grjóthruni, bæði frá öðrum og steinum sem falla að tilefnislausu.

Upp úr hálf níu voru allir komnir út að bílum. Tveir ungir strákar voru á bíl sem ekki komst í gang. Einhver átti spotta og kippti í bílinn þangað til þeir gátu lagt í hann og hurfu af stað.

Sigurður þjóðgarðsvörður tók mynd af okkur Vigdísi með fjallið í baksýn til sannindamerkis um förina. Við töluðum um að veðrið væri betra en í gær og engin ástæða til þess að hætta við. Sigurður sagði eitthvað á þá leið að ef hætt hefði verið við hefði hann farið einn. En allir fóru í hóp.

Við lögðum í hann. Ferðin úr Herðubreiðarlindum að rótum fjallsins tekur líklega um einn og hálfan tíma. Fyrst er ekið suður á bóginn meðfram svonefndum Herðubreiðartöglum, svo beygt á slóða sem ég sá ekki en fararstjórinn þekkti vel. Þræddum við svo torfarna jeppaslóð í átt að fjallinu mikla. Allt í einu sáum við jeppa úti í hrauninu. Var þar kominn bíllinn sem hafði þurft aðstoð fyrr um morguninn. Vélarhlífin var límd niður með gráu límbandi.

Á svona stundu og stað er ekki tóm til þess að kippa bílum í gang þegar vaskur hópur ætlar að leggja í glæsilegasta fjall Íslands. Piltunum tveimur var kippt upp í einn bílinn og förinni haldið áfram. Á slóðarenda var bílastæði og skilti þannig að ekki var um villst að hér átti að ganga upp. Slóðin var augljós framan af, en þegar ofar dró var bent á kletta og skafla til þess að sýna hvar ætti að fara.

Við lögðum af stað upp úr tíu. Ég gekk næst á eftir fararstjóranum sem gekk löturhægt að eigin sögn. Það var gott, því að annars hefði ég ekki haft snerpu til þess að fylgja honum. Ég var nú samt næstur honum til þess að monta mig af því hvað ég væri í góðu formi.

Gangan hefst í um 700 metra hæð og við tókum pásu í um þúsund metrum. Leiðin er brött á þessum kafla en auðgengin. Næsti kafli er svipaður og í um 1.200 metra hæð eru sérkennilegir klettar sem við stoppuðum við. Í klettahlíð á móti var skemmtileg grýlukertamyndun þar sem hvert kertið nam við annað.

Öræfin blöstu við á þessum glæsilega degi og það var auðvelt að glöggva sig á umhverfinu. Ég spurði hvort við sæjum Öskju, en hún er bakvið fjall og sést alls ekki frá Herðubreið.

Á þessum stað settu allir upp hjálma. Næstu 200 metrar eru brattastir og hættulegastir í ferðinni. Stundum gleymist að fjallgöngur eru ekki áhættulausar, jafnvel þó að maður láti allt klifur og príl vera. Þarna var okkur sagt að oft kæmu fljúgandi stóreflis hnullungar og eins gott að verja sig eftir föngum.

Ferðin tók að þyngjast. Næturfrostið gerði það að verkum að urðin var glerhörð. Farastjórinn reyndi að móta þrep í hlíðina og ég sparkaði eins fast og ég gat til þess að meira hald yrði í sporunum. Á neðri hluta leiðarinnar hafði frostið hjálpað okkur því að margir segja frá því að hlíðin sé svo laus í sér, að maður fari eitt skref niður fyrir hver tvö skref upp á venjulegum degi. Í þetta sinn var hún þéttingsföst og góð til göngu. Fljótlega ákvað fararstjórinn að fara fönn þar sem hann varð að höggva þrep í með ísöxi sinni. Til er önnur leið þar sem klettar verða á leið göngumanna. Ég er ekki sannfærður um að okkar leið hafi verið betri, enda velti fararstjórinn því fyrir sér að hætta við uppgöngu, enda var ljóst að hver sá sem missti fótanna í fönninni myndi renna langa og grýtta leið áður en hann stoppaði.

Ég lagði ekkert til málanna en eflaust hefur hann séð vonbrigðin í svipbrigðum mínum og annarra göngumanna því að hann hélt áfram, en hélt út úr fönninni. Eftir um tuttugu metra erfiða göngu komum við aftur á léttari slóð. Þó að leiðin væri brött var hún fær. Aðeins þurfti að gæta þess að við ýttum ekki steinum á þá sem á eftir fóru. Þannig fórum við upp hlíðina með því að skáskjóta okkur til þess að forðast brattann.

Á þessum kafla datt mér í hug bók um ritlist sem við lásum í landsprófi. Þar áttum við að bera saman tvær setningar. Sú fyrri var: Þeir gengu skáhallt upp hlíðina. Seinni útgáfan var: Þeir sniðskáru hlíðina. Svo áttum við að dæma hvor útgáfan væri fallegri.

Öllum fannst glæsilegra að segja að menn hafi sniðskorið hlíðina. Sólveig íslenskukennari var á sama máli. Allir voru sammála. Nema ég. Mér fannst þetta tilgerðarlegt orðalag og uppskrúfað. Aldrei hef ég síðar orðið fyrir því á prenti að nokkur hafi sniðskorið hlíð eða nokkuð annað. Eins og svo oft held ég að þegar nær allir eru sammála um eitthvað er það líklegast rangt.

Við gengum semsé skáhallt upp hlíðina og breyttum oft um stefnu. Það versta var að baki og loks komumst við upp á brún. Ef menn hugsa sér mynd af Herðubreið er hún þannig að hlíðarnar eru snarbrattar, svo kemur smákafli þar sem hallinn er lítill og svo tekur hásléttan við. Hún er reyndar ekki slétt og er öll á fótinn. Í miðju fjalli eða þar um bil er höfuðlaus strjúpi, nokkuð brattur.

Hér áðum við og við Vigdís settumst niður og tókum upp nestið. Vigdís fetaði í fótspor mín á leiðinni upp og var mér afar fylgispök. Enn var himininn heiðskír og landslagið enn tígulegra en áður. Mér varð hugsað til síðasta spalarins upp á Hvannadalshnjúk. Allir voru orðnir örþreyttir (þó að ég héldi reyndar að það væri bara ég á þeirri stundu). Konan sem var fararstjóri þá sagði við okkur: „Allir sem eru komnir hingað komast á tindinn“. Ég hugsaði með mér að nú værum við kominn á þann stað á þjóðarfjallinu. Sigurvíman fór um skrokkinn þó að enn væri nokkuð í takmarkið.

Í kringum okkur var fólkið að koma sér fyrir og tína upp úr bakpokunum. Öllum var heitt eftir gönguna þó að líklega væri hitinn ekki mikið yfir frostmarki. Það var blankalogn og ekki hægt að hugsa sér fallegri dag til þess að vera á þessum stað.

Skyndilega heyrði ég að kona rétt fyrir neðan okkur rak upp skelfingaróp. Eitthvað hafði gerst. Við sáum það ekki en einn af síðustu göngumönnunum hafði dottið framfyrir sig. Allir biðu andartak til þess að sjá hvort hann reisti sig við en það gerðist ekki. Farastjórinn, sem er læknir, fór strax á staðinn. Skömmu síðar voru tvær konur komnar með honum og öll stumruðu yfir manninum.

Vigdís sagði við mig að þetta væri Sigurður Oddsson, þessi nýi vinur okkar. Ég stóð á fætur og gekk í áttina að hópnum, en ég gat ekkert gert. Einhver var kominn í símann til þess að tilkynna hvað gerst hafði. Eftir nokkrar mínútur var ljóst að Sigurður hafði orðið bráðkvaddur.

Það var undarleg tilfinning að sjá manninn liggja þarna, mann sem ég hafði ekki þekkt sólarhring áður, en hafði heillað okkur með hlýlegri framkomu og frjálslegu viðmóti. Við vorum öll slegin og döpur. Mér fannst þetta óréttlátt. Enginn hafði hlakkað jafn fölskvalaust til ferðarinnar og Sigurður. Og svo komst hann ekki upp á tindinn.

Samt eru það auðvitað forréttindi að deyja á fallegum degi að gera það sem menn helst vilja. Hann var kominn upp á öxlina og hafði gengið örfá skref úr brattanum mesta. Í raun hafði hann sigrað fjallið á sama tíma og það sigraði hann.

Næsta klukkutímann eða svo biðum við skipana frá neyðarlínunni. Þegar ljós var að björgunarsveit myndi koma á staðinn hélt stærstur hluti hópsins áfram. Nokkrir biðu. Það var hnípinn flokkur sem gekk af stað. Ég hugsaði um hverfulleik lífsins, hvernig þessi lífsglaði maður varð á örskotsstundu „hinn látni“.

Það sem eftir var ferðarinnar er tiltölulega auðveld leið, grýtt en fannir á köflum. Tindurinn í lokin er brattur og þar var snjór og ís sem gerði hana erfiða uppgöngu. Allir komust þó upp sem reyndu. Sextánhundruð áttatíu og fjórir metrar segir gamla mælingin. Sú nýja (og ranga) er sex metrum lægri.

Kannski höfum við verið kortér uppi á fjallinu. Ég var annars hugar og sá ekki gíginn fræga. Horfði frekar á fjarlæg fjöllin og minntist göngu okkar Vigdísar á Snæfell fyrir þremur árum.

Allir kviðu niðurleiðinni. Það er alþekkt að það er erfiðara að fara niður brött fjöll en upp. Samt komumst við klakklaust niður á öxlina aftur. Fyrstu björgunarsveitarmenn komu um líkt leyti. Við héldum af stað á ný.

Sólin hafði vermt hlíðina svo að nú var auðveldara að fóta sig en áður. Aftur forðaðist fararstjórinn klettaleiðina, en við fórum ekki alla leið í fönnina. Nokkrir steinar losnuðu undan okkur, en enginn varð fyrir þeim enda vorum við Vigdís enn framarlega í flokki. Fljótlega vorum við komin í klettahliðið þar sem við dokuðum en héldum svo áfram niður með samþykki fararstjóra.

Við vorum komin talsvert áleiðis þegar við heyrðum köll og dynki. Þegar við litum við sáum við að síðustu félagarnir voru að fara niður erfiðasta spottann. Stóreflis hnullungum rigndi í kringum þá. Mér leist ekki á blikuna. Hjón sem voru öftust virtust hrasa og mér sýndist steinn lenda í öðru þeirra. Þó vorum við ekki viss þar sem þau lágu í hlíðinni. Þau stóðu þó fljótlega upp og komu sér í skjól.

Við komumst fljótt niður. Ætli klukkan hafi ekki verið rúmlega fimm þegar við vorum við hliðarfótinn? Þeir sem niður komu skiptust á sögum um þessa sérstæðu upplifun. Enginn vissi vel hvort konan varð fyrir steininum eða ekki. Hún var að minnsta kosti á niðurleið. Við stóðum þrjú saman.

Í ljós kom að ég hafði kennt manninum sem ég var að tala við. Það eru tuttugu og fimm ár síðan og hann var í tölvunarfræði við Háskóla Íslands. „Benedikt hefur kennt mörgum“, sagði konan. Henni hafði ég kennt í Verslunarskólanum á svipuðum tíma. Ég skammaðist mín fyrir að þekkja þau ekki, en svona er maður orðinn.

Loks komu þeir síðustu niður. Konuna sárverkjaði í bakið þar sem steinninn lenti á henni. Kannski var hún rifbeinsbrotin.

Við kvöddum hljóðlega og ókum okkar leið. Í baksýnisspeglinum sáum við  drottninguna sem enginn leggur þrautalaust að velli.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.