Ég heyrði í morgun, sunnudag, þátt um Stein Steinarr og ljóð hans. Um þessar mundir eru hundrað ár frá því að Steinn fæddist. Hann lifði hratt og var umdeildur og er enn. Sjálfur hef ég verið hrifinn af Steini allt frá því að ég var í menntaskóla. Oft hefur mér fundist ég hitta á rétta ljóðið hjá Steini þegar ég þarf á innblæstri að halda. Sumir fletta upp í Biblíunni en ég læt Stein nægja. Nú fann ég þetta:
Það var auðn og myrkur
á allar hliðar,
og enginn vegur.
Þetta er úr bókinni Ferð án fyrirheits. Ekki beinlínis uppörvandi en mér finnst eins og mörgum líði nákvæmlega svona núna. Steinn vissi hvað hann söng.
Annars var Steinn óreglumaður. Ég heyrði að Matthías Johannessen sagði að hann hefði haft stjórn á sinni drykkju. Eftir því sem ég best veit ákvað Steinn að drekka býsna mikið.
Steinn var rekinn úr Kommúnistaflokknum. Það urðu fleiri fyrir þessu óláni. Lárus Blöndal, pabbi Halldórs og þeirra systkina var líka rekinn úr flokknum. Ég held að hann hafi ekki látið það neitt á sig fá og verið sami komminn til dauðadags. En það er ekki skynsamlegt að reka fimm barna föður úr flokki. Ekkert barnanna varð kommi. Flokkstjórninni var kannski vorkunn að því að átta sig ekki á þessu, því að Lárus átti held ég engin börn þá. Samt er ekki hyggilegt að reka unga menn sem gætu eignast mörg börn úr flokki. Tveir synir Lárusar voru reyndar vinstri sinnaðir í skamman tíma, Benedikt og Haraldur. En svo varð ekkert úr því. Það sýnir að það getur ræst úr öllu.
Steinn varð gamall maður, en hann lifði ekki mjög lengi. Árið 1957 skrifuðu hann og konan hans bréf til borgarstjórans í Reykjavík og vísuðu til sín sem „við undirrituð eldri hjón.“ Þá var Steinn 48 ára gamall. Hann varð aldrei fimmtugur. Í viðtali við Matthías sagði hann: „Ég er að verða gamall maður – og ég sit hér bara og bíð, ég veit ekki eftir hverju; þarna handan við þjóðveginn er kirkjugarðurinn, þangað tínast þeir einn og einn, gamlir vinir mínir, drykkjufélagar, kojulagsmenn og leikbræður úr þessari löngu og stóru lífsins kómedíu, sem margur segir – en þeir fara ekki lengra, ónei, þeir fara ekki lengra.“
Sjálfum fannst mér mörkin milli elli og æsku liggja við fimmtugt. Allt er þetta samt afstætt. Vigdís sagði við mig fyrir fjórum árum: „Nú eru bara nokkrir mánuðir þangað til við verðum gömul.“ Tveimur árum seinna birtist viðtal við mig í Skildi, málgagni Páls Skúlasonar lögfræðings. Hann byrjaði eitthvað á þá leið að Benedikt væri einn af ungu mönnunum í viðskiptalífinu. Þá var ég fimmtíu og eins árs. Mér fannst gaman að því, en strikaði það samt út. Ég man að Björgólfur Guðmundsson sagði við mig á sínum tíma að stjórn Eimskips væri ómöguleg vegna þess að flestir í henni væru gamlir menn. Þá var í stjórninni einn maður eldri en Björgólfur. Síðan eru liðin fimm ár.
Steinn var gamall vegna þess að honum fannst hann vera gamall. Mér finnst ég ekkert sérstaklega gamall, en um fimmtugt veit maður að maður á örugglega styttra eftir en liðið er. Svo geta liðið býsna mörg ár þangað til maður skilur það.
Þessa dagana velta margir Tímanum og vatninu fyrir sér. Sumum finnst bálkurinn vera mesta snilldarkvæði sem ort hefur verið af 20. aldar skáldi. Aðrir telja það ofmetið og sundurlaust. Ég er ekki viss um að ég hafi nokkurn tíma lesið það allt. Samt er það bara á fjórtán síðum og ég gæti lesið það allt í kvöld ef ég vildi. Í morgun las Steinn þrettán kafla úr ljóðinu fyrir mig í útvarpinu. Mér tókst að halda einbeitingu í fjórum fyrstu og kom svo aftur til sjálfs mín í því síðasta sem fjallar um sólskinið.
Það ýtti við mér. Ég hugsaði: Steinn veit hvað hann syngur.
Þessi kafli er númer sextán í minni bók og er svona (ég sleppi fyrsta erindi):
Ég sá sólskinið koma gangandi
eftir gráhvítum veginum,
og hugsun mín gekk til móts við sólskinið,
og sólskinið teygði ljósgult höfuð sitt
yfir vatnsbláan vegg.Ég sá myrkrið fljúga
eins og málmgerður fugl
út úr moldbrúnum höndum mínum.Og þögn mín breyttist
í þungan samhljóm
einskis og alls.Meðan gljásvart myrkrið
flaug gullnum vængjum
í gegnum sólskinið.
Ég er enginn bókmenntafræðingur en þetta minnti mig á nokkur erindi úr Völuspá. Eftir Ragnarök og heimsendi heldur lífið áfram. Ég felldi líka úr þessu:
Sér hún upp koma
öðru sinni
jörð úr ægi
iðjagræna;
falla fossar,
flýgur örn yfir,
sá er á fjalli
fiska veiðir.Munu ósánir
akrar vaxa,
böls mun alls batna, …Sal sér hún standa
sólu fegra,
gulli þaktan
á Gimli;
þar skulu dyggar
dróttir byggja
ok um aldurdaga
yndis njóta.
Mér finnst þetta vel viðeigandi. Stundum virðist allt ómögulegt en svo rætist úr og tilveran verður betri en áður. Lífið er óskiljanlegt á köflum, rétt eins og Steinn sagði við Matthías:
„Ég er uppalinn í sveit, eins og þú kannski veizt, og þegar ég var lítill drengur, var ég stundum sendur í kaupstaðinn, eins og það var kallað. Í raun og veru finnst mér ég ennþá vera í einhverri slíkri kaupstaðarferð, langri og yfirnáttúrlegri kaupstaðarferð, en ég hefi gleymt því, hver sendi mig, og einnig því, hvað ég átti að kaupa.“