Til forystu fallnir (BJ)

Fjarlægðin gerir fjöllin blá og mennina mikla. Oft hugsar maður til þess hvers vegna ekki séu nein stórmenni lengur á meðal okkar. Í gamla daga voru stórkostlegir stjórnmálamenn, trúarleiðtogar, listamenn og virðingarverðir viðskiptajöfrar. Hvar eru svona menn núna?

Líklega verða menn miklir af því að standa sig vel á ögurstundu. Það er engin tilviljun að Churchill er líklega þekktasti og kannski virtasti stjórnmálamaður Breta fyrr og síðar. Hann var fjarri því að vera vinsæll lengst af sínum stjórnmálaferli. Hann var sérlundaður, þótti afbragðs ræðumaður og rithöfundur en rakst illa í flokki og var langi vel einn á báti í skoðunum sínum á hernaðaruppbyggingu Breta fyrir seinni heimstyrjöldina. En þegar á reyndi og útlit var fyrir að Þjóðverjar ynnu stríðið vildu Bretar engan frekar í forystu. Í stríðslok var hann svo felldur úr sessi (en varð reyndar forsætisráðherra aftur síðar). Nú eru allir sammála um að hann hafi verið stórkostlegur maður en hann var auðvitað gallagripur eins og flestir, þunglyndur, skapstyggur og sérlundaður.

Af Bandaríkjaforsetum á 20. öld standa nokkrir upp úr. Teddy Roosevelt varð forseti árið 1901. Flestir voru sammála um að hann væri afar einkennilegur maður, örlyndur og djarfhuga. Sumir töldu að hann hefði hreinlega verið bilaður. En hann vann stríð, skrifaði bækur (eins og Churchill) og var snjall ræðumaður. Árið 1912 var skotið á hann áður en hann átti að halda ræðu á kosningafundi. Kúlan hitti hann í hjartastað, en hann hélt ótrauður áfram og flutti ræðuna. Auðvitað heyrði enginn hvað hann sagði, en þetta var í minnum haft. Þegar hann fór til læknis að ræðu lokinni kom í ljós að biblía sem hann hafði haft í brjóstvasanum bjargaði lífi hans.

Franklin D. Roosevelt var forseti í kreppunni og stríðinu. Hann var ekki sérstaklega snjall pólitíkus en hann ríkti á erfiðum tímum og þess vegna nær hann á topplista flestra um mikla Bandaríkjaforseta. Hann hafði lag á að tala til þjóðarinnar.

Eftir þetta hafa flokkarnir komið sér upp hvor sínum dýrlingi. Demókratar hafa Kennedy sem var snjall ræðumaður, fallegur maður og dó ungur. Hann var enn meiri flagari en Clinton og afrekaði lítið á stjórnmálasviðinu. Eftir að hann dó varð hann óhemjuvinsæll. Hann gaf út bók sem hann fékk Pulitzer-verðlaunin, virtustu bókaverðlaun í Bandaríkjunum, fyrir. Hann skrifaði hana líklega ekki sjálfur.

Ronald Reagan er dýrlingur repúblikana. Hann þótti ekki reiða vitið í þverpokum áður en hann varð forseti, en Jimmy Carter var svo vonlaus sem leiðtogi að Reagan vann auðveldlega. Hann var leikari og þótti frekar tilþrifalítill. En hann hafði gott lag á að halda ræður og var viðkunnanlegur í viðtölum. Reagan hafði lítið vit á staðreyndum en hitti á að leiða þjóðina út úr langri kreppu. Í mínum huga vann Reagan á, en til dæmis í Reykjavík kom hann kjánalega út á móti Gorbasjoff.

Þegar upp var staðið vann Reagan samt kalda stríðið. Kannski var hann bara forseti á réttum tíma en engu að síður var hann nefndur teflon-maðurinn vegna þess að óhreinindi festust ekki á honum fremur en teflon-pönnum. – Þegar við Vigdís hófum okkar búskap keyptum við nauðsynlegustu búsáhöld. Það gekk allt í sátt og samlyndi nema þegar kom að því að velja pönnu. Vigdís vildi teflon-pönnuna sem var galdratæki skv. auglýsingum. Ég vildi kaupa þykka pönnu úr pottjárni eins og mamma átti. Eftir nokkur ár vorum við búin að innbyrða alla teflonhúðina og hentum þeirri pönnu. Hina, gömlu og hallærislegu, eigum við enn.

Hverjir eru hetjur á Íslandi? Jón Sigurðsson er eflaust sá maður sem flestir litu upp til. Hann var leiðtogi í sjálfstæðisbaráttunni. Halldór Laxness fékk Nóbelsverðlaun og flestir af minni kynslóð viðurkenna snilld hans. En hann var mjög umdeildur lengst af sinni ævi. Hann lifði samt nógu lengi til þess að þjóðin sameinaðist um að virða hann. Sigurbjörn biskup naut líka virðingar nær allra síðustu áratugi lífs síns. Ég las flestar hugvekjur hans síðustu árin. Stundum tókst honum vel upp en oft fannst mér þær illskiljanlegar og innihaldsrýrar. Eiginlega bara guðsorðatuldur eins og svo oft heyrist í kirkju. En það var þjóðinni mikilvægt að eiga mann eins og Sigurbjörn og þegar hann dó fannst mörgum sem okkar síðasta hetja væri gengin.

Hagfræðingar eru sjaldnast hátt skrifaðir á vinsældarlistum almennings. Samt hygg ég að Jóhannes Nordal hafi notið mikillar virðingar fólks í flestum flokkum. Kannski vegna þess að hann var talinn krati að upplagi en talaði eins og sjálfstæðismaður. Jónas Haralz hefur líka óhemju mikla þekkingu og innsæi í hagfræðisögu Íslands alla 20. öldina. Jón Sigurðsson, fyrrverandi ráðherra og þjóðhagsstjóri er hefur mikla reynslu. Nú gæti hann verið sá maður sem stýrði för þjóðarinnar út úr mestu þrengingum frá kreppunni miklu. En hann gerir það ekki einn heldur verður hann að fá í lið með sér færustu menn utan lands og innan.

Geir Haarde forsætisráherra hefur haldið ró sinni undanfarna daga. Það hefur ekki verið auðvelt. Ég heyri það á mörgum að yfirveguð orð hans á blaðamannafundum hafa veitt mönnum styrk á erfiðum tímum. Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að mikilvægasta hlutverk forsætisráðherra á þessum erfiðum tímum sé að „peppa upp“ þjóðina. Geir hefur tekist ágætlega til við það síðustu viku. Hann á að halda því áfram að halda stutt ávörp til þjóðarinnar meðan það ástand varir sem nú er.

Það sem er mikilvægast núna er að fá í lið með okkur færustu menn sem völ er á til þess að byggja upp þjóðfélagið á ný. Bestu stjórnmálamennirnir eru þeir sem átta sig á því að í sigurlið þarf menn sem vita sínu viti og hafa umboð til þess að taka erfiðar ákvarðanir. Foringjar sem flykkja um sig jámönnum geta glansað þegar allt er í lagi. Foringjar sem þora að fá í lið með sér menn sem hafa sjálfstæðar skoðanir eru alvöru leiðtogar.

Færðu inn athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.