Hvers vegna fæ ég ekki Nóbelsverðlaun? (BJ)

Ég veit að margir hafa velt þessu fyrir sér árum saman en nú held ég að skýringin sé komin. Gunnar Gunnarsson fékk ekki Nóbelinn vegna þess að hann var ekki kommi. Þetta kom rækilega fram í fyrra. Samkvæmt fréttum í haust telur höfundur ævisögu Davíðs Stefánssonar að mönnum hafi ekki þótt Davíð nógu vinstrisinnaður til þess að fá þessi æðstu verðlaun í bókmenntum. Ég get nefnt fleiri hægrisinnaða rithöfunda sem hafa ekki fengið verðlaunin: Guðrún frá Lundi, Hrafn Gunnlaugsson, Sverrir Stormsker, Davíð Oddsson. Ég gæti örugglega fyllt heila A4 síðu af nöfnum rithöfunda sem ekki eru nógu vinstrisinnaðir og hafa verið hundsaðir af þessari kratanefnd.

Í svipinn man ég ekki eftir neinum vinstrimanni sem hefur ekki fengið Nóbelsverðlaun. Ég er sammála Indriða G. Þorsteinssyni og Guðna heitnum rektor um að fáir eru leiðinlegri og vitlausari en Svíar. Norðmenn eru að vísu enn vitlausari og leita að ómerkilegum vinstrisinnuðum Ameríkönum til þess að verðlauna. Jimmy Carter (hann var nefndur Jimmi Who? þegar ég bjó í Bandaríkjunum) og Al Gore sem ekki náði einu sinn uppnefni fá báðir friðarverðlaun. Þessir menn fara í söguna fyrir það eitt að hafa tapað forsetakosningum og hafa ekki efnt til borgarastríðs í kjölfarið. Gore fór að vísu með niðurstöðuna í Hæstarétt en blóðugum átökum var afstýrt.

Reyndar langar mig ekkert í þessi verðlaun og myndi ekki taka á móti þeim ef ég fengi þau (Norðmenn eru slíkir durtar að þeir láta menn taka rútuna af flugvellinum þegar þeir mæta til þess að taka við verðlaununum).

Annað mál. Ég hef staðnæmst við nokkrar fréttir. Formaður aldraðra segir að kjarabætur til þeirra séu „of lítið, of seint.“ „Of lítið“ skil ég, allir vilja meira, en „of seint“ fyrir hvað. Er formaðurinn úr heimi hallur og nýtur ekki bótanna? Eða er síðasti maður kominn á ellilífeyri og öldrun hér með afnumin? Það væri reyndar skynsamlegt og nyti víðtæks stuðnings. Einhvern tíma tók ég eftir því að helmingur heilbrigðiskostnaðar fellur til á síðasta aldursári. Af því að það ár er hvort sem er ekki sérstaklega skemmtilegt fyrir einstaklinginn og ættingja hans væru ekki allir til í að stytta bara ævina um eitt ár? Þá sparast í heilbrigðis- og lífeyriskerfinu og lífið verður ánægjulegra. Svona einfaldar lausnir sést mönnum stundum yfir.

Svo sé ég að þrír þingmenn ætla að banna opinberum starfsmönnum að kaupa kynlífsþjónustu meðan þeir eru á ferðalögum á vegum hins opinbera. Af því að ég er giftur opinberum starfsmanni er mér málið skylt. Auðvitað veltir maður því fyrir sér hvort þetta sé útbreitt vandamál hjá því opinbera. Fram að þessu hef ég ekki haft miklar áhyggjur af þessu en þegar frumvarpið er komið fram er ég viss um að margir makar opinberra starfsmanna eru þeim Kolbrúnu, Siv og Árna Þór þakklát. Kolbrún bregst aldrei.

Þegar ég les fréttina betur sé ég að í greinargerð með frumvarpinu er vitnað í að opinberir starfsmenn í Noregi hafi keypt kynlífþjónustu á ferðalögum. Ég hafði reyndar ekki áttað mig á því að þetta snéri fyrst og fremst að norskum embættismönnum .


PS Þar sem ég reikna með því að margir lesendur þessara pistla hafi ekki lesið eftirfarandi athugasemd sem birtist í Morgunblaðinu (bls. 17) 12. desember birti ég hana hér í fullri lengd:

(Hún er frá Laufeyju Örnu Johansen)

,,Það að líkja verkum mínum við verk Guðrúnar Einarsdóttur með þeim formerkjum að ég sé saklaus áhugamanneskja í myndlist og sem hafi óvart dottið niður á þær aðferðir og þá tækni sem þarf til að gera slík verk sem ég tel einstaklega fáguð, ber vott um einstaklega mikla grunnhyggni. Hægt er að lesa úr texta JB Ransu að ég væri einstaklega hæfileikaríkur sakleysingi eða loddari sem af mikilli kunnáttu og áræði geri myndir eins og Guðrún og hafi að féþúfu í hennar nafni og list. Til að leiðrétta viðkomandi gagnrýnanda og upplýsa þekkingarskort hans á myndlist og greinilega afar slakt skynbragð vil ég byrja á að lýsa eigin verkum og þeim forsendum sem ég byggi þau á. Myndir mínar eru unnar meðvitað af hvatvísi þar sem hver pensilstroka leiðir til þeirrar næstu í flæði hreyfinga. Þetta er dans og samspil hins ósjálfráða og sjálfráða, spuni líkamlegra athafna sem skapa myndirnar. Það að nota mjög djúpan krómatískan skala dökkra lita sem í fyrstu virðist svart, og vinna efnið hrátt, hratt, þungt og efnismikið samt með þunna fleti á móti, er til þessa að einangra og stúdera betur það mynstur sem skapast við hreyfingu handarinnar á léreftinu.

Til að útskýra muninn og lýsa verkum Guðrúnar fyrir þá lesendur sem ekki til þekkja þá má segja að áferðarmiklar myndir Guðrúnar séu afleiðing efnahvarfa og munsturs sem er gert af mun meiri natni og yfirlegu hvað varðar fínleg blæbrigði. Það er ekki hægt að segja að í Guðrúnar tilfelli sé um að ræða myndir sem í eðli sínu séu tilfinningalegur ósjálfráður spuni, hvað þá að áhorfandinn finni fyrir hraða augnabliksins mikið, heldur er hraði þeirra eins og að fylgjast með mjög hægu ferli umbreytinga. Hér er um mun vísindalegra sköpunarferla að ræða. Þá á ég við að myndir Guðrúnar hafa yfir sér áru yfirlegu, natni og vísindalegrar nákvæmni þar sem frumöfl náttúrunnar eru túlkuð og hvernig við sem manneskjur höndlum hana. Það eru jú líkindi með okkur en ég er frjálsleg í efnistökum meðan Guðrún er mun agaðri eða eins og Þóra Þórisdóttir listfræðingur og gagnrýnandi á Morgunblaðinu sagði á gagnrýnisfundi á vegum ART 11, að myndirnar væru einskonar frjálslegur impressionismi. Það að listamaður geti eignað sér að fjalla um lífskvikuna og manneskjuna sem siðræna vitundarveru finnst mér mjög hart, ef hægt er að eigna sér þau óræðu efni sem þar um ræðir. Það er jú erfitt fyrir leikmann að gera sér grein fyrir hinum ýmsu blæbrigðum listarinnar en afar ófaglegt fyrir opinberan gagnrýnanda að sýna vankunnáttu með hleypidómum og þeirri forsendu að mata þurfi gagnrýnendur á rétta fóðrinu svo gagnrýn hugsun þeirra þrífist.“

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.