Tiltölulega fáir ganga Strandirnar en þó skipta þeir líklega nokkrum hundruðum á ári. Mjög fáir koma þangað í lögregluvernd.
Norðurhluti Vestfjarðakjálkans hefur lengi haft mikið aðdráttarafl á okkur hjón. Við höfum gert að svæðinu nokkrar atrennur með misjöfnum árangri. Allar hafa þær þó verið afar skemmtilegar því svæðið er afburðafallegt. Nú í sumar var markmiðið að ganga frá Drangaskörðum, sem eru einhver fallegustu og sérstæðustu náttúruundur landsins og suður á bóginn.
Ferðasöguna er náttúrlega hægt að byrja hér og þar, en bryggjan dýra í Norðurfirði er ágætur staður. Ég var nýbúinn að leggja bílnum eftir ferð í Ófeigsfjörð um morguninn, en þangað fórum við á þremur bílum og skildum tvo eftir, til þess að stytta ferðina fyrir göngulúin gamalmennin. Við biðum þess að báturinn fengi eldsneyti, því að það er heppilegt að verða ekki olíulaus á rúmsjó.
Brottför hafði tafist um klukkutíma þá þegar. Í bæ eins og Norðurfirði er ekki hægt að ganga að bensíndælunni vísri hvenær sem er heldur bara að stilla sér í biðröðina. Álengdar sá ég vel búinn hóp, álíka aldurhniginn og minn. Ég giskaði á að þetta væru útlendingar því að búnaðurinn var mun gerðarlegri en okkar. Ég kannaðist heldur ekki við neinn þeirra sem staðfesti þessa skoðun mína. Einn var sjóræningjalegur með tóbaksklút á höfði.
Á Norðurfirði er ekki margt við að vera milli tíu og ellefu á morgnana. Búðin var að vísu opin, en þar getur maður bara hangið í takmarkaðan tíma. Smám saman tíndist minn hópur saman, en í honum voru sex alls. Við ráfuðum framhjá útlendingunum, en þá brá svo við að einn þeirra heilsaði mér með virktum. Á íslensku meira að segja. Ég guma oft af því að vera mannglöggur og ég var fljótur að koma manninum fyrir mig og heilsaði jafnkumpánlega. Enginn gat séð á mér annað en ég hefði alltaf verið klár á því hver hann var.
Áður en ég gat stunið því upp með hverjum hann væri greip félagi hans í hönd mér og hristi hana til eins og hann hefði hitt aldavin. Ég þakkað guði fyrir að vera seinn til af náttúrunnar hendi og tók kveðjunni eins og þarna hitti ég nákominn ættingja. Kallar þá ekki sjóræninginn til mín og spyr á hvaða leið við séum. Þetta hefði orðið vandræðalegt ef ég hefði ekki skýrt það vandlega, nánast með GPS-hnitum, meðan heilinn leitaði á harða diskinum að því hverjum sá hluti andlitsins sem ég sá líktist.
Eftir þessa löngu útskýringu hafði ég áttað mig á því að þarna var ég að tala við ríkislögreglustjórann, sem var aðeins einum páfagauk á öxlinni, lepp og járnkrók frá því að vera tvífari Long John Silver.
Meðan á þessu stóð sigldi báturinn í átt frá bensíndælunni og við gengum til móts við hann. Fljótlega var farangurinn tíndur um borð. Einhverjir vippuðu sér yfir borðstokkinn, en þá kom valdsmannslegur maður niður bryggjuna og spurði hvössum rómi hvort einhver okkar ætti jeppann sem stóð við veginn. Þótt þarna væru margir jeppar og allir við veginn þótti mér vissara að gefa mig fram. Í ljós kom að ég hafði hafði lagt ólöglega, því eins og gefur að skilja er bæjarskipulagið stíft á svona stað. Ég slapp með áminningu með því að færa bílinn umyrðalaust.
Loks komust allir í bátinn, en það hjálpaði ekkert. Einhver lét bíða eftir sér. Síðast þegar við sigldum var einhver of seinn og á honum hvíldu fjölmörg ill augu þegar siglt var af stað. Ég vorkenndi þeim sem nú var von á, sá fengi til tevatnsins. Loks heyrðist þó í talstöðinni að við mættum sigla af stað þó að enginn kæmi. Skýringin kom fljótlega af himnum ofan. Var þá ekki Ómar Ragnarsson á ferð að kvikmynda Stiklur II? (Þetta hljómar svolítið eins og Exorcist II, en hvort það er rétta samlíkingin kemur í ljós).
Áður en af stað var haldið lagði skipstjórinn áherslu á að jafnmargir sætu hvorum megin og helst í þar til gerðum sætum. Tveir fylgdu þessum leiðbeiningum og báturinn sigldi af stað með stefnið upp í loftið eins og víkingaskip (ef menn ekki trúa mér, þá er kvikmynd Ómars til vitnis). Eftir mínútu voru fyrrgreind tilmæli orðin skipun. Ef menn ekki hlýddu gæti báturinn ekki siglt út á haf. Allir hlýddu nema einn, sem virtist vera fararstjóri hins hópsins. Að minnsta kosti var hann allan tímann afar frábitinn því að taka leiðbeiningum skipstjórans.
Báturinn komst í jafnvægi á ný og sigldi út á rúmsjó. Skipperinn spurði aftur hvert við ætluðum. Hin ætluðu að ganga úr Eyvindarfirði norður á bóginn, en okkar áætlun var óljósari. Drangaskörð voru eini punkturinn sem við vissum að væri nálægt upphafsstað. Og hvar nákvæmlega, spurði hann. Ég sagði að gott væri að vera fyrir norðan skörðin, en annar úr hópnum taldi best að byrja fyrir sunnan þau. Það voru of margir fararstjórar í okkar hópi.
Þetta skipti litlu því að fyrst átti að láta hin út. Skipstjórinn sagði að það væri svolítið hvasst. Svo hefði hann aldrei siglt í Eyvindarfjörð, hvort einhver væri staðkunnugur þar? Ég sat þannig að ég horfði á siglingakortið í tölvunni. Auðvitað var það róandi, þar til að ég sá að býsna víða stóð Unknown territory eða eitthvað sambærilegt.
Í talstöðina spjallaði skipstjórinn við einhvern í landi og spurði hvort einhver bátur væri nærri. Svo reyndist vera og viðmælandinn spurði hvort hann vildi fylgd. Mér leið auðvitað miklu betur þegar hann afþakkaði hana.
Nú var afráðið að ekki væri hægt að lenda í Eyvindarfirði vegna veðurs. Hinn hópurinn ákvað að stela okkar gönguplani. Þá kom aftur upp umræðan um það hvert það plan væri. Ég sagði að við ætluðum að ganga frá norðri til suðurs. Engum fannst það fyndið, enda átti það ekkert að vera það.
Viljið þið fara úr í Drangavík? var spurt. Ég taldi það þjóðráð.
Eða kannski að við siglum með ykkur að Dröngum? Ekki hljómaði það verr.
Drangar eru ekki í Drangavík, heyrðist frá siglingafræðingnum. Mér fannst það ekki skipta máli. Við ætluðum hins vegar í Drangaskörð sem ég hafði ekki hugmynd um hvar var miðað við hina staðina.
Eftir langar diskúsjónir um þetta kom himnasending. Ómar birtist hátt á lofti og þá var ekkert annað að gera en skutla okkur í land þar sem við vorum, beint út af Drangaskörðum.
Allir í gúmmíbátinn, var sagt, en af því að hann tók ekki nema sex þurfti að fara nokkrar ferðir. Þegar okkur skolaði á land var hinn hópurinn að hverfa gegnum eitt skarðið. Er hann úr sögunni, nema Ómar hafi fylgt honum úr lofti.
Sagan er eiginlega öll líka, því að gönguferðin gekk slysalaust. Leiðarlýsingu má finna í Hornstrandabók Páls Ásgeirs Ásgeirssonar sem mér dettur ekki í hug að keppa við. Læt þess þó getið að gamalt hús á leiðinni sé snarað og að falli komið árið 2006. Það reyndist enn ekki alveg fallið, en ég hef enn ekki uppgötvað hvað það merkir að það sé snarað.
Gangan var 14 kílómetrar og við höfðum hana á sjö tímum með því að vaða ísköld fljót og fara um hættuleg fjallaskörð. Hún endaði næstum á annarri sjóferð, því að bílarnir fór nánast á kaf í ánni í Ófeigsfirði.
Mér var alveg sama. Okkar bíll var öruggur á stæði í Norðurfirði.