Það vantar ekki geðveikina

Íþróttamenn og íþróttafréttamenn tala oft um geðveiki eins og hún sé sérstaklega æskilegur liðsmaður á ögurstundu. Í dag gekk vel og enginn talaði um að geðveikina vantaði, en samt talaði einn leikmaður um þennan sjúkdóm sem eitthvað jákvætt og skemmtilegt. Enginn sem kynnst hefur geðveiki í návígi talar þannig. Pistilinn hér á eftir skrifaði ég fyrir tíu árum, en ef eitthvað er á hann enn betur við nú en áður.

(Viðbót 17.1.2019)


Þegar landsliðið keppti úrslitaleikinn við Frakka um ólympíugullið var dauft yfir liðsmönnum. Þeir voru ekki í stuði. Líklega hugsuðu þeir of mikið um gullið og of lítið um leikinn. Þulir sem lýstu leiknum klifuðu hins vegar á sömu klisjunni: „Það vantar geðveikina í liðið.“

Geðveiki er sjúkdómur sem hrjáir marga. Vegna þess að sumir þeirra sem eru geðveikir „tapa glórunni“ sem kallað er, finnst mörgum eðlilegt að hafa sinnisveiki í flimtingum. Mönnum finnst geðveikir haga sér kjánalega. Um þetta eru dæmi.

Það eru vissulega líka til dæmi um að menn nái frábærum árangri þegar þeir eru geðveikir. Þetta á einkum við þá sem þjást af oflæti eða maníu. Þá geta menn afkastað miklu meiru og jafnvel betra verki en undir venjulegum kringumstæðum. Því miður er manían ekki alltaf þannig, því að á sama tíma tapa menn oft dómgreindinni og geta ekki dæmt um það hvort þeir gera góða hluti eða slæma.

Hjá þeim sem þjást af geðveiki fylgir þunglyndi oft maníunni. Þá dregur af mönnum og þeir geta jafnvel ekki gert einföldustu verk. Hugurinn verður dapur og lífsneistinn daufur.

Margir fleiri kvillar geta hrjáð þá sem eru geðveikir. Geðklofi er einn þeirra. Áfengissýki er annar. Öllum er það þó sameiginlegt að einstaklingurinn er ekki lengur hann sjálfur. Að minnsta kosti ekki samur. Margir þekktir menn í þjóðfélaginu þjást af einhvers konar geðkvilla um lengri eða skemmri tíma. Fæstar fjölskyldur sleppa alveg við þennan vágest.

Geðveiki er nánast aldrei einstaklingssjúkdómur. Hún leggur þungar byrðar á alla þá sem þekkja þann sem sjúkdómurinn hrjáir. Hann getur sjaldnast legið sjúkdóminn úr sér eins og hálsbólgu eða magakveisu. Þvert á móti uppgötva menn skyndilega að vinur, faðir, sonur eða bróðir er ekki samur. Dómgreindarbrestur, ofbeldishneigð eða vanmáttur verður til þess að nánasta umhverfi er allt undirlagt.

Kannski er ég viðkvæmari fyrir þessu orðalagi vegna þess að einmitt um það leyti sem leikurinn var leikinn var ég í sambandi við fólk sem er fórnarlamb geðveikinnar beint eða óbeint. Á sama tíma og þulirnir hvöttu landsliðsmenn til þess að sýna geðveikina horfði ég út um glugga á mann sem áratugum saman hefur þjáðst af geðklofa. Hann leið áfram eins og svefngengill í rigningunni. Slíkur maður hefði ekki lyft leik handboltaliðsins.

Þeir sem tala í fjölmiðlum eiga að gæta vel að því sem þeir segja. Orð geta sært, þó að það sé sjaldnast markmiðið.

Íslenska liðið vantaði snerpu, leikgleði, æsing, kannski ofsa eða hugrekki. Líklegast var það bara ekki í besta stuði þennan dag. Landsliðið þarf margs konar leikmenn. Sumir eru kannski spekingar en aðrir sprellarar. Allir eru góðir handboltamenn.

Það eina sem ég get fullyrt að liðið vantaði ekki þennan morgun var geðveikin.


Pistillinn birtist fyrst 8. september 2008

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.