Baráttan um Ísland heldur áfram

Ísland ehf. Auðmenn og áhrif eftir hrun. Magnús Halldórsson og Þórður Snær Júlíusson. Útg. Vaka Helgafell 2013. 292 bls. Kilja.

Margir hafa áhuga á hruninu á Íslandi og afleiðingum þess og eflaust eru bækurnar sem um það fjalla komnar á annan tug. Enn er langt í að skrifuð hafi verið sú bók sem hægt er að segja að sé Bókin með stórum staf. Enda verða menn seint sáttir um það hverjir séu sökudólgar og hvort það hafi verið eitthvað sérstakt sem olli því, að tugir manna sem fyrir rúmum áratug virtust vera venjulegir þjóðfélagsþegnar breyttust skyndilega í grunaða og síðar dæmda menn. Flestir eru sammála um að leita þurfi orsakanna að hruninu og mikilvægt sé að skilja þær vel. Um mikilvægi sögunnar eru mörg spakmæli, til dæmis það að þeir sem ekki kunni söguna séu dæmdir til þess að endurtaka hana.

Bók þeirra Magnúsar og Þórðar fjallar um fyrsta kaflann í sögu sem gæti orðið endurtekning á hinni fyrri. Þeirra bók byrjar þar sem flestar hinna enda. Marga hefur grunað að hafi margt misjafnt átt sér stað fyrir hrun séu tímarnir sem við tóku ekki betri. Við sjáum ofmetnar eignir, brellur og sjónhverfingar, vinargreiða og vængstýfða fjölmiðla. Allt virðist þetta kunnuglegt.

Hressileg bók

Höfundarnir hafa báðir unnið sem blaðamenn undanfarin ár og geta í bókinni nýtt sér ýmislegt efni og þekkingu sem þeir hafa öðlast við skrif um stjórnmál og fyrirtæki. Það er greinilegt að þeir hafa talað við marga af þeim sem þátt tóku í leiknum en engan veginn alla, enda sumir vandfundnir og aðrir lítt fúsir að mæta til yfirheyrslu, hvort sem það er hjá blaðamönnum eða í réttarsal.

Í upphafi lýsa höfundar ringulreiðinni sem skapaðist hér á landi eftir hrunið. Neyðarlögin björguðu vissulega mörgu og hafa án nokkurs vafa verið besta innlegg sem stjórnvöld gátu komið með á þeim tíma. Það er auðvitað létt verk að gagnrýna núna margt sem gert var í aðdraganda hrunsins og vikurnar og mánuði þar á eftir, en þá höfðu stjórnvöld aðeins takmarkaðar upplýsingar. Skipulega hafði verið villt um fyrir mörkuðum og verðgildi eigna og starfhæfi fyrirtækja því engum ljóst. Nú styttist í fimm ára afmæli hrunsins og enn fer því fjarri að öll kurl séu til grafar komin.

Höfundar fara ekki eins og kettir í kring um heitan graut. Lítið dæmi: „Í tilkynningu frá Seðlabanka Íslands var sagt að kaupverðið á FIH væri 103 milljarðar króna, eða 670 milljónir evra. Því virtist sem Seðlabankinn hefði hagnast verulega á þessari „fjárfestingu“. Það átti eftir að reynast blekking. … Lánveitingin til Kaupþings reyndist Íslandi því ákaflega kostnaðarsöm. Helmingur upphæðarinnar sem lánuð var, og rökstuddur grunur er fyrir að hafi verið notuð í ýmislegt vafasamt að mati embættis sérstaks saksóknara, er tapaður. Í þeim gjaldeyrisvandræðum sem Ísland á í þegar þetta er skrifað er ljóst að sú upphæð hefði nýst vel.“

Fyrstu skrefin

Í bókinni er lýst því hvernig fór fyrir nokkrum af þeim sem hæst flugu í viðskiptalífinu á árunum fyrir hrun. Baráttunni um þrotabú Björgólfsfeðga, Baugsfeðga og Bakkavararbræðra er lýst og stundum sést að vendingar hafa verið mjög gegn þeirri reglu, að eitt skyldi yfir alla ganga. Návígið á Íslandi veldur því að oft eru gamlir vinir og félagar að fást við mál jöfra sem flugu svo hátt fyrir brotlendingu, þannig að í sumu virðast þeir hafa fengið eignir á silfurfati, þó að önnur dæmi megi nefna þar sem sanngirni og jafnræðis hafa ekki verið gætt. Til dæmis kemur fram að bankarnir hafi aldrei tekið hlutabréf í sjávarútvegsfyrirtækjum þó að þeir hafi fært niður skuldir þeirra.

Ekki þarf að efast um að sá skuldaþvottur sem mörg fyrirtæki fóru í gegnum við hrunið var nauðsynlegur, en í bókinni er bent á að ekki hafi verið nóg að gert og líklega þurfi mörg fyrirtæki að fara gegnum aðra hreinsun: „Verði sú raunin má segja að þvotturinn hafi aldrei verið tekinn út þvottavélinni eftir fyrsta þvott, heldur látinn súrna inni í henni í nokkur ár áður en vélin er sett aftur af stað og nú á mun meiri hita. Vonandi hefur þvotturinn ekki skemmst á meðan hann lá og súrnaði.“

Hverjir eiga Ísland?

Ísland ehf. er ágætis yfirlitsrit um stöðuna í íslensku viðskiptalífi eftir hrunið. Nýir aðilar skjóta upp kollinum þó að ekki séu þeir áður óþekktir. Höfundar gefa líka í skyn að ekki sé loku fyrir það skotið að þessir „nýju“ menn séu í raun nátengdir þeim gömlu, svo ekki sé meira sagt. Peningar sem geymdir voru erlendis hafa komist inn í landið á ný og menn þannig náð sterkri stöðu með því að verða fyrstir að kjötkötlunum. Greiðasemi var algeng fyrir hrun og ekki hefur greiðviknin horfið þó að nú eigi að vera nýtt Ísland. Vildarvinir komast framar í röðina en aðrir.

Greinilegt er að höfundarnir hafa aðgang að ágætum heimildum og góðum heimildarmönnum. Bent hefur verið á að ekki sé alls staðar rétt með farið og sjálfsagt eru dæmin fleiri en þegar hefur komið fram opinberlega. Stjórnmálamenn, einkum Steingrímur J. Sigfússon, hafa skipt sér mikið af einstökum málum. Áhugavert og nauðsynlegt er að sú saga verði sögð í heild. Ekki standast höfundar þá freistingu að draga Bjarna Benediktsson inn í söguna þegar þeir segja: „Bjarni veðsetti hlutabréf í Vafningi …“, en auðvitað vita þeir að hann kom þar aðeins fram sem umboðsmaður annarra. Ekki er getið um aðkomu annarra lögmanna að slíkum gjörningum sem eflaust skipta tugum.

Í heild er bókin auðlesin og gagnlegt rit til upprifjunar á því sem gerst hefur eftir hrun og heldur áfram að gerast á degi hverjum. Engin ástæða er til þess að ætla að freistingar verði ekki jafnmargar nú og áður. Aðhald frá fjölmiðlum er lítið og oft ekki málefnalegt. Stjórnmálamenn eiga fullt í fangi við þau vandamál sem þjóðarbúið í heild glímir við og eru fæstir líklegir til þess að benda á hvað er að gerast í viðskiptalífinu.

Þess vegna eru bækur á borð við Ísland ehf. nauðsynlegt innlegg í umræðuna, en þær duga ekki til þess að tryggja heiðarleika í viðskiptum og samskiptum. Þar sem glufur finnast verða einhverjir sem smeygja sér inn í þær.


Birtist í Vísbendingu 16.9.2013

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.