Ólafur Arnarson: Sofandi að feigðarósi. JPV útgáfa 2009
Ásgeir Jónsson: Why Iceland? McGraw Hill 2009
Einar Már Guðmundsson: Hvíta bókin. Mál og menning 2009
Þorkell Sigurlaugsson: Ný framtíðarsýn. Bókafélagið Ugla 2009
Guðni Th. Jóhannesson: Hrunið. JPV útgáfa 2009
Enginn atburður í Íslandssögunni frá stofnun lýðveldisins hefur haft jafnmikil áhrif á alla Íslendinga og bankahrunið í október 2008. Á árum áður hefði greining á slíkum atburðum beðið þangað til menn hefðu grafið upp viðamiklar upplýsingar og virt fyrir sér afleiðingarnar. Nú er öldin önnur. Í raun og veru er hruninu ekki lokið. Stjórnvöld fást enn við alvarlegar afleiðingar þess og fólk finnur áhrifin á eigin skinni. Að sumu leyti er þessi nútíma kreppa sérstæð. Erlendir blaðamenn sem koma til Íslands eftir hrunið sjá lítinn mun frá því sem áður var. Byggingar standa enn, fyrirtækin starfa, fólk lifir og hrærist svipað og áður. Það sem ekki sést í fljótu bragði er óttinn og vonleysið sem þessi nútímakreppa hefur valdið hjá stórum hluta þjóðarinnar. Atvinnuleysi, gjaldþrot og fólksflótti eru staðreyndir, en það sem verra er, allir eru hræddir um að allt þetta geti aukist á komandi mánuðum og árum.
Líklega er hægt að skipta þátttakendunum í hruninu og hrunadansinum, sem varð í aðdraganda þess, í fimm eða sex fylkingar sem voru fjarri því að vera óháðar hver annarri.
Fyrirtæki drifin af ungum, djarfhuga mönnum, þóttust sjá ný tækifæri sem gamlir, íhaldssamir fauskar hefðu látið framhjá sér fara. Ísland var of lítið land fyrir þessa snjöllu og framtakssömu menn.
Bankar þar sem fáir auðjöfrar voru leiðandi hluthafar. Stjórnendur íslensku bankanna fengu skyndilega aðgang að ódýru fjármagni sem flæddi um heimsbyggðina og vildu ólmir koma því til sinna viðskiptavina. Peningarnir sem voru til voru margfalt meiri en hægt var að eyða á Íslandi og því var útrásin óumflýjanleg.
Eftirlitsstofnanir áttu erfitt með að fylgjast með þessum stóru og ofurríku nýju fyrirtækjum. Á örfáum árum óx bankakerfið svo hratt að hrun þess hlaut að draga Ísland með sér. Seðlabanki Íslands var allt of lítill til þess að geta verið bakhjarl þessa stóra kerfis.
Stjórnmálamenn hrifust með og áttu sína uppáhaldsauðmenn. Ráðamenn létu sér vel líka þegar þeim var boðið í veislur stórfyrirtækja og sumir sóttust eftir flugferðum í einkaþotum þeirra. Þegar gagnrýni kom fram var henni oft hrundið með því að sá sem gagnrýndur var væri í óvinaliði þess sem leyfði sér að tala.
Fjölmiðlar voru flestir í eigu helstu auðmanna landsins og ólíklegt mátti telja að nokkur þeirra myndi beita rödd sinni gegn eigendum sínum. Það var óheppilegt að stærstu eigendur allra bankanna skyldu eiga hver sitt dagblað.
Almenningur fylgdist með og naut í mörgu brauðmolanna sem hrutu af borðum athafnaskáldanna. Enginn virtist gera sér grein fyrir því að lítil raunveruleg verðmæti voru búin til heldur hækkaði verð á því sem fyrir var vegna óeðlilegrar eftirspurnar. Venjulegt fólk var hvatt til þess að kaupa hlutabréf í fyrirtækjum sem það skildi ekki, geyma peninga sína í sjóðum sem voru notaðir til þess að fjármagna ævintýri fjármálabaróna, taka lán sem voru miklu áhættusamari en sérfræðingar bankanna létu í veðri vaka.
Sögu allra þessara hópa þarf að segja og tengja saman. Eftir á að hyggja vill enginn gangast við því að hafa gert neitt rangt. Hið rétta í málinu er hins vegar að allir hafa verið blindaðir að einhverju leyti. Flestir trúðu því að allt væri í himnalagi vegna þess að þeir vildu trúa því. Gagnrýni útlendinga var afgreidd sem öfund. Jafnvel hinir fáu hrópendur í eyðimörkinni gerðu sér ekki grein fyrir umfangi vandans. Nú bíður Íslendinga tvennt: Að skilja hvað gerðist og koma sér út úr vandanum.
Á örfáum mánuðum hafa komið út fjölmargar bækur um bankahrunið á Íslandi. Það er galli á þeim öllum að verið er að skrifa um nýliðna atburði. Nánast í hverri viku bætast við nýjar upplýsingar um það sem gerðist í aðdraganda þessa örlagaríka atburðar í Íslandssögunni. Það er fagnaðarefni að margir vilji skýra hvað gerðist og hvers vegna. Yfirleitt eru þær bækur sem hér eru til umfjöllunar lipurlega skrifaðar. Samt er ekki auðvelt að fara í gegnum frásögn af þessum dapurlegu atburðum aftur og aftur. Flestir hafa höfundarnir verið í kappi við tímann og hafa keppst við að komast sem fyrst á markað með sína frásögn. Það kemur óhjákvæmilega niður á gæðum bókanna. Þó að hér sé fjallað um fimm bækur er þetta ekki tæmandi listi um þau verk sem komin voru út um hrunið þegar ritdómurinn var skrifaður. Þessar fimm bækur eru hins vegar ólíkar og gefa mismunandi sjónarhorn á þessa nýliðnu atburði sem settu mark sitt á nánast hvern einasta Íslending.
Í nóvember 2008 kom út bók Óla Björns Kárasonar Stoðir FL bresta. Þar segir hann sögu eins fyrirtækis sem reyndar varð eins konar flaggskip útrásarinnar. Á forsíðu bókarinnar segir: „Þeir virtust vera töframenn sem kunnu áður óþekkta galdra í alþjóðlegum viðskiptum. Galdurinn reyndist spilaborg.“ Þessi orð segja mikið um rætur hrunsins, en margir virðast þó gleyma því að það voru fyrirtæki sem skuldsettu sig allt of mikið og bankar sem lánuðu þeim allt of mikið. Lánin reyndust ólán.
Hér verður ekki fjallað sérstaklega um bók Óla Björns, en hann endurtekur skoðun sem var algeng síðastliðið ár, að sérstakur vandi Glitnis hafi verið að eigendur voru fjárhagslega veikir. Eftir því sem fleira hefur komið í ljós um hrunið sést að þetta átti ekki bara við um Glitni heldur alla bankana. Þeir höfðu lánað allt of mikið til fyrirtækja helstu eigenda, fyrirtækja sem hafa reynst veikburða og oft gjaldþrota.
Ég ákæri og dæmi
Bók Ólafs Arnarsonar Sofandi að feigðarósi er að mörgu leyti læsileg. Hann hefur fengið nokkrar skemmtisögur úr samtölum sínum við ýmsa þátttakendur í hildarleik bankanna. Þær eru hins vegar alls ekki nægilega margar til þess að halda bókinni uppi. Hann bætir það að hluta til upp með því að vitna í skýrslur hagfræðinga og ýmis önnur gögn. Nokkur fljótaskrift er á bókinni. Til dæmis vantar nafnskrá.
Í upphafi bókarinnar getur Ólafur þess að hann hafi unnið sem aðstoðarmaður ráðherra í fyrstu ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. Hann segir líka frá því að hann hafi unnið í hópi góðra vinnufélaga hjá Landic Property. Það kemur ekki fram að aðaleigandi Landic var Jón Ásgeir Jóhannesson, sem þó hefði verið gagnlegt fyrir lesendur að vita. Það tók á Ólaf að því er segir í formála að skrifa „á mjög gagnrýninn hátt um gamla vini og samstarfsmenn“. Sú gagnrýni nær fyrst og fremst til Davíðs Oddssonar en minna til annarra vina.
Boðskapur Ólafs er einfaldur. Sökudólgurinn í bankahruninu er Davíð Oddsson. Forsíðumyndin, hin kostulega mynd af Davíð og Lárusi Welding bankastjóra Glitnis, gefur til kynna hvert þema bókarinnar verður. Fjölmörg dæmi eru tekin um villur Davíðs fyrr og síðar. Stundum á gagnrýnin við rök að styðjast, í öðrum tilvikum er hún afar hæpin og oft hreinlega röng. Stóra villan í bókinni er að láta eins og Davíð hafi einn og sér komið þjóðinni í þá ógæfu sem hún hefur nú ratað í.
Það vekur líka athygli hverjir eru undanþegnir ábyrgð í bókinni eða hreinlega sleppt. Forsetinn kemur til dæmis hvergi við sögu og margir umsvifamiklir athafnamenn varla nefndir. Það passar reyndar ágætlega við sjónarhorn sögumanns að fjalla lítið um útrásarvíkingana. Sökin er fyrst og fremst Seðlabankans fyrir að láta þá komast upp með að hegða sér eins og þeim sýndist. Þeir voru reynslulitlir menn sem eignuðust banka á tímum þegar auðvelt var að fá ódýrt fjármagn.
Pálmi Haraldsson í Fons, viðskiptafélagi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, sagði í grein í Morgunblaðinu 5. júlí 2005: „Fyrir mér er ekki vafi á því að Jón Ásgeir hefur á umliðnum árum gert meira fyrir íslenskt samfélag en aðrir samtíðarmenn hans og þótt aftar í söguna væri farið. Ég læt það þó liggja á milli hluta að reyna að finna honum verðugan stað í sögu merkra Íslendinga á liðinni öld og þessari, en í mínum huga er það fullljóst að þar mun sagan skipa honum í fremstu röð. Jón Ásgeir var og er alfa og omega þeirrar útrásar og uppbyggingar sem einkennt hefur íslenskt viðskiptalíf á umliðnum árum. Hann hefur verið leiðandi í útrás íslenskra fyrirtækja sem hefur haft gríðarleg áhrif á lífskjör og sjálfstraust okkar litlu þjóðar.“ Miðað við þessi ummæli manns sem vel þekkir til, hefði verið eðlilegt að fjalla ítarlega um „alfa og omega“ útrásarinnar, sérstaklega þar sem deilum hans við Davíð Oddsson eru gerð skil.
Í stuttri umfjöllun um Jón Ásgeir segir Ólafur: „Jón Ásgeir Jóhannesson kom inn í FL Group með nýtt hlutafé og eignir um þetta leyti [í nóvember 2007] og hóf strax að skera niður af miklum krafti og tók vel á því.“ Skilja má að aðrir viðskiptajöfrar hefðu mátt taka þetta til fyrirmyndar. Jón Ásgeir hafði lengi verið í aðstöðu til að vera leiðandi í FL sem stjórnarformaður án þess að það virtist sérstaklega koma fram í kostnaði til lækkunar. Nýlegar blaðafregnir um að þetta félag í nauðasamningum hafi greitt forstjóra sínum fimm milljónir króna í mánaðarlaun vekja upp spurningar hvernig þau hafi verið áður en Jón Ásgeir Jóhannesson „tók á því“.
Davíð sýndi hins vegar „óvild“ í garð Jóns Ásgeirs og fyrirtækja hans; „hafði allt á hornum sér“, setti fram „lítt dulbúna hótun“, stundaði „ógnarstjórn“ og „jós svartagalli“. Davíð sagði í frægu bolludagsviðtali að Hreinn Loftsson hefði sagt Jón Ásgeir vilja kaupa vináttu Davíðs fyrir 300 milljónir króna. Ólafur segir að Hreinn hafi aðeins vísað til þess að orðrómur hefði verið í gangi um að deCode hafi greitt Davíð slíka fjárhæð. Svo segir: „Rétt er að taka fram að ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að sögusagnir um fjárframlög deCode til Davíðs séu annað en óstaðfestur orðrómur“. Orðalag bókarinnar um Davíð og verk hans er með þeim hætti að of hátt er reitt til höggs.
Ólafur skrifar að tilboð ríkisins í að kaupa 75% hlut í Glitni hafi verið afar ósanngjarnt og tilraun til þess að klekkja á Jóni Ásgeiri og öðrum hluthöfum. Sú umfjöllun minnir á skrif Fréttablaðsins strax eftir gjörninginn. Miðað við þær upplýsingar sem nú liggja fyrir er öllum ljóst að Glitnir var í raun „liðið lík“ allt árið 2008 eins og Ásgeir Jónsson segir í sinni bók sem fjallað er um hér á eftir.
Það er meginatriði í kenningum Ólafs að orð Davíðs í sjónvarpsviðtali 7. október hafi orðið til þess að sett voru hryðjuverkalög á íslensku bankana. Að kvöldi dags er viðtal við Davíð og að morgni var ekki að sökum að spyrja: „Næsta morgun var farið að hryðjuverkalögum gegn Landsbankanum.“ „Varla leikur nokkur vafi á að lævi blandið andrúmsloftið í Westminster þessa októberdaga og ógætileg orð formanns stjórnar Seðlabankans vógu þar þyngst.“ Engu skiptir að hvorki Alistair Darling né Gordon Brown hafa vitnað til þessa viðtals. Darling vitnaði í samtal við Árna Mathiesen til þess að skýra hryðjuverkalögin, en það stenst að mati Ólafs varla skoðun og hljóti að flokkast sem eftiráskýringar. Hryðjuverkalögin hljóta að vera Davíð að kenna að mati Ólafs, þó að hann hafi engin rök fyrir því önnur en að ummælin féllu áður en lögunum var beitt.
Vissulega segir höfundur öðru hvoru frá því að ýmislegt hafi verið að í bönkunum. Greinilegast er það í þeim köflum sem teknir eru að mestu leyti upp eftir öðrum. Bókin í heild er hins vegar ákæruskjal á hendur Davíð Oddssyni og ójafnvægið í málflutningnum verður til þess að höfundur missir marks.
Frásögn um margboðað hrun
Ásgeir Jónsson hagfræðingur hefur skrifað fyrstu bókina sem gefin er út á ensku um hrunið. Bók Ásgeirs, Why Iceland?, er öðruvísi uppbyggð en fyrri bækur sem komið hafa út um kreppuna og aðdraganda hennar. Ásgeir var forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings meðan flestir þeir atburðir sem hann lýsir urðu, auk þess að vera lektor við Háskóla Íslands. í bókinni rekur Ásgeir í stuttu máli Íslandssöguna frá kristnitöku árið 1000. Fyrir Íslendinga er áhugaverðast að lesa um þróunina á 21. öldinni allt frá ræðu Sigurðar Einarssonar, þar sem hann setti Kaupþingi ótrúleg markmið, markmið sem enginn taldi raunhæf nema hann sjálfur, en þau náðust samt. Kannski hefur sagan leitt í ljós að hraður vöxtur bankans var óraunhæfur þó að markið næðist og vel það. Með metnaðarfullum markmiðum setti Kaupþing í gang samkeppni milli íslenskra banka, samkeppni sem á endanum leiddi til óskapa fyrir þjóðina.
Ásgeir rekur að þó að íslensku bankarnir hafi keypt erlendar fjármálastofnanir hafi það í raun ekki styrkt þá eins og ætla mátti, því að hver banki var sjálfstæð eining og ekki var hægt að láta peninga flæða yfir til móðurfélagsins. Þetta er einmitt skýringin á því að Icesave-reikningarnir voru í útibúum. Þannig var hægt að færa peningana beint í hítina hér heima af dæmalausu ábyrgðarleysi. Erlendu fyrirtækin fengu líka á sig Íslands-stimpilinn og guldu þess í einhverjum tilvikum hvers lenskir eigendurnir voru.
Nokkrum skemmtilegum myndum er brugðið upp frá aðdraganda hrunsins. Ásgeir segir frá frægri samdrykkju þar sem fulltrúar nokkurra vogunarsjóða komu saman á barnum á 101 Hóteli í janúar 2008 og sögðu að komandi hruni Íslands og ofurgróða sjóða sinna á því mætti líkja við endurkomu Krists. Eftir þennan sérstæða fyrirboða rekur Ásgeir hvernig viðvaranir hrönnuðust upp allt árið. Fjölmargir skrifuðu skýrslur um alvarlega stöðu íslensku bankanna og stórblöð víða um heim birtu fréttir um málið. Þess vegna er það hjákátlegt þegar upp koma raddir um það hvort einhverjir hafi búið yfir „innherjaupplýsingum“ um hrunið. Líklega hafa fáir atburðir fjármálasögunnar verið boðaðir svo víða og með rækilegum fyrirvara. Strax á árunum upp úr 2004 heyrðust efasemdarraddir. Hin gömlu sannindi, að það sem virðist of gott til þess að vera satt sé það sjaldnast, áttu sannarlega við hér.
Í bókinni er fjallað um nokkra af aðalleikurunum í stjórnmálum og viðskiptum á tímabilinu. Ásgeir fer varfærnislega í sakirnar, en þó er greinilegt að hann telur að gagnrýnin hugsun hafi ekki átt upp á pallborðið hjá stjórnendum Landsbankans eða Kaupþings. Glitni segir hann hafa verið orðinn liðið lík í upphafi árs 2008. Það átti ekki síður við um Landsbankann. Allir bankarnir þjáðust af því að lána eigendum sínum allt of mikið. Dómgreindin og varfærnin virðist hafa gleymst. Aðalleikendurnir voru flestir of ungir menn, sem voru of tengdir, fóru of geyst, ætluðu sér um of og tóku of mikla áhættu.
Niðurstaðan er sú að bankahrunið hafi líklega verið óumflýjanlegt úr því sem komið var. Bankarnir hafi verið orðnir tíu sinnum stærri en árleg landsframleiðsla, mynt Íslendinga sú minnsta í heimi og Seðlabankinn hafi ekki haft bolmagn til þess að koma bönkunum eða krónunni til hjálpar. Jafnvel þó að Seðlabankinn hefði á árinu 2008 tekið stórt lán sem honum stóð til boða er óvíst að það hefði gert meira en fresta hruninu. Ríkið hefði staðið enn skuldugra á eftir. Ráðamenn höfnuðu þeirri leið að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þangað til það var orðið óumflýjanlegt. Misskilin sjálfstæðisbarátta varð til þess að hneppa þjóðina í enn meiri skuldafjötra en þörf hefði verið á. Samt veltir Ásgeir því fyrir sér hvað hefði gerst ef Seðlabankinn hefði getað fleytt bönkunum yfir erfiðasta hjallann í október. í kjölfarið hefði ef til vill reynst auðveldara að taka upp einhvers konar frjálsa nauðasamninga við lánardrottna sem þá hefðu verið tilkippilegri til þess að ræða skilmálabreytingar og afskriftir lána.
Bók Ásgeirs er ekki gallalaus. í henni eru nokkrar villur, t.d. röng ártöl, sem auðvelt hefði verið að leiðrétta með yfirlestri. Á stöku stað virðist eins og hann vilji verja bankana, til dæmis þegar hann fjallar um umfjöllun Danske Bank, en Ásgeir segir greinendur bankans hafa viljað verða helstu álitsgjafa um Ísland á alþjóðlegum vettvangi. „Modesty was not one of their virtues,“ segir Ásgeir. Manni dettur í hug að hógværð hafi kannski ekki heldur þrúgað starfsmenn íslenskra greiningardeilda á þessum árum. Út frá stöðu Ásgeirs hefði verið fróðlegt að sjá úttekt á störfum íslenskra greiningardeilda á þessum tíma.
Eftir að bókin fór í prentun hefur margt komið fram sem varpar frekara ljósi á það sem gerðist og mun breyta skoðun manna á orsökum hrunsins. Líklega mun höfundur síðar endurskoða sumar kenningar sínar með hliðsjón af nýjum upplýsingum. Hér er þó komið það rit um bankahrunið sem gerir besta tilraun til þess að skýra ástæður þess, skrifað án þess að reyna að fegra hlut neins eða reyna að klekkja á ákveðnum mönnum.
Óbærileg veröld frjálshyggjunnar
Hvíta bókin eftir Einar Má Guðmundsson rithöfund er að stofni til safn greina sem hann skrifaði í Morgunblaðið síðastliðinn vetur. Hann hefur gefið sér tíma til þess að fara yfir efnið og endurskrifa í ljósi þess sem gerðist síðar. Samt er bókin eins og ferð án fyrirheits. Höfundur svamlar hér og þar. Kannski hugsar hann kaflana sem lög, rétt eins og lögin á Hvítu plötu Bítlanna, sem er greinilega fyrirmynd bókarhönnunar.
Einar er reiður. Hann er ósáttur við marga. Frjálshyggjan er birtingarmynd hins illa. Hannes Hólmsteinn er kannski ekki sá svarti sjálfur, en Einari er mjög uppsigað við þennan ára frjálshyggju og frelsis. Hannes kemur fram sem fulltrúi auðmannanna sem vildu ekki hugsa um þjóðfélagsmál heldur „græða á daginn og grilla á kvöldin“. Af nógu er að taka þar sem Hannes lofsyngur einkaframtakið og margt hljómar hjákátlega núna. Hann varaði þó stundum við hinni innhaldslausu auðhyggju. Einar segir: „Hannes Hólmsteinn Gissurarson taldi sig geta hlegið að Svíum og tekið Halldór Laxness í nefið.“ Þeir sem lesið hafa bækur Hannesar um Halldór Laxness, en ekki látið sér nægja að fordæma þær, vita til dæmis að hann er mjög hrifinn af skáldinu, þó að honum þyki eins og fleirum lítið til um stjórnmálaskoðanir hans á yngri árum.
Það eru fleiri vondir en Hannes. Ekki þarf að lesa lengi til þess að sjá að Einar hefur litlar mætur á forseta lýðveldisins. „I stað þess að vera forseti þjóðarinnar og menningar hennar gerðist Ólafur Ragnar Grímsson forseti viðskiptalífsins, eiginlega hirðfífl þess.“ Einar undrast að Ólafur skuli ekki hafa sagt af sér eins og Geir Haarde og Ingibjörg Sólrún sem „kokgleypti frjálshyggjuna“. Geir kemur lesendum fyrir sjónir sem góðgjarn maður sem féllust gersamlega hendur við hrunið og var svo barnalegur að trúa því að kreppan kæmi frá útlöndum.
Ekki voru allir stjórnmálamenn eins, og það er greinilegt að Einar Már er að mörgu leyti svag fyrir Davíð Oddssyni, þó að Davíð hafi hrundið af stað einkavæðingunni sem Einar telur stórhættulega. Einar fordæmir Samfylkinguna sem hafi ekki talað um neitt nema „Evrópusambandið, evruna og Davíð Oddsson“. Einar segist hafa sagt við menn síðastliðið haust: „Kannið fyrst það sem Davíð Oddsson segir og snúið ykkur svo að Davíð. … [A]llt sem Davíð Oddsson sagði á fundinum á Hótel Nordica var rétt. … Þetta er staðreynd, hvort sem Davíð Oddsson var óhæfur eða ekki, en umræðan snerist öll um það og hvað hann mátti segja og hvað ekki.“
Samfylkingin hefur þó „tekið framförum eftir að hún sleit stjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn. … Þá tók Samfylkingin upp samstarf við Vinstri græn, eina flokkinn sem getur þvegið hendur sínar af fjármálaspillingunni.“ Vinstri græn, sem Einar Már var í framboði fyrir í vor, eru sem sé saklaus. Eini flokkurinn sem ber ekki ábyrgð á neinu.
Hvað um fjölmiðlafrumvarpið? Var það ekki tilraun í þá átt að gæta þess að auðmennirnir réðu ekki allri umræðu í landinu? Hverjir voru á móti því? Enginn vafi er á því að ein af ástæðunum fyrir því hversu grandvaralaus þjóðin var er sú að auðmenn stýrðu umræðunni. Björgólfur Guðmundsson sagði eitthvað á þá leið að völdin í þjóðfélaginu hefðu færst frá stjórnmálamönnum til viðskiptalífsins. Hann hafði á réttu að standa. Stjórnmálamenn sem fengu að sitja í kjöltu auðmannanna fögnuðu breytingunni.
Jóhanna Sigurðardóttir er góður stjórnmálamaður samkvæmt Hvítu bókinni. Eftir að hún varð forsætisráðherra „hafa menn þóst greina meiri heiðarleika og hreinskiptni af hálfu [Samfylkingarinnar]“.
Hvíta bókin er gerólík öðrum bókum sem komið hafa út um hrunið. Einar er ekki að reyna að lýsa atburðarásinni eða skilja hvað olli vandanum. Hann veit að það er frjálshyggjan. Víða finnst manni Einar túlka hugsanir fólks sem hefur lent saklaust í kreppunni. Hann fer frjálslega með staðreyndir hér og þar og segir á einum stað: „Eg tek fram að þetta er saga sem flýgur um samfélagið, og ég trúi henni, en sel hana ekki dýrar en ég keypti.“
Bókin er víða skemmtileg, fyndnar smámyndir lyfta frásögninni upp. Það er af nógu að taka í gegndarlausri ofneyslu auðmanna og bláeygri dýrkun annarra. Bókin hefði vel mátt vera styttri og nafnaskrá hefði verið gagnleg. Einar Már segir að fyrst eftir hrunið hafi eftirfarandi brunnið á almenningi: „Við vildum fá að vita hvort sett yrði á auðlindagjald, orkugjald til stóriðju. Hvað með að innkalla kvótann, leigja hann út og leggja arðinn í þjóðarsjóð?“ Ekki ætla ég að segja að Einar sé ekki almenningur, en ég er samt viss um að margir hafa hugsað meira á þessum nótum: „Held ég vinnunni og húsinu? Get ég búið áfram á Íslandi? Er allt mitt ævistarf hrunið?“ Því miður er ekki búið að svara þessum spurningum með viðunandi hætti enn þann dag í dag.
Upp skal rísa Ísaland
Bók Þorkels Sigurlaugssonar, Ný framtíðarsýn, er að því leyti öðruvísi en hinar bækurnar sem hér er fjallað um, að hann beinir sjónum sínum ekki síður fram á við en um öxl. Markmið Þorkels er að skrifa bók sem nýtist við endurreisn efnahagslífsins. Hvernig á að byggja upp fyrirtæki sem verða burðarásar á Íslandi í framtíðinni? Þorkell hefur langa reynslu af íslensku atvinnulífi, bæði sem stjórnarmaður í fyrirtækjum og sem starfsmaður hjá Eimskipafélaginu og Háskólanum í Reykjavík. Stefnumótun, nýsköpun og stjórnun hafa verið meginviðfangsefni Þorkels undanfarna áratugi. Þorkell var stjórnandi hjá Eimskipafélaginu þegar það var leiðandi í viðskiptalífinu. Hann rekur það hvernig Björgólfur Guðmundsson markaði Eimskipafélaginu árið 2003 nýja stefnu: ,,[Þ]að þarf að breyta hugsunargangi og menn þurfa að vera djarfari.“ Þetta var sú stefna sem útrásarvíkingarnir tóku almennt hjá íslenskum fyrirtækjum á árunum 2003 til 2007. Fyrirtæki sem áður höfðu fylgt íhaldssamri stefnu um áratugi voru látin skipta um gír, voru gíruð upp sem kallað var. Skuldir voru stórauknar vegna þess að aðgangur að lánsfé var auðveldur. Stórveldi sem áður voru gagnrýnd sem kjarni „kolkrabbans“ svonefnda, Eimskip og Sjóvá, hafa bæði orðið gjaldþrota í raun á aðeins örfáum árum undir nýjum herrum, herrum sem mörkuðu djarfa og framsækna stefnu.
Þorkell rifjar upp ummæli Davíðs Oddssonar sem var arkitekt að sölu ráðandi hlutar í ríkisbönkunum til handvalinna manna í upphafi árs 2003. Davíð sagði 22. september 2003: „Kosturinn kannski við það sem tengist Björgólfi Guðmundssyni og þeim feðgum og því samstarfi sem þeir eru í, sem maður fagnar, er að þeir eru að koma með fjármuni til íslands. Þeir eru að fjárfesta hér heima. Það verður okkur öllum til gagns.“ Nú hefur komið í ljós að þeir feðgar komu þá aðeins með tiltölulega litla fjármuni til landsins og fengu lán innanlands til þess að kaupa Landsbankann. Meginforsenda Davíðs fyrir því að velja þá feðga var því röng. Margir hafa bent á að ekki var litið á þekkingu á bankarekstri þegar bankarnir voru seldir.
Þorkell tekur dæmi af einstökum málum þar sem grundvallarsjónarmið í fyrirtækjarekstri hafi verið hundsuð á undanförnum árum. Eitt þessara dæma er REI þar sem menn hugðust blanda saman þekkingu og auðlindum í almannaeigu við fjármagn sókndjarfra auðmanna. Við þetta áttu verðmæti að verða til úr engu. Stjórnmálamenn höfðu hvorki skilning né þekkingu á því sem um var að tefla og gerðu afdrifarík mistök sem drógu á eftir sér langan pólitískan slóða.
Þorkell er laginn við að skýra meginviðfangsefni sitt með nýlegum sögum úr viðskiptalífinu. Hvers vegna vita stjórnarmenn fyrirtækja ekki um stóra styrki þeirra til stjórnmálaflokka? Hvort er um að kenna forstjórum sem ekki upplýsa stjórnina eða stjórnarmönnum sem ekki spyrja réttra spurninga? Hlutverk endurskoðenda hlýtur líka að koma mjög mikið til skoðunar, þegar í ljós kemur að fyrirtæki, sem sögð voru vera með mikið eiginfé, eiga þremur mánuðum síðar ekki fyrir nema broti af skuldum. Eru þeir hræddir við forstjórana, þorðu þeir ekki að benda á brotalamirnar?
Þó að gott sé og nauðsynlegt að fara yfir söguna af mistökum liðinna ára er líka mjög mikilvægt að gleyma því aldrei að meginatriðið er að endurreisa efnahagslífið. Þess vegna eru bækur eins og Nýframtíðarsýn mjög mikilvægar.
Annáll óvissra tíma
Hrunið eftir Guðna Th. Jóhannesson er mikilvæg bók um atburðina frá miðjum september 2008 fram til loka janúar 2009. Eiginlega er hægt að líkja henni við annál þessa tímabils þar sem atburðir eru raktir frá degi til dags, jafnvel nákvæmlega farið yfir viðburði hvers dags um sig þegar mest var um að vera. Guðni les blöð, horfir á sjónvarpsviðtöl og skoðar blogg. Þannig fær hann mismunandi sjónarhorn á aðstæðurnar. Sumir stjórnmálamenn hafa leyft honum að lesa tölvupósta sína. Slíkt skiptir miklu og setur lesendur í spor innherja. Hins vegar virðast ekki allir stjórnmálamenn hafa gefið honum sama aðgang sem rýrir frásögnina. Svo vakna alltaf spurningar um það hvort allir tölvupóstar eða bréf séu sýnd eða aðeins þau sem menn kjósa að birta eftirá. Þannig geta heimildarmenn innan úr kerfinu hagrætt upplýsingum sem þeir koma á framfæri. Guðni hefur eflaust verið vakandi fyrir þessu, en á þeirri stundu sem bókin er skrifuð vantar mikið á að allur sannleikur sé kominn í ljós. Þetta er auðvitað vandi allra þeirra sem eru að skrifa um nýliðna atburði. Þeir hafa kosti nándarinnar, þeir muna enn sjálfir hvað þeir upplifðu, en þá skortir dýptina.
Sá sem hefði verið einangraður í myrkviðum Afríku allan þann tíma sem Guðni skrifar um væri líklega fróðari af því að lesa bókina en sá sem hefði fylgst með fréttum frá degi til dags. Myndin af því sem gerðist er miklu heildstæðari en fékkst af því að upplifa atburðina. Kannski vantar tilfinningu fyrir örvæntingunni og vonleysinu sem greip fólk og heldur mörgum enn í heljargreip. Ráðleysi og það sem oft birtist sem tilfinningaleysi stjórnvalda verður kannski aldrei lýst í bók sem á að segja frá sögulegum staðreyndum. Samt bregður Guðni upp mörgum myndum sem meitlast inn í huga lesenda. Ef til vill eru bloggheimum gerð of mikil skil. Þeir sem helst tala þar eru ekki endilega þversnið af þjóðinni, þó að þeir gefi innsýn í hugarheim ákveðins hóps.
Orsakir kreppunnar koma lítt fram í Hruninu þó að auðvitað nefni Guðni flest það sem nefnt hefur verið til skýringar. Sjaldnast kemur þó fram hvað er birtingarform vandans fremur en undirrót. Ofureyðsla almennings, fyrirtækja og hins opinbera er vegna þess að nóg var til af lánsfé, alveg þangað til ekkert var til af peningum. Enginn var neyddur til að taka lán, en fjölmiðlar ýttu undir samkeppni almennings. Í Fréttablaðinu var haustið 2007 efnt til keppni um það hvaða auðmaður lifði öfundsverðasta munaðarlífinu.
Ekki verður sagt að Guðni láti sér nægja hlutverk hins hlutlausa annálaritara. Hann hefur skoðun á því sem er að gerast án þess að hægt sé að saka hann um fordóma eða markmið með skrifunum. Eftir hvern annál kemur kafli þar sem Guðni „lítur um öxl“. Hann hlífir hvorki stjórnmálamönnum né viðskiptajöfrum. Meira að segja listamenn fá sinn skammt þegar sagt er frá því að fálkaorðuþeginn og vinur forsetahjónanna, barónessan Fransesca von Habsburg, kallaði frá veitingastaðnum Við Tjörnina þann 21. janúar 2009: „Darlings, come up here and have some Champagne!“ Einhverjir listamenn þáðu að eigin sögn boðið og fóru út á svalir með vindla og kampavín og horfðu á „táragassprengingar og lögregluna berja fólk“. Firringin sem þessi litla saga segir gefur hugmynd um andstæðurnar á Íslandi bæði fyrir og eftir hrunið.
Þegar fram líða tímar er líklegt að rit Guðna verði talið grundvallarrit um atburði haustið 2008 og fram á vorið 2009. Ekki er ólíklegt að Guðni muni síðar meir bæta við bókina og breyta þegar fleiri heimildir liggja fyrir. Þá verður hún blanda af tvennu: Samtímaheimild og sagnfræðilegri úttekt á þessum umbrotatímum í sögu þjóðarinnar.
Samt verður því miður að vara við því að umfjöllun um hrunið endi í lok janúar 2009. Aðgerðaleysið hefur haldið áfram og því miður standa Íslendingar að mörgu leyti enn í sömu sporum í september 2009 og þeir gerðu í október 2008. Þjóðin er reið yfir öllu því sem aflaga fór. Atburðirnir birtast oft sem gáleysi glæframanna og sinnuleysi stjórnvalda. Fortíðina þarf að gera upp og það er sýnilega langt þangað til að það uppgjör liggur fyrir. Á sama tíma þarf að byggja upp nýtt og traust þjóðfélag.
Birtist í haustriti Skírnis árið 2009
Ég hef síðar skrifað um bók Björns Bjarnasonar: Rosabaugur yfir Íslandi og bók Þórðar Más Jóhannessonar Kaupthinking, sem og bókina Ísland ehf. eftir Þórð Má Jóhannesson og Magnús Halldórsson. Sagði svo stuttlega frá bók Sveins Haralds Øygards sem var seðlabankastjóri í stutta stund árið 2009.