Að greina hismið (BJ)

„Benedikt hefur þann sjaldgæfa eiginleika að þekkja tæpast hismið, veit hreinlega ekki af því, kjarninn í boðskapnum blasir einfaldlega við honum.“ Þessi orð eftir Jón Kalmann Stefánsson verðlaunahöfund fannst mér afskaplega vel viðeigandi. Alltaf þegar skrifað er um einhvern Benedikt tek ég það til mín. Um stund að minnsta kosti. Samt var þessi lýsing upprunalega alls ekki um mig heldur um söguhetju í smáskáldsögu Gunnars Gunnarssonar, Aðventu.

Fyrir nokkrum dögum var sagt við mig að hægri mönnum væri nú mjög annt um að endurreisa Gunnar en gengi illa. Þegar ég heyrði þetta velti ég því fyrir mér hvaða hægrimenn stæðu í þessu. Líklega hefur enginn gengið lengra í því undanfarin ár að endurvekja áhuga manna á Gunnari Gunnarsyni en Halldór Guðmundsson. Halldór myndi aldrei viðurkenna að hann sé hægrimaður, innvígður og –múraður í Mál og menningu. Enda er saga hans um þá Þórberg og Gunnar ekki nein sérstök hetjusaga. Hvorugur kemur fram sem ósnertanlegur dýrlingur.

Þegar ég var lítill tók einhver jeppamaður upp á því að kalla bílinn sinn Trölla eða eitthvað viðlíka. Nafnið var sett með stöfum neðan við rúðuna. Nokkrum vikum seinna voru komnir fjórir jeppar með nöfn. Strákum á mínum aldri fannst þetta spennandi. Skyndilega voru tugir jeppa með nöfn. Við reyndum að læra þau jafnóðum og ég held við höfum kunnað flest nöfnin utanað. Þá voru ekki fleiri jeppar í bænum en svo að það var vinnandi vegur.

Einn jeppinn hét Fjalla-Bensi. Félögum mínum fannst þetta ógurlega sniðugt þegar þeir voru með mér og kölluðu: „Nei sko. Þarna er Fjalla-Bensi.“ Mér var engin stríðni í því. Var satt að segja hreykinn af því að jeppinn hefði verið nefndur í höfuðið á mér.

Enginn okkar vissi hvaðan þetta nafn kom. Gunnar Gunnarsson átti heima í húsi í hverfinu, en okkur datt ekki í hug að tengja nafnið honum. Einhverntíma á tímabilinu frá unga aldri til nútímans frétti ég þó að Fjalla-Bensi er aðalpersónan í Aðventu. Eða fyrirmyndin að söguhetjunni.

Gunnar er ekki auðmelt skáld. Ég hef áður lýst glímu minni við skáldsögur Gunnars. Einhver hlýtur að hafa lesið öll verk hans en það hefur ekki verið auðvelt verk. Að undanförnu hef ég þó lesið Sögu Borgarfólksins, sem var ein fyrst bók Gunnars og kom út á dönsku fyrir fyrra stríð og á íslensku árið 1915-18, held ég. Síðar var bókin kölluð Saga Borgarættarinnar og kvikmynduð af dönsku fólki. Mér fannst gaman að kvikmyndinni þegar ég sá hana fyrir langa löngu og bókin átti sína spretti. Var alls ekki leiðigjörn en á henni byrjendabragur og stundum var hún kjánaleg. Hún er í fjórum hlutum, líklega til þess að höfundur gæti komið bók út fyrir hver jól.

Svo las ég Varg í véum. Það er afar einföld ástarsaga úr Reykjavík. Hún kom út skömmu eftir fyrri heimstyrjöldina. Alls ekki leiðinleg en saga í stíl rauðu ástarsagnanna.

Þessar bækur eru ekki taldar til bestu bóka Gunnars.

Nú held ég að menn ætli að gera Aðventu að hans meistaraverki. Jón Kalmann lýkur formála að útgáfu sem kom út fyrir jólin svona:

„Lesandinn klæðir sig í kirkjuföt og les af auðmýkt þiggjandans, en þannig má aldrei umgangast skáldskap sem byggir framhaldslíf sitt á frjóseminni í höfði lesandans.“

Ég las þessa setningu nokkrum sinnum en er litlu nær um hvað Jón er að fara. Þetta er svo uppskrúfað að gæsahúðin helst lengi.

Útgáfan sem ég reyndi að lesa er 8. útgáfa og þessi er í þýðingu Gunnars. Gunnar var ekki talinn snilldarþýðandi. Áður hafði bókin verið þýdd af Magnúsi Ásgeirssyni og ég efast ekki um að hann hefur gert það miklu betur. Magnús var frændi minn en hann dó árið sem ég fæddist þannig að ég þekkti hann ekki. Það er útúrdúr.

Ég tek dæmi um þýðingu Gunnars:

„Farið til kirkju um daginn hafði Benedikt ekki …“

Hver talar svona eða hefur nokkur nokkurntíma talað með þessum hætti?

Benedikt hafði ekki farið til kirkju um daginn.

Flóknara þarf  það nú ekki að vera.

Það er eins og orðin hafi verið sett í krukku og dregin út eitt og eitt. Tilviljun ein hefur ráðið því að útkoman varð ekki: „Hafði um farið kirkju Benedikt daginn ekki til“

Og þó. Skömmu síðar:

„Háar hugmyndir um sjálfan sig gerði Benedikt sér ekki …“

Maður fer að sjá í þessu ákveðið mynstur. Líklega eru orðin ekki dregin upp eitt og eitt heldur sett inn í fyrirfram ákveðið form.

Nokkrum blaðsíðum seinna:

„Sem hann stóð þarna gætti nokkurs tómleika innra með honum, saknaðar sem hvorki var hægt að ákvarða né útskýra, kynlegrar sogandi heimþrár, en hvort það var af því að hann var að yfirgefa byggðina eða af því að í hvert skipti sem hann skildi við hana yfirþyrmdi hann sú tilhugsun að innan stundar ætti fyrir honum að liggja að skilja við hana fyrir fullt og allt, það vissi Benedikt ekki.“

Ég ákvað að leggja Aðventu frá mér og rakst þá á þetta gullkorn á bókarkápu:

„Aðventa ljómar af þeim dimma og bjarta eldi sem kviknar af neistafluginu þegar veruleika og skáldskap er slengt saman … “

Miklir snillingar erum við.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.