Mamma hélt alltaf að við bræðurnir værum miklir klaufar og lítið gagn að okkur til heimilisverka. Ástæðan var sú að ef eitthvað fór úrskeiðis heima gerði pabbi við það og enginn annar komst að. Mér fannst engin ástæða til þess að blanda mér í það ef pabbi hafði gaman af því að skrúfa rör, tengja lampa eða laga lása þá ætlaði ég ekki að svipta hann þeirri ánægju.
Ég man að einu sinni var pabbi ekki heima og mamma bað mig að stinga ryksugunni í samband. Það endaði nærri því með skelfingu. Það vantaði lokið á innstunguna af einhverjum ástæðum og vegna þess að hún var undir rúmi hafði pabbi ekki komist til þess að gera við hana, líklega ekkert vitað að þess þyrfti.
Ég var undir rúmi að fálma eftir götunum til þess að stinga tenglinum inn en fann þau ekki í dimmunni sem þarna var. Svo fann ég innstunguna loklausa eða öllu heldur vírinn sem út úr henni stóð. Tvöhundruð og tuttugu volt hrísluðust inn um vísifingurinn, upp eftir handleggnum og upp í heilann (eða var það mænan) sem sendi skilaboð í munn og lungu og ég rak upp skaðræðisóp um leið og ég kippti hendinni að mér og slengdi henni í rúmlöppina.
Mamma hefur væntanlega bitið á vörina til þess að skella ekki upp úr þegar hár og augu í mér stóðu á stilkum eftir þessa uppákomu. Hún sagði eitthvað á þá leið að nú hefði hún veri hepp… nei, mikið varstu óheppinn, Bensi minn.
Þennan dag skildi ég hvers vegna menn þurfa að vera fjögur ár í iðnskóla til þess að læra að setja ryksugur í samband. Síðan hef ég alltaf borið mikla virðingu fyrir iðnaðarmönnum.
—
Núna um daginn var ískalt heima hjá mér. Ég reyndi eins og ég gat að leita að opnum glugga. Hefði ég fundið einhvern slíkan hefði ég lokað honum. Hurðir og gluggar falla ekki undir starfssvið iðnaðarmanna. Að minnsta kosti ekki að opna þá eða loka þeim. En ég fann enga opna glugga.
„Vigdís,“ sagði ég. Svo af því að ég þurfti að biðja hana um greiða bætti ég um betur: „Vigdís mín. Það er enginn hiti í húsinu.“
Vigdís hefur iðnaðarmanna element í sér. Hún veit allt um hitatækni og sagði mér að hækka á ofnunum.
Nú var ég í vanda staddur því að ég veit að vísu að á flestum ofnum eru kranar sem maður á að snúa til þess að hita húsið þá er ég alls ekki viss um í hvora áttina á að snúa þeim.
„Þú gerir það miklu betur,“ sagði ég því að ég veit að Vigdís lætur blekkjast af gullhömrum.
Áður en ég vissi af var frúin mætt með rörtöng og lamdi létt á alla ofna um leið og hún skrúfaði einhverjar skrúfur. Yfirleitt virkar þetta ekki fyrr en daginn eftir svo að ég fór upp í peysu.
Daginn eftir var líka kalt. Þannig leið hver dagurinn af öðrum. Einn daginn kyntum við upp í arninum. Ég gat það, því að ég er nokkuð góður með eldspýtur.
Loks sagði Vigdís töfraorðin:
„Okkur vantar pípara.“
Nú var ég á heimavelli. Ég er nefnilega seigur í að hringja í fólk, sérstaklega iðnaðarmenn.
Daginn eftir var píparinn kominn. Hann var ekki með rörtöng heldur sleggju. Hann spurði Vigdísi hvort hún hefði dúmpað á pinnann og þegar hún kvað já við sagðist hann vilja sjá termóstatinn. Termóstatinn er apparat sem hleypir vatni inn í húsið, held ég. Eftir að hafa horft á hann í eina sekúndu, barið hann létt með sleggjunni og lagt á hann þumalfingurinn var af píparanum kveðinn upp sá dómur að nauðsynlegt væri að kaupa nýjan.
Út af svona frammistöðu finnst mér iðnaðarmenn flottir. Ég hefði getað ráfað mörg ár um húsið með sleggju í annarri og rörtöng í hinni án þess að finna termóstatinn eða vitað að ég ætti að leita að honum.
—
Um daginn skrapp Vigdís til útlanda. Fyrsta kvöldið sem ég var einn ætlaði ég að horfa á fótboltaleikinn í undankeppni Evrópumótsins. Ég var augljóslega mjög einmana, farinn að horfa á kvennaknattspyrnu.
Íslensku stelpurnar voru miklu betri en þær írsku. Ekki hafði ég setið lengi þegar ein af okkar stelpum hafði rifið sig lausa, geystist upp völlinn, inn í vítateig andstæðinganna, mundaði skotskóinn og …
Myndin hvarf af skjánum og eftirfarandi skilaboð komu fram:
Myndlykillinn nær ekki sambandi við ADSL línuna. Hringdu í þjónustusímann okkar …
Talið hélt hins vegar áfram og ég áttaði mig á því að ég var að missa af marki. Ég ýtti á flesta takka á fjarstýringunni en allt kom fyrir ekki.
Eftir smátíma birtist myndin aftur á skjánum. Ísland var yfir.
Skömmu síðar endurtók sagan sig. Ég kallaði upp: „Vigdís, það er eitthvað bilað í sjónvarpinu,“ en mundi þá að hún var í útlöndum og enga hjálp þaðan að fá. Ég fór að huga að símanúmerinu en þá birtist myndin aftur. Ísland var komið í tvö núll.
Þegar þetta gerðist í þriðja sinn var mér öllum lokið. Ég stökk á fætur, að myndlyklinum og kippti honum úr sambandi. Þá hvarf náttúrlega hljóðið og skilaboðin af skjánum. Eftir smástund setti ég aftur í samband og leikurinn birtist á ný. Staðan var þrjú núll fyrir Ísland.
En sjónvarpið virkaði og hefur gert það síðan.
Ég er nefnilega svolítið laghentur ef ég vil það við hafa.