Um daginn þegar ég kom heim lágu tveir dauðir geitungar á tröppunum. Þó að það leyndi sér ekki að þær væru gersamlega búnir að geispa golunni hikaði ég samt við að snerta við þeim, heldur stjakaði fyrst við þeim með skósólanum og sparkaði þeim svo í burtu. Þetta varð til þess að ég fór að hugsa um óttann sem fylgir ógnvöldum, jafnvel þó að þeir séu alveg búnir að vera.
Sagt er frá því að þegar Stalín lá banaleguna hafi hans innsti hringur staðið í kringum rúmið. Þegar Stalín gaf frá sér andvarp og lá sem andvana væri fagnaði Bería, slátrari Stalíns ógurlega. Þá opnaði Stalín augun aftur og Bería brast í grát, kyssti á hönd leiðtogans og baðst innilega fyrirgefningar. Enginn þorði að segja neitt, þó að ljóst væri að foringinn væri búinn að vera. Svona getur óttinn náð tökum á mönnum.
Allt annað mál. Einhver nefndi við mig í gær að minnst væri á mig í leiðara Moggans. Einhvern tíma hefði mér þótt vænt um það, en nú þegar mér er sagt að þeir séu að mestu leyti samdir af fyrrverandi formanni Alþýðubandalagsins af Nesinu, finnst mér upphefðin minni.
Ég var reyndar í sveitinni í gær og náði ekki að lesa orð formannsins fyrrverandi, en nú þegar ég er kominn til byggða freistaði það mín af meira að rifja upp söguna um Skugga-Svein og garminn hann Ketil, sem sögð er í leikriti Matthíasar Jochumssonar. Skugga-Sveinn var illmenni sem allir óttuðust, þó að hann væri búinn að vera. Ögmundur og Ketill skrækur voru fylgdarmenn Skugga-Sveins á fjöllum.
Ögmundur: Aumt er að eiga engan vænni kost en fylgja þér og Katli. Ill er mín æfi.
Skugga-Sveinn: Og verri skal hún verða, en verst að lokum! Því ekki skuluð þið ætla, að ég batni með ellinni; vitið þið ekki, að það er gamalt einkenni allra afarmenna,að þeir ergjast sem þeir eldast? En heyr nú, Mundi: Nú er mér leitt af hlaupum og bræði, og því legg ég á þig, að gálginn og fjandinn gleypi þig þann dag, sem þú svíkur mig eða yfirgefur. En meðan þú fylgir mér og heldur kjafti, máttu hjara!
Ögmundur: Sparaðu hótanir þínar, Sveinn, farið er þér nú flest að förla nema skapið.
Skugga-Sveinn: Ég þoli engar umbreytingar fram. bráðar breytingar eru ellinnar ólyfjan. Ég þekki mig ekki framar. Í æsku heyrði ég talað um hlýjan hug og hjartagæði, en nú fyrir löngu þekki ég ekkert nema harðúð og kaldan klaka. – Burt, burt allur kveifarskapur! Aldrei skal guggna, aldrei vægja sá sem enginn vægir. Skapið á ég þó óbreytt enn og röddina rámu.
Vini hef ég aldrei átt;
enginn bauð mér frið né sátt;
auðarslóð mér unni ei nein;
allir hræddust Skugga-Svein.
Við Ketil skræk: Vertu mér fylgispakur og haltu kjafti!
Ketill: Ég held kjafti og verð þér fylgispakur.
Skugga-Sveinn: Heyrðu, segðu mér eitt, hefur þú lært boðorðin?
Ketill: Nei og ég þarf ekki breyta eftir því sem ég ekki veit.
Skugga-Sveinn: Skynsamlegt svar, Ketill. Hvað eru boðorðin mörg?
Ketill: Þau eru mörg. Mig minnir ellefu.
Skugga-Sveinn: Og það ellefta er þetta: Lærðu að launa illt með illu!
Ketill: Þetta boðorð líkar mér vel. Ég er þér trúr.
Skugga-Sveinn: Allir drottinssvikarar verða hengdir, Ketill. Engum að trúa. Illt er illur að vera. En burt allur kveifarskapur! Skugga-Sveinn á ekkert að óttast, en öllum að storka. Það eru bleyðumar í byggðinni, sem allt vex í augum. Þeir eru löngu dauðir úr öllum æðum og orðnir ættlerar frækinna feðra. Dáðlausir örkvisar eru þeir allir, og heilar sveitir hræðast nú einn örvasa karl, enda hefir mörg lyddan kennt á kögglum þessum.
—
En Skugga-Sveinn og Ketill eru auðvitað bara hugarburður skáldsins. Svoleiðis menn eru ekki til í raun og veru.