Söngur feitu konunnar (BJ)

Óperur eru líklega það listform sem óvönum finnst leiðinlegast. Þær eru að sumu leyti eins og leikrit, nema hvað söguþráðurinn er yfirleitt miklu einfaldari og maður skilur ekkert í textanum. Jafnvel þó að maður vissi um hvað textinn fjallaði væri maður litlu bættari því að í honum eru stöðugar endurtekningar og listamennirnir eru yfirleitt ekki góðir leikarar. Tónlistin er sjaldnast eins heilsteypt eins og tónverk á við sinfóníu. Óvanir vildu auðvitað helst fá venjuleg lög, en í óperum heita lögin aríur og koma öðru hvoru. Þess á milli humma söngvararnir sinn einfalda texta eftir fyrirsjáanlegum tónum.

Samt er óperan vinsælt listform. Til þess að skilja hvers vegna verður maður að geta skyggnst bakvið tjöldin. Eða ofan í hljómsveitargryfjuna.

Eins og fram kom í síðasta pistli var ég í menningarferð í París fyrir nokkrum dögum. Þá fór ég meðal annars í óperuna. Tvisvar. Ég fór í nýju Bastillu óperuna. Hún er núna tuttugu ára gömul og stendur þar sem hin illræmda Bastilla stóð á sínum tíma. Fyrir þá sem ekki muna söguna vel þá var hún illræmt fangelsi sem var rifin niður í byltingunni árið 1789, frönsku byltingunni sem er einn af hornsteinum að nútíma samfélagi.

Nú er þarna sem sé nýtísku óperuhús. En meðan ég var þarna voru ekki nýtísku óperur sýndar. Ég sá Don Carlo eftir Verdi. Söguþráðurinn fjallar um ástir og örlög og eins og vera ber deyja flestar höfuðpersónurnar eða lifa ógæfusömu lífi um fyrirsjáanlega framtíð við lok sýningar.

Þá hef ég eyðilagt skemmtunina með því að kjafta plottinu. En ég sá hins vegar sýningu sem flestir misstu af. Dramað í hljómsveitargryfjunni.

Við sátum á fremsta bekk. Það þykir mjög flott. Ekki eins flott og vera í stúku til hliðar þar sem maður sér ekki helminginn af sviðinu, en mjög flott samt.

Í upphafi sýningar klappa allir og byrjendur vita ekki hvers vegna. Það er vegna þess að þá gengur hljómsveitarstjórinn í gryfjuna, en það sér enginn nema þeir sem hafa efni á sæti á fremsta bekk. Þeir klappa og allir hinir fylgja með.

Smá viðvörun. Aldrei vera fyrst til þess að klappa á tónleikum eða í óperu. Það kann að virðast sem verkinu sé lokið, en kannski lækkaði söngvarinn bara róminn til þess að ná andanum. Það eru alltaf einhverjir aðrir sem vita hvenær á að klappa og best er að klappa þegar aðrir hafa klappað í amk þrjár sekúndur. Gestir óperuhúsa hlægja að þeim sem klappa á vitlausum stöðum. Einu sinni sat ég við hliðina á sendiherra sem klappaði milli þátta í sinfóníu. Hann er núna fyrrverandi sendiherra.

Á fremsta bekk byrjar stuðið löngu áður en hljómsveitastjórinn kemur inn. Frá því að maður kemur í salinn á maður að fylgjast með tónlistarmönnunum stilla hljóðfærin. Sumir sjá ekkert annað en þjálfað auga veit að hverju á að leita. Hvernig eru samskipti milli einstakra hljóðfæra. Sumir brosa hver til annars, aðrir ranghvolfa augunum þegar kollegann slær feilnótu. Eða slær einhverja nótu. Þannig geta þeir tekið félagann á taugum.

Stundum er maður heppinn og gullfalleg kona leikur á hörpu. Þá er kvöldinu yfirleitt reddað og maður einbeitir sér að henni.

Þetta kvöld var það karl sem lék á hörpuna.

Ég sat framan við bassaleikarana. Þeir virtust kátir karlar og brostu hver til annars.

Eftir að hjómsveitarstjórinn kom inn horfðu þeir flestir til skiptis á hann og nóturnar. Sá sem var lengst til vinstri horfði samt mest á þann sem var lengst til hægri og brosti. Hinn leit stundum til baka en sá sem sat á milli þeirra leit bara á hljómsveitarstjórann og nóturnar. Hann fletti líka fyrir félaga sinn og sléttaði úr nótunum með því að draga fiðlubogann yfir blaðsíðuna eftir að hann var búinn að fletta.

Söngkonurnar áttu að vera ungar konur og kannski voru þær það. Mér fannst þær samt líta útfyrir að vera feitar kerlingar og ólíklegt að sögupersónurnar hrifust af þeim. Don Carlo var ástfanginn af annarri, en svo illa vildi til að faðir hans var giftur henni. Hin sem var þerna drottningar, elskaði Don Carlo, en sú ást var ekki endurgoldin. Hún svaf líka hjá föður hans.

Þegar þernan söng ranghvolfdu bassaleikararnir í sér augunum og skældu sig í framan. Líklega er þetta ekki skemmtileg kona. Alvöru prímadaonna ef marka má viðbrögð þeirra.

Í fyrra hléi fór ég fram en kom snemma til baka. Þá var miðjubassaleikarinn í samræðum við hljóðfæraleikarann í næstu röð fyrir aftan. Svo hallaði hann sér í áttina til hans og kyssti hann. Hvað er eðlilegra meðal tveggja fullorðinna karlmanna sem vinna nálægt hvor öðrum? Svo spjölluðu þeir áfram.

Hörpuleikarinn hefur lítið að gera. Hann þarf yfirleitt ekki að leika nema einhver sé að deyja. Þess vegna er gott að sitja fremst þegar hugguleg kona spilar á hörpuna. Af því að hún hefur ekkert að gera gæti hún tekið upp á því að stara til baka á mann. Og þá er kvöldinu reddað. Ég hef aldrei lent í þessu (Vigdís les þessa dálka) en er viss um að það er mjög skemmtilegt.

Hörpuleikarinn lék tvisvar í þessari sýningu. Í bæði skiptin fór hann eins að. Kveikti ljósið yfir nótunum sínum einni mínútu áður en hann byrjaði. Þegar dauðastríðinu var lokið slökkti hann aftur og fór. Ef þið þekkið eitthvert ungt fólk sem vill verða tónlistarmenn myndi ég mæla með hörpunni. Það er rólegt djobb. Þríhyrningurinn kemur líka til greina. Þar er hátt kaup á hverja nótu.

Óperunni lauk á fimm tímum. Við horfðum nefnilega á ítölsku útgáfuna. Sú franska hefði farið yfir sex tíma.

Var þetta skemmtileg ópera? Já mér fannst þessir fimm tímar líða eins og örskotsstund. Auðvitað hefði það verið öðru vísi að sitja úti í miðjum sal og sjá bara það sem gerðist á sviðinu og ég lýsti í tveimur línum hér að ofan.

Þá hefði maður eins getað lagt sig og hrokkið upp öðru hverju til þess að hrópa Bravo, Brava eða Bravi, allt eftir því sem hinir virtust gera. Og ekki haft hugmynd um að feita kerlingin væri leiðinleg og líklega andfúl.

Maður hefði einfaldlega misst af sjóvinu. En vegna þess að svo fáir ná að sitja fremst vita fáir hvers vegna óperur eru svona skemmtilegar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.