Ég heyrði að Vigdís kallaði af neðri hæðinni. Eftir að hafa legið í flensu dögum saman reyndi ég að hreyfa mig sem minnst og lá í rúminu og las Morgunblaðið. Þegar ég les Moggann þarf ég á allri minni athygli að halda og náði ekki hvað sagt var við mig og hváði. Vigdís endurtók spurninguna: „Heitir hún Oddný?“
Einhverjum kynni að virðast þetta sakleysisleg spurning en ég veit af reynslunni að einmitt á svona spurningum á maður að vara sig. Nokkur svör blasa við, en einmitt þess vegna er gott að hugsa sig vel um.
„Já“ gæti til dæmis verið nokkuð gott svar. Eða þá „nei.“
En ég féll í hvoruga þá gildru. Ekki síst vegna þess að ég hafði ekki hugmynd um hvað Vigdís var að fara.
Í huganum fór ég yfir nokkrar Oddnýjar sem ég þekkti. Það er Oddný bekkjarsystir mín úr barnaskólanum. Mér fannst ekki sennilegt að hún væri umræðuefnið því að ég veit ekki til þess að Vigdís þekki hana neitt eða viti að hún var í bekknum mínum.
Þá gæti það verið Oddný bekkjarsystir Vigdísar. Samt var það afar ólíklegt líka, því að Vigdís veit að hún heitir Oddný og þarf ekki að spyrja mig um það.
Loks er það Oddný vinkona mín sem vann með mér á Rannsóknastofnun uppeldismála. Þessi rannsóknastofnun heitir nú einhverju enn lengra og virðulegra nafni, eflaust með fjölmarga sérfræðinga á sínum snærum. Árið 1983-4 var ég fyrsti starfsmaður stofnunarinnar. Staðreynd sem ég hampa lítið en reikna með því að vera boðið í stórafmæli þegar þar að kemur. Oddný var virðuleg eldri kona og hún var starfsmaður númer tvö. Við vorum með skrifstofu í gamla kennaraskólanum við Laufásveg. Þar var gólfið svo skakkt að þegar Oddný stóð upp af fína skrifstofustólnum sínum sem var á hjólum þá rúllaði hann upp að vegg þrjá metra í burtu.
En þessi góða Oddný var líklega ekki umræðuefnið á þessum fimmtudagsmorgni.
Svo minnir mig að til sé Oddný borgarfulltrúi fyrir Samfylkinguna, en henni mundi ég ekki eftir þennan dag.
Staðreyndin er semsagt sú að við höfðu ekki verið að tala um neina Oddnýju þennan morgun. Eða neina konu yfirhöfuð.
Af langri reynslu vissi ég hins vegar að það skipti ekki nokkru máli. Ef ég hefði spurt: „Hver?“ hefði Vigdís bent mér á að þetta væri fullkomlega rökrétt framhald á samræðum sem við hefðum átt á kvöldgöngu í Laugardalnum nokkrum dögum eða jafnvel vikum áður. Eða sagt við eitthvað á þessa leið:
„Manstu ekki að eftir konunni í útvarpinu þegar við fórum í gegnum Hvalfjarðargöngin?“
Af því að henni finnst tengingin augljós skilur hún ekkert í því ef ég kem af fjöllum.
Auðvitað skil ég þetta að hluta til. Það hefur oft komið fyrir að ég er búinn að útbúa mig í veislu sem okkur hefur verið boðið í og skil ekkert í því hvað Vigdísi dvelst í garðinum. Þegar ég fer svo út og spyr hvort við eigum ekki að drífa okkur segist hún ekkert vita og segir að ég hafi aldrei um veisluna talað. Fyrst þegar þetta kom fyrir maldaði ég í móinn, sór og sárt við lagði að ég hefði talað um þetta fyrir löngu. En svo áttaði ég mig á því að ég hafði ætlað að segja henni frá þessu (sagði henni frá því í huganum) og þar með fannst mér málið afgreitt.
Einu sinni talaði ég fyrir minni kvenna. Ég sagði eitthvað á þá leið að ég væri ekkert mjög hrifinn af minni kvenna. Ef það væri eitthvað sem maður ætti að muna þá gleymdu þær því fyrir mann. En ef það væri eitthvað sem maður helst vildi gleyma, þá myndu þær það endalaust og rifjuðu upp þegar síst skyldi. Konurnar í boðinu voru ekkert mjög ánægðar með þessa ræðu (nema Vigdís sem er mjög góður áheyrandi og hlær hátt að öllum mínum bröndurum, enda mikil smekkmanneskja).
Þetta var útúrdúr. Ég var enn ekki búinn að ákveða hvernig ég átti að svara spurningunni. Þeir sem sáu myndina Maraþonmaðurinn með Dustin Hoffman vita að það getur verið afar sársaukafullt að svara spurningu sem maður veit ekki svarið við. Í myndinni var nasistalæknirinn geðþekki Josef Mengele mættur og taldi að Dustin vissi eitthvað um illvirki sem Mengele var með í undirbúningi. Dustin vissi ekkert en til þess að vera viss setti Mengele (leikari nátttúrlega) Dustin í tannlæknastól og byrjaði að bora í framtönnina á honum. Svo spurði Mengele:
„Er það öruggt?“
Dustin vissi ekkert um málið og svaraði: „Ég veit ekkert um hvað þú ert að spyrja.“
Borinn fór í gang og á kaf í glerunginn. Áhorfendur supu hveljur með aumingja Dustin.
Mengele spurði aftur: „Er það öruggt?“ og fyrst ekki tjóði að segjast ekkert vita svaraði Hoffman: „Já, já, já, það er alveg öruggt.“
Borinn fór aftur á kaf og það var komin sýnileg dæld í framtönnina. Mér hefur sjaldan liðið verr í bíó.
Enn sama spurning: „Er það öruggt?“ Þá var ekki annað að svara: „Nei, nei, það er alls ekki hættandi á það.“
Borinn fór á kaf inn í taug. Meira veit ég ekki úr myndinni því að þarna leið yfir mig.
Þetta sýnir að það borgar sig ekki að svara gáleysislega því að afleiðingarnar geta verið hræðilegar, hvert sem svarið er.
Til þess að fyrirbyggja allan misskilning þá er ég alls ekki að gefa í skyn að Vigdís beiti oft aðferðum af þessu tagi við mig.
Ég var enn ekki kominn með rétta svarið.
Ein leið var náttúrlega að svara: „Ekki heitir hún það og gettu betur húsfreyja“ og vona að Vigdís svaraði þá að bragði: „Ekki vænti ég að hún heiti Gilitrutt.“
Þetta hefði verið vel við hæfi og rökrétt framhald af spurningunni. Að minnsta kosti ekki vitlausara en margt sem okkur fer á milli þegar fáir heyra til.
Svo hugsaði ég með mér að best væri að fara öruggu leiðinu og svaraði:
„Ég er ekki alveg viss.“
Ekkert svar.
Ég var auðvitað máttfarinn og auðvitað alltaf afar mjúkmáll, en ákvað að safna þreki og kallaði: „Ég er ekki alveg viss.“
Ekkert svar.
Vigdís var löngu farin í vinnuna.
…
Hvaða kona var þetta? Ég hef ekki hugmynd um það, en samræðunum gæti verið framhaldið einhvern tíma næsta haust.