Leiðin úr örvæntingunni

Ég skrifaði greinina hér á eftir í nóvember 2008, mánuði eftir Hrun. Þegar ég les hana núna er ég sannfærður um að reiðin í þjóðfélaginu hefði verið minni hefði strax verið gripið til þeirra ráðstafana sem þar er talað um og sárin hefðu gróið fyrr.


Ofuraflið sem leysist úr læðingi þegar innbyrgð reiði brýst út getur valdið íslensku þjóðfélagi slíkum skaða að enginn hefur áður kynnst slíku hér á landi. Eyðileggingin gæti orðið gífurleg og sárin sem eftir sitja á þjóðarsálinni gróa seint. Skynsamir ráðamenn leggja nótt við dag að leysa skammtímavanda og vilja geyma þau mál sem þeir telja að geti beðið. Þjóðin vill hins vegar fá skýra stefnu strax.

Stjórnmálamenn verða að losa sig úr viðjum úreltra hugmynda og móta stefnu sem fólk skilur. Á Austurvöll koma þúsundir óttasleginna einstaklinga til þess að fá útrás. Fólk sem skilur ekki hvað er að gerast og telur að ekkert sé gert til þess að forða því að tjónið verði enn meira. Stjórnvöld geta ekki leyst vandann á skömmum tíma, en þau geta létt óvissunni af þegnunum. Til þess þarf ríkisstjórnin strax að lýsa yfir eftirfarandi:

  1. Fólk verður ekki borið út úr íbúðum sínum þó að það geti ekki greitt af lánum á næstunni. Bankar muni í einhverjum tilvikum eignast hlut í íbúðunum en fólki gefst kostur á að leigja þær áfram. Óttinn við að missa heimili sitt er óþolandi. Einhliða yfirlýsing um að íbúðir séu griðastaður fjölskyldnanna róar almenning.
  2. Annar gjaldmiðill verður tekinn upp svo fljótt sem auðið er. Kannski er þetta flókið og seinvirkt, kannski einfalt. Aðalatriðið er að stjórnvöld marki þá stefnu að krónan verði ekki sá myllusteinn um háls þjóðarinnar í framtíðinni sem hún er nú.
  3. Skipuð verður ný forysta í Seðlabankanum nú þegar. Á þeim örlagatímum sem við lifum er nauðsynlegt að þeir sem eru í forystu í efnahagslífinu njóti trausts þjóðarinnar. Það traust ríkir ekki nú. Engum er greiði gerður með því að setjast nú á rökstóla um hvort vantraustið sé verðskuldað eða ekki. Traustið þarf að endurreisa strax.
  4. Forsætisráðherra byrji sérhvern dag á því að halda fund með leiðtogum allra stjórnmálaflokka, forystumönnum af vinnumarkaði og öðrum sem halda þarf upplýstum. Á þessum fundum skýri hann frá stöðu mála og útdeili verkefnum. Það vilja allir góðir Íslendingar leggja sitt af mörkum til þess að leysa vandann. Blaðamannafundir verði haldnir í lok hvers einasta dags og þjóðinni haldið upplýstri.
  5. Fenginn verður þekktur og vammlaus, erlendur maður, til þess að stjórna rannsókn á aðdraganda kreppunnar. Rannsóknina þarf að hefja nú þegar og vinna hratt til þess að eyða tortryggni og sögusögnum.
  6. Ríkisbankarnir fá skýr fyrirmæli um það að þeir skuli bjóða fyrirtækjum þar sem eitthvert vit er í rekstrinum að skuldum verði breytt í hlutafé. Með breytingunni minnkar hlutur núverandi eigenda í fyrirtækjunum, en þau fara ekki á hausinn. Án fyrirtækja er engin vinna fyrir einstaklingana. Þegar betur árar selur ríkið aftur sinn hlut.

Þjóðin veit að hún þarf að færa miklar fórnir. Hún vill vita að þær verði ekki til einskis. Þess vegna þarf að marka stefnu strax. Engin lýðræðisleg ríkisstjórn getur stjórnað ef hún nýtur ekki trausts þjóðarinnar. Oftast hafa stjórnir langan tíma til þess að sannfæra almenning. Nú er tíminn aftur á móti að renna út.

Birtist í Morgunblaðinu 12. nóvember 2008.


Mynd Halldórs Baldurssonar birtist í 24 stundum 10. október 2008. Það var síðasta tölublað sem kom út.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.