Frásögn um margboðað hrun

„Þetta hlaut að enda með ósköpum. Ég fór að senda æ fleiri sérfræðinga til Íslands. Þeir skoðuðu höfuðstól og eignarhald bankanna en þeir gátu ekki útskýrt hvaðan þeim bærist fjármagn til þess að halda áfram að vaxa.“

Sænski seðlabankastjórinn árin 2006-7 talar. Hann þekkti vel til Íslands og kom hingað meira að segja sumarið 2006 í veiðiferð í boði seðlabankastjórans og skemmti sér hið besta. Í lok ferðarinnar dró hann þennan íslenska kollega sinn til hliðar og sagði við hann: Það er eitthvað að bönkunum hjá ykkur. Við höfum nokkra reynslu af svona málum. Hringdu hvenær sem er og þá getum við rætt málið.“

Þessi frásögn kemur úr nýrri bók Sveins Haralds Øygards, Norðmannsins sem var seðlabankastjóri á Íslandi í nokkra mánuði árið 2009. Hann rekur mörg teikn um komandi erfiðleika. Meðal annars segir hann frá því hvernig bankarnir lánuðu hver öðrum í hringtengingu verðlaus skuldabréf, þar sem Landsbanki lánaði Kaupþingi, sem lánaði svo Glitni sem aftur lánaði Landsbanka. Engin verðmæti urðu til, en bankarnir áttu allt í einu allir skuldabréf þar sem skuldunauturinn var „traustur“ banki. Skuldabréfin, sem kölluð voru ástarbréf, voru notuð sem trygging í Seðlabanka Íslands sem veitti bönkunum glaður lán gegn svona „öruggri“ tryggingu.

Lán Seðlabankans til viðskiptabankanna voru lengst af óveruleg, en haustið 2005 fóru þau að aukast og uxu svo um hundruð milljarða á hverju ári fram að hruni. Bankinn sat uppi með innistæðulaus ástarbréfin eins og svikinn elskhugi og þjóðin fékk skellinn.

Seðlabanki Evrópu hafði líka tekið grandalaus við þessum tryggu bréfum, en í mars 2008 lokaði Jean Claude Tricet, þáverandi seðlabankastjóri Evrópu, á viðskiptin. Seðlabanki Íslands hélt áfram sinni starfsemi fram að hruni. Øygard segir: „Annar seðlabankanna tveggja varð ekki fyrir neinu tjóni. Hinn varð að endurfjármagna.“

Í bókinni er vitnað í reyndan norrænan bankamann, Trygve Young: „Seðlabankafjármögnun á að nota í neyð og til skamms tíma. Það gengur einfaldlega ekki að nota hana til þess að fjármagna vöxtinn. Bankarnir bera stærstu ábyrgðina, en Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn áttu að vita betur.“ Í Seðlabankanum vissu auðvitað sumir í hvað stefndi, en óttuðust að valda kreppu með því að benda á það óumflýjanlega. Á meðan stækkaði bólan.

Øygard gerir sér grein fyrir því að barátta aðalleikaranna snýst núna um að breyta fortíðinni. „Enn þann dag í dag eru margir sem komu við sögu, bankamenn og stjórnmálamenn, að ráða til sín sagnfræðinga til að segja sögur sínar og móta frásögnina af atburðunum. Ýmist greiða þeir þeim sjálfir eða skattgreiðendur eru látnir blæða. Aðrir skrifa bara bækur.“

Sænski seðlabankastjórinn fékk aldrei símtal frá íslenskum kollega sínum.


Birtist í Morgunblaðinu 2. október 2019.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.