Ég hefi hina mestu fyrirlitningu á Íhaldsmönnum

Það er gaman að velta sögunni fyrir sér og oftast þegar við lítum um öxl og lesum um fortíðina eru það sögur af ráðamönnum, listamönnum eða öðrum afreksmönnum sem drýgja einhverjar hetjudáðir. Miklu sjaldnar sér maður frásagnir af daglegu lífi fólks sem gerir hversdagslega hluti. Sem betur fer eru þó til ýmsar heimildir um slíkt og þá sér maður hve ótrúlega margt kemur fyrir þegar ekkert sérstakt er um að vera.

Ég kíkti inn á síðuna http://www.bjarnibenediktsson.is en þar eru ýmis skjöl sem tengjast Bjarna, ræður, greinar og dagbækur frá árunum 1926-8. Það er gaman að lesa um daglegt líf menntaskólanema á þessum árum, en Bjarni segir frá því hvað hann les, hverja hann hittir og hvert hann fer. Hann les mikið með Sveini bróður sínum, en Bjarni var á undan í skóla og er 18 ára en Sveinn, sem var þremur árum eldri, hafði tafist í námi. Þeir urðu báðir stúdentar þá um vorið, en Sveinn átti erfitt með að fá nægilega stóra stúdentshúfu.

Bjarni hittir oft Pétur bróður sinn og þeir ganga saman um bæinn. Þeir bræður virðast hinir bestu vinir, skapstórir, en stundum fljúgast þeir á, oft af litlu tilefni. Daginn eftir er allt fallið í ljúfa löð.

Það er fróðlegt að lesa hverja Bjarni umgekkst á þessum árum. Meðal þeirra sem við sögu koma eru Ragnar Ólafsson, frændi hans, og (Finnbogi) Rútur Valdimarsson, báðir miklir kommar seinna meir. Þess er getið þegar Ragnar og fleiri fóru inn í Skerjafjörð til þess að baða sig að Ragnar kastaði af sér klæðum og ætlaði að stinga sér allsber til sunds að hann datt þá ofan af barði ofan á par sem þar lá. Ekki þarf að efast um að það hafi verið vandræðaleg uppákoma.

Ekki var gefið frí við þingsetningu eins og venja hafði verið og 6. bekkingar skrópuðu. Bjarni var það fremstur í flokki og við lá að öllum yrði vísað úr skóla. Þetta varð spennandi saga og leituðu skólasveinar fulltingins þingmannanna Sigurðar Eggerz, Bjarna frá Vogi og Benedikts Sveinssonar, föður Bjarna. Mér fannst gaman að því að sjá að Benedikt, sem var afi minn, studdi skrópagemlingana. Ég er ekki alveg viss um að mamma hefði stutt mig í svipuðum aðgerðum.

Reyndar skrópaði ég einu sinni í Menntaskólanum til þess að vera við þingsetningu. Það var hausti 1972 að við fórum tveir bekkjarbræður niður á Austurvöll og sátum þar á bekk undir Jóni Sigurðssyni og horfðum á þingmenn koma í fylkingu út úr Dómkirkjunni. Ég man hvað mér fannst þeir virðulegir í sparifötunum með forsetann og biskupinn í fararbroddi minnir mig. Veður var stillt og lögregluþjónar heilsuðu með honör.

Hljóp þá lítill úlpuklæddur maður framhjá lögregluþjónunum með fötu í hendi og byrjaði að ausa skyri yfir hefðarmennin. Hann fékk dágóðan tíma til þess að athafna sig þar til ein löggan hljóp á eftir honum og felldi hann. Þetta var þá Helgi Hóseasson.

Við fórum svo upp á þingpalla og menn höfðu misvel náð að þrifa sletturnar af sér. Ég man að við bakdyrnar þar sem leiðin er upp á þingpalla var dallurinn, heldur óásjálegur, kannski stór málningardós, ekki alveg tóm. Mér datt hvorki í hug að stela þessum sögulega grip eða laumast með hana upp á palla og tæma hana, en hvort tveggja hefði mér verið í lófa lagið.

Víkur sögunni þá aftur til ársins 1926. Bjarni var ekki hrifinn af Jóni Þorlákssyni fjármálaráðherra og segir um ræðu Jóns um flokkakerfið í mars að í fæstum orðum verði henni lýst með orðum Ólafs Friðrikssonar, sem hafi sagt af öðru tilefni „Áður en heimspekingarnir fengju það til umfjöllunar væri best að Þórður liti á það.“ (Þórður Sveinsson var yfirlæknir á Kleppi).

Skömmu síðar segir Bjarni frá því að Lárus Blöndal, vinur hans og síðar mágur, hafi spurt hann „hvort ég muni fáanlegur til þess að ganga í stjórnmálaflokk í skóla, gegn jafnaðarmönnum. Ég játa því, en get þess jafnframt að ég hefi hina mestu fyrirlitningu á Íhaldsmönnum.“

Daginn eftir ræðir hann við félaga sinn um stjórnmálaefni og þeir eru sammála um að Jón Þorláksson sé „fordæmanlegur sem fjármálaráðherra.“

Allt er þetta fróðlegt í ljósi þess að Bjarni varð síðar þriðji formaður Sjálfstæðisflokksins og fetaði þar í fótspor Jóns og Ólafs Thors. Lárus sem á þessum árum var hægrisinnaður varð síðar mikill kommi og vinur Einars Olgeirssonar. Mamma hélt að Lárus hefði snúist þegar hann varð ekki formaður Heimdallar.

Um Lárus er þess annars getið í dagbókunum að hann hafi verið kendur einhvern dag, en um engan mann annan er það tekið fram. „Snemma hefur krókurinn beygst,“ hugsaði ég.

Á þessum fimm mánuðum sem ég er búinn að lesa koma mamma og Ólöf systir hennar aldrei við sögu, en þær voru þá sex ára gamlar systur Bjarna. Svo hversdagslegar voru þessar dagbækur ekki.


Á myndinni eru bræðurnir Sveinn, Bjarni og Pétur Benediktssynir með Ragnhildi Ólafsdóttur, ömmu sinni. Myndin er líklega tekin á svipuðum tíma og dagbækurnar eru skrifaðar, þ.e. 1926-8.

 

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.