Hamingjan og skynsemin

Í gömlu ævintýri segir frá því þegar Hamingjan og Skynsemin þrættu um það hvor þeirra væri mikilvægari. Þær leystu úr deilunni með tilraun. Skynsemin hljóp í fávísan náunga úti á akri. Sá sneri sér þegar í stað að flóknari verkefnum, leysti erfiðar þrautir og náði frama í hirð konungs. Björt framtíð blasti við. Svo fór þó að öfundarmenn klekktu á honum og fengu konung til þess að fyrirskipa að hann yrði hengdur í hæsta gálga.

Þær vinkonur, Hamingjan og Skynsemin, hafa verið í brennidepli á Íslandi. Fyrir viku var haldin í Háskóla Íslands alþjóðleg ráðstefna um uppbyggingu velsældarhagkerfa. Þar var fjallað um ýmsar leiðir til þess að mæla hversu gott þjóðir hafa það. Hingað til hefur mest verið horft á svonefnda verga landsframleiðslu (VLF). Ef verg landsframleiðsla á mann eykst gefur það til kynna að hægt sé að bæta kjör almennings. Flestir hafa heyrt um fylgifisk hennar, hagvöxtinn, en hann segir til um það hve mikið heildarverðmæti hafa aukist hér á landi. Talað er um að lengsta hagvaxtarskeiði Íslandssögunnar sé að ljúka, nú sé hagkerfið að dragast saman eða stækki að minnsta kosti ekki jafnhratt og fólki fjölgar.

Frá því að ég fór að fylgjast með umræðum um efnahagsmál hefur það þótt fínt hjá róttæklingum að tala um að nú sé hagvaxtarstefnan liðin undir lok. Eitthvað annað eigi að taka við. Vissulega er það rétt að auður færir engum sjálfkrafa hamingju. Því er áhugavert að kanna aðra þætti sem hafa áhrif á vellíðan. Samt má ekki gleyma því, að þegar tekjur þjóðarinnar aukast er hægt að bæta heilbrigðisþjónustuna og menntakerfið, efla samgöngur og hækka bætur almannatrygginga, auk þess sem fólk hefur ráð á betra húsnæði, getur ferðast meira og veitt sér ýmislegt sem það gat ekki áður. Kosturinn við VLF er að hún er auðmælanleg og tiltölulega vel samanburðarhæf milli landa. Það sama á ekki við um alla mælikvarða sem nefndir hafa verið, til dæmis er deilt um hvernig mæla eigi sjálfa hamingjuna, sem flestir vilja þó örugglega hámarka.

Gylfi Zoega hagfræðiprófessor leitaði í grein svara við því hvaða þættir tengist mest hamingju þjóða eins og hún er mæld í skoðanakönnunum. Niðurstaða hans var sú, að hamingjan ykist með markaðsfrelsi og umfangsmiklum utanríkisviðskiptum, trausti á samborgurum og stofnunum samfélagsins, frumkvæði, dugnaði, samkeppni og árangri í starfi. Ekki endilega það sem þeir vilja heyra sem leita annarra mælikvarða en harðra efnahagsstærða. En skynsamleg umræða byggist á staðreyndum og góður efnahagur bætir margt sem eykur vellíðan.

Hvernig fór fyrir skynsama vini okkar sem átti að hengja? Jú, Hamingjan stökk í hann á síðustu stundu, kóngsdóttirin hljóp út, bjargaði lífi hans og þau lifðu hamingjusamlega saman til æviloka.


Birtist í Morgunblaðinu 23. september 2019.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.