Berum við öll ábyrgð á friði og frelsi? (BJ)

Í fyrradag fór ég á sýningu og fyrirlestra um ógnarstjórnir í Evrópu. Tveir fræðimenn sögðu í Þjóðarbókhlöðunni frá kúgun Sovétvaldsins á löndum sínum, annar frá Eistlandi, hinn frá Póllandi. Pólland varð reyndar fórnarlamb tveggja einræðis- og ofbeldisríkja. Þeir Hitler og Stalín skiptu landinu á milli sín með vinasáttmálanum 23. ágúst árið 1939. Báðir unnu þjóðinni skelfilegt tjón með grimmd sem er óskiljanleg þangað til menn standa frammi fyrir henni.
Ég á bók um Varsjá árið 1945. Borgin var bókstaflega alveg í rúst. Sjálfur kom ég þangað fyrst árið 1986 og þó að mikið hefði áunnist var landið áratugum á eftir Íslandi og öðrum vestrænum ríkjum. Samstaða, verkalýðsfélag Lech Wałęsa, hafði verið barin niður af hörku fimm árum áður, en hann var þó ekki skotinn eins og venjan var á dögum Stalíns og Leníns. Það vill reyndar svo til að við Vigdís vorum í Þýskalandi daginn sem herinn (les: Kommúnistaflokkurinn Moskvuarmur) tók völdin. Þetta var í desember árið 1981 og ég man eftir einum Trabant bíl með pólskum númerum sem ók í gegnum snjófjúkið. Við vissum ekki hvað hafði gerst, en líklega hefur einhver átt möguleika á frelsi meðan hermönnum var fylkt til Varsjár.
Ég fylgdist af miklum áhuga með frelsisbaráttu Eystrasaltslandanna og hvernig Sovétherinn undir forystu Gorbasjoffs reyndi að berja mótstöðuna niður. Á Íslandi og víðar um Vesturlönd trúðu menn því ekki að þessi góðgjarni maður væri í raun og veru varðhundur Sovétríkjanna, en hvar sem maður kom í löndin fyrir Eystrasaltsbotni var hann fyrirlitinn og jafnvel hataður.
Í Vilnius hef ég farið á KGB-safnið, safn til minningar um ógnarverkin sem kommúnistar frömdu eftir stríðið. Smám saman voru allir sem leyfðu sér frjálsa hugsun fluttir í fangabúðir, menn voru settir í einangrun í almyrkvuðum herbergjum, fengu að standa naktir á litlum stöpli í miðju herbergi þar sem ískalt vatn umlukti stallinn og menn fengu að kenna á þegar fæturnir báru þá ekki lengur. Í veggjunum voru byssukúlur.
Árið 1968 tók ég þátt í mótmælum við sendiráð Sovétríkjanna eftir innrásina í Tékkóslóvakíu. Sovétmenn í fylgd með leppríkjum sínum kæfðu tékkneska vorið. Þetta hafði mikil áhrif á mig. Ég áttaði mig á mikilvægi frelsisins.
Ég var á þeirri stundu sannfærður um að Ísland væri í liði með góðu gæjunum. Samt ruglaði það mann á þessum árum að okkar menn voru ekki alltaf sú fyrirmynd sem við hefðum viljað og trúðum. Sumir voru sannfærðir um að allt sem Bandaríkjamenn gerðu hlyti að vera rétt. Víetnam-stríðið var gegn kommúnistum og þess vegna væri það gott stríð. En ég hugsað stundum: Hvers vegna notum „við“ napalm, efni sem brennir húðina, á óvini okkar? Hvers vegna drepa bandarískir hermenn konur og börn í þorpinu My Lai, en þar voru hundruð manna drepin með köldu blóði á bandarískri hersveit? Hvers vegna styðjum „við“ glæpona bara af því að þeir eru á móti óvinum okkar?
Sem betur fer fæddist ég áratug eftir að heimsstyrjöldinni lauk, en kalda stríðið var þó alltaf nálægt. Ef maður vildi vera með opin augu sá maður að veröldin skiptist ekki bara í góða og slæma. Nær lagi var að hún skiptist í skárri og verri.
Í menntaskóla kynnti ég mér kenningar Adams Smiths um frelsi í viðskiptum og jafnframt sögu kommúnista á Íslandi. Ég hélt áfram að lesa mig til um hagfræðikenningar þegar ég var við háskólanám í Bandaríkjunum. Smám saman áttaði ég mig á því að það eru engar rökréttar kenningar á bakvið kommúnísk hagkerfi eins og fræðin bak við kapítalismann. Kommúníska kerfið hlaut að hrynja að lokum, en þar til það gerðist vann það skelfilegt tjón.
Öll kerfi sem vinna gegn frjálsum viðskiptum manna og þjóða á milli gera ógagn. Stundum er það lítið og menn telja sig hafa efni á mismunun. Talsmenn frjálsra viðskipta vilja að þau eigi við á öllum sviðum og hvergi séu hindranir. Þannig verður hagur almennings bestur, en alls staðar eru fjandmenn á fleti, jafnvel þar sem síst skyldi.
Hannes H. Gissurarson náði á unga aldri að vekja Íslendinga til vitundar um kosti frjálshyggjunnar. Hann var ekki fyrsti íslenski frjálshyggjumaðurinn, en með leiftrandi penna, sem hafði lag á að koma við kaunin á andstæðingum sínum, vann hann þrekvirki. Hannes er mjög umdeildur og honum hafa auðvitað orðið á mistök á lífsleiðinni, en fáir geta efast um dugnað hans og elju. Hann stendur fyrir þessari lofsverðu upprifjun á ógnarstjórninni.
Hannes hefur skrifað um kommúnisma á Íslandi og fylgir þar í fótspor Þórs Whitehead og fleiri. Í þessum bókum kemur fram ótrúleg fylgispekt margra greindra og eflaust góðra Íslendinga við Lenín, Stalín, Maó og önnur illmenni 20. aldarinnar. Draumsýnin um fyrirmyndarríkið blindaði menn, þannig að þeir vildu engu slæmu trúa um sína leiðtoga. Þetta sé ég reyndar líka hjá mörgum skoðanabræðrum mínum sem aldrei sjá blett falla á sín átrúnaðargoð.
Kannski var það mesta uppgötvun lífsins hjá mér að mínir menn væru ekki algóðir né andstæðingarnir alvondir. Umhverfið getur gert góða menn betri og vonda menn verri.
Fyrirlestrarnir og sýningin í Þjóðarbókhlöðunni minna okkur á þessa sögu og þau sannindi að við eigum að vera í réttu liði. Sem betur fer hafa þeir menn alltaf orðið ofan á í íslenskri pólitík fram til þessa sem vildu óhikað að Íslendingar lékjum með fulltrúum frelsisins. Þar getum við barist fyrir því að okkar lið hafi alltaf rétt við.
Aldrei mega þeir verða ofan á hér á landi sem ala á hatri á útlendingum, þjóðernishroka og drambi í garð okkar vinaþjóða. Við berum líka ábyrgð á því að viðhalda friði og frelsi í heiminum.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.