Enginn slítur úr sér hjartað

Óperan Ragnheiður sem flutt var um helgina í Skálholti er magnað verk sem gefur tilefni til þess að rifja upp söguna sem að baki býr. Þrátt fyrir að flest fólkið sem í óperunni kom fyrir eigi sér fyrirmyndir í raun og veru, og til hafi verið fólk sem hét þessum nöfnum, er óperan auðvitað skáldverk. Þess vegna leyfa höfundar sér að færa atburði í stílinn þannig að þeir falli að sögunni sem þeir vilja segja. Ég lagðist í lestur til þess að kanna hvað vitað er um það sem gerðist.

Brynjólfur biskup Sveinsson var lærðasti maður á sinni tíð á Íslandi. Hann var kosinn biskup árið 1638 þvert gegn vilja sínum. Flestir bera honum vel söguna, hann hafi verið réttsýnn maður. Það kann að skýra það að hann vildi að dóttir hans hreinsaði sig af áburði um saurlífi með eiði.

Ragnheiður dóttir hans var fædd miðvikudaginn 8. september klukkan 13. Svo nákvæmlega vitum við um fæðinguna því að stoltur faðirinn skráði stundina nákvæmlega. Hún hefur eflaust verið hið líflegasta barn og víst er að faðirinn vildi að hún fengi hina bestu kennslu. Um Ragnheiði var sagt í Biskupasögum Jóns Halldórssonar: „var snemma skörp, skynsöm og mannvænleg og þar fyrir mikið eftirlætisbarn föður síns. Þótti honum vænt um hana og lét bæði kenna henni kvenlegar handyrðir og þær bóklegar menntir, sem kurteisri kvenpersónu vel sómdu.“

Til þess að segja dóttur sinni til fékk Brynjólfur biskup Daða Halldórsson sem hafði þrátt fyrir ungan aldur fylgt biskupi á mörgum ferðum og naut fyllsta trausts hans. Daði var sonur góðs vinar biskupsins. Daði var þó kannski ekki besti kennari til þess að eyða löngum stundum með ungri stúlku í einrúmi. Jón Halldórsson sagnaritari, sem fyrr er nefndur sagði: „Daði . . . átti þó litlu síðar tvíbura við hinni sléttustu [ómerkilegustu] vinnukonu í Skálholti, dóttur Sveins Sverrissonar gamla staðarsmiðs, hvað biskupi var eitt meðal annars til sturlunar, að haft hefði með lökustu ambátt undir eins og dóttur sína.“ Hér mun þó líklega skakka ári um fæðingu tvíburanna eins og Guðmundur Kamban sýndi fram á í grein í Skírni. Þeir fæddust ári fyrr. Biskup hlýtur að hafa vitað um þetta og þar með að Daði gat verið skæður í kvennamálum. Ragnheiður veit þetta væntanlega líka en ást hennar er blind. Kannski komst hún ekki að fjöllyndi Daða fyrr en síðar. Víst er þó að Daði hefur yljað sér um nætur annars staðar en hjá Ragnheiði meðan á kennslu stóð.

Sigurður dómkirkjuprestur sem er illmenni sögu Friðriks Erlingssonar var vissulega líka sekur um að eignast barn í lausaleik og missti embættið, en það var ekki sama barn og Daði átti með vinnukonunni. Sigurður virðist þó hafa verið iðinn við að lepja rógburð í biskup og upphafsmaður að eiðtökunni, þó að auðvitað hafi hún verið með samþykki biskups.

Sumum kann að þykja að Hallgrímur Pétursson komi með ólíklegum hætti inn í óperuna, en hann gaf Ragnheiði þó afrit af Passíusálmunum með kveðju, en á eftir fylgdi:

„Mikill er munur heims og himins.
Sá má heimi neita, sem himins vill leita.“

Þessi orð gefa til kynna að af Ragnheiði hafi farið það orð að hún væri lífsglöð í þessum heimi. Enda barst gjöfin í maí 1661, sama mánuði og eiðtakan illræmda fór fram. Þann 11. maí les Ragnheiður: „Til þess legg ég, Ragnheiður Brynjólfsdóttir, hönd á helga bók, og það sver ég við guð almáttugan, að ég er enn nú á þessari stundu svo óspillt mey af öllum karlmannsvöldum og holdlegum saurlífisverkum sem þá er ég fæddist fyrst í þennan heim af minnar móður lífi, svo sannarlega hjálpi mér guð með sinni miskunn sem ég þetta satt sver, en refsi mér, ef ég lýg“

Í texta óperunnar er þess getið til að Brynjólfur hafi líklega samið textann, en sennilega er þetta staðlaður texti til notkunar við slík tækifæri.

Svo gerist fátt um hríð. Bæði Daði og Ragnheiður eru í Skálholti fram á haust þar til hún fer í Bræðratungu til frænku sinnar skömmu eftir að móðuramma hennar lést í Skálholti, en Ragnheiður hélt í hönd henni á dánarstundu. Daði var viðstaddur jarðarförina, þrátt fyrir að börnin með vinnukonunni væru þá þegar fædd, að því að best verður séð.

Þann 15. febrúar árið 1662 fæðist sonurinn Þórður. Þegar biskup fær fréttirnar „setti hann fyrst hljóðan um stund, þar til honum hrutu af munni orð Psammetici Egiptalandskonungs forðum í viðlíku, en ekki sama, sorgarstandi: Mala domestica majora sunt lacrymis, eða: „Heimilisbölið er þyngra en tárum taki.“

Barnið var tekið af Ragnheiði og sett í fóstur hjá foreldrum Daða í Hruna. Daði missti hempuna og miklar eignir sínar og föður síns. Ragnheiður þarf að iðrast í Skálholtskirkju. Þannig er athöfninni lýst í kirkjuskipan: „»Ef nokkur er fundinn í hórdómssök, eður jafn skemmilegri synd, karlmaður eða kvinna, þá skulu þau taka skrift, og með upphöfðum höndum leysast fyrir kirkjudyrum nakin, konur að belti, karlmenn að linda eður í skyrtum, eftir prestsins dispenseran“ Ég bendi á að orðið skemmilegri er ekki misritun.

Ragnheiður lofaði: „Að hún ástundi kristilega iðni, þrifnað, verkshátt og kunnáttu, eftir því sem henni verður tilsagt og fyrirsett, og láti sér þar i fram fara með al vöru og guðsótta (en varist slímur og slen, hopp og hí). Item er afskilið, að hún láti sig henda þvílíkan eður annan saurlifnaðarglæp og alla aðra vitanlega stórglæpi, sem hún veit guðs heilaga orði þverlega í móti vera og kristins manns samvizku, heldur venji sig nú alvarlega á allar kvennmanns dyggðir, og beri sig að afplána það allt, sem hingað til hefur áfátt orðið, með alvarlegri kostgæfni allra kvenndyggða, takandi fyrir sig sparlega, réttilega og guðlega að lifa i þessum heimi. En sé hér af brugðið með vitanlegum stórglæpum eða stórkostlegri óskikkun, þá sé þessi afturtöku gjörningur ónýtur og afturkallaður og hún þaðan af ekki von eigandi til uppreisnar í þessu máli.“

Til þess að kaupa uppreisn æru Ragnheiðar gaf Brynjólfur Danakonungi Sæmundareddu. Það er eins og hver önnur firra í óperunni að séra Sigurður hafi stolið bókinni og farið með hana út án vitundar biskups. Og uppreisn æru Ragnheiðar fékkst ári síðar, nokkrum mánuðum eftir að það var of seint fyrir hana. Hún veiktist eins og fleira fólk í Skálholti skömmu fyrir jól og dó um vorið.

Halldór Brynjólfsson var þá einn á lífi af börnum biskupshjónanna, en hin fimm dóu kornung, en hann virðist samkvæmt lýsingum hafa verið liðleskja og lést í Englandi eftir langa útiveru.

Eftir lát Halldórs lét Brynjólfur sækja Þórð litla í Hruna og ættleiddi hann. Strákurinn var afar efnilegur og mikið eftirlæti afa síns, en dó á 12. ári, líklega úr berklum. Brynjólfur skrifaði sögu hans og hún birtist í Blöndu, 2. bindi.

Brynjólfur var tregur til að fyrirgefa Daða og veita honum embætti. Í svari við bréfi Halldórs, föður Daða, þar um segir biskup: „En yður vil ég öllu góðu svarað hafa, biðjandi yður ekki að styggjast við þetta mitt geðgróið svar, því enginn slítur úr sér hjartað. Þetta svo einfalt.“ Þeir Daði og biskup hittust aldrei eftir að Þórður fæddist.

Á endanum fékk Daði þó Steinsholt í Eystrahrepp (síðar Stóranúps-prestakall) haustið 1671, og þar bjó hann þau 50 ár, sem hann átti eftir ólifuð. Um hann gekk þjóðsaga um að hann hefði ginnt stúlku í tófulíki, en stúlkan ekki staðist augnaráðið og segir: „Þessum augum verð ég að fylgja.“

Í óperunni er sagt að biskup hafi viljað gifta Þórði Þorlákssyni, sem síðar varð eftirmaður Brynjólfs, Ragnheiði. Jón Halldórsson segir að það hafi verið Hólabiskup sem átti að fá stúlkuna. Jón var e.t.v. ekki áreiðanlegasti sögumaður í öllum atriðum, en þó nær atburðum en síðari tíma höfundar. Honum var í nöp við Daða og segir á spássíu þar sem hann fjallar um þennan tvífallna klerk: „Keskni og spé kemur mörgum á kné.“

Daði eignaðist þrjár dætur sem náðu fullorðinsárum. Hann á fjölmarga afkomendur nú á tímum og við Vigdís erum bæði afkomendur hans, þó ekki gegnum sömu dóttur skv. Íslendingabók. Þannig rennur blóð þessa hrasaða klerks sem tapaði æru og auð í æðum margra Íslendinga um alla framtíð.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.