Reisubókarkorn (BJ)

Gaman er að sitja kyrr á sama stað og samt að vera að ferðast. Svo getur maður ferðast fyrst og látið hugann reika um það sem hefði getað gerst.
I.
Margir hafa áhyggjur af því að ferðamannafjöldinn sé að fara úr böndum. Aðeins fáir spyrna þó við fótum. Þegar við Vigdís förum um Búðardal stoppum við alltaf í Dalbúð en þar er Vesturfarasafn og sætur veitingastaður. Mér barst af því njósn fyrr í sumar að matnum hefði hrakað, en ég er ekki vanur að taka mark á hallmælum um vini mína og mætti því ótrauður við sjötta mann í búðina  í hádeginu einn sólríkan júlídag.
Sem hagsýnn maður ákvað ég að fara fyrst inn í matstofuna og gefa hinu ágæta starfsfólki kost á því að laga matinn meðan við skoðuðum sýninguna. Til þess að sýna meðreiðarfólkinu að ég væri hagvanur spurði ég kumpánlega hvað þau byðu uppá í dag. Stúlkan í afgreiðslunni horfði á mig eins og ég væri flón og svaraði: „Það stendur í matseðlinum“, um leið og hún nikkaði hökunni að bunka af spjöldum.
Ég reyndi að láta eins og ekkert væri, þreif nokkra seðla og dreifði til fólksins og vonaði að þau hefðu ekki tekið almennilega yfir því hvernig ég kolféll á þessu einfalda prófi. Á seðlinum voru fimm réttir held ég og stúlkunni því vorkunn að nenna ekki að þylja þá fyrir þennan eina hóp sem í matstofunni var. Ég stóð spekingslegur og þóttist vera að lesa, þegar einhver spurði einhvers um matinn, en ég bað þau endilega ekki vera að angra stúlkuna fyrr en þau hefðu lokið lestrinum. Eftir drykklanga stund þorði þó einhver að spyrja hver væri súpa dagsins og í þetta sinn fékkst ákveðið svar. Aspas, minnir mig.
„En það er semsagt hægt að velja um allt sem er á matseðlinum?“ heyrðist í einni konunni áður en mér tókst að þagga niður í henni. Að baki afgreiðslustúlkunnar vinsamlegu stóð maður með farsíma klemmdan á milli eyra og axlar. Hann blandaði sér í umræðurnar og sagði eitthvað á þá leið að matseðillinn væri ekki tæmandi. Svo hélt hann áfram samtali við einhvern sem ekki var á staðnum.
Við hörfuðum fram og héldum dauðahaldi um matseðlana. Sýningin stendur fyrir sínu, en af því að ég hef séð hana nokkrum sinnum áður rölti ég fram aftur. Maðurinn var horfinn og ég leyfði mér að spyrja (úr því að nú heyrði enginn í mér) hvað það væri sem vantaði á seðilinn. Svörin voru þau að kokkurinn væri í símanum og ekki tjáði að spyrja fyrr en hann losnaði.
Ég fór fram og benti á áhugaverðar upplýsingar um Vínlandsferðir og fornleifagröft í Kanada. Meðan fylgifiskarnir meltu speki mína laumaðist ég fram til þess að kanna hvort kokkurinn hefði getað slitið sig úr símanum. Um það veit ég ekkert, en í þetta sinn sagði stúlkan mér að ekkert væri til nema kökurnar sem ég sæi.
Nú leist mér ekki á blikuna og færði ferðafélögunum tíðindin válegu. Þau horfðu á mig með skilningsleysi og vantrú og létu mig segja sér þetta þrem sinnum. Ég er óvanur því að fólk horfi svona á mig án þess að meina eitthvað með því og ákvað því að stefna hópnum í borðsalinn á ný og fá endanlega úr málinu skorið og spurði hvort það væri rétt að ekkert af því sem á matseðlinum væri fengist keypt. Svarið er mér minnisstætt. „Jú það eru allir réttirnir til, það vantar bara efnið í þá.“
Við fengum ljómandi málsverð á Café Riis á Hólmavík.
II.
Á Flateyri getur maður keypt bækur eftir vigt. Ég keypti tvö og hálft kíló, meðal annars ævisögu Sigurbjörns biskups eftir Sigurð A. Magnússon. Mér hefur lengi verið hlýtt til Sigurbjörns og hans fólks, ekki síst eftir að Árni Bergur, sonur hans, jarðsöng mömmu. Hann talaði við okkur hlýlega og tilgerðarlaust.
Þetta reyndist endurútgáfa, gefin út af bókaútgáfunni Tindi, skelfilega viðvaningsleg bók, illa skrifuð og amatöralega sett upp. Ef ég vissi ekki betur, hefði ég haldið að höfundur hefði sett hana upp sjálfur til þess að spara sér útgáfukostnað. Bókin er full af nöfnum en engin nafnaskrá. Sigurbjörn var svo merkilegur maður að hann hefði átt skilið almennilega ævisögu. Í stað þess að Sigurbjörn segi söguna í fyrstu persónu skrifar SAM eftir honum í klúðurslegri frásögn, kannski til þess að biskupnum verði ekki kennt um ambögur og missagnir. Ég fann eina, sem ég átti reyndar von á.
Rangt er farið með það að mamma hafi verið óskírð, en hún sendi biskupnum gamla skírnarvottorð sitt þegar bókin kom fyrst út. Sigurbjörn hringdi í Ólöfu móðursystur og bað þær systur fyrirgefningar á þessu, en Sigurður hirðir ekki að laga þessi afglöp.
Þær systur mundu, eins og Hallur Þórarinsson, heimildarmaður Ara fróða, þegar Þangbrandur skírði hann þrevetur. Þangbrandur skírði mömmu að vísu ekki og þær voru skírðar fimm ára, en mundu þann dag vel. Um morguninn báðu þær afa að segja sér söguna af Gjálp og Greip sem eru úr ferð Þórs til Geirröðargarða. Afa fannst það merkilegt að þær vildu heiðna sögu á þessum degi.
Þess er ekki getið hvaða sögu Hallur heyrði sinn skírnardag.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.