Í fyrra fór ég með hópi fólks á Hnjúkinn. Það er í sjálfu sér varla í frá sögur færandi. Nú hefur annar hvor maður gengið á Hvanndalshnjúk og fer að verða merkilegra að tilheyra þeim hluta þjóðarinnar sem ekki hefur lagt hann að fótum sér. Þessi sami hópur fór að ganga aftur saman í vor. Magga, sem skipuleggur þetta allt, heilinn í hópnum, sagði í pósti eitthvað á þá leið að lokagangan yrði á Kjalveg hinn forna, en hörkutólin myndu ganga á Eyjafjallajökul. Líður nú og bíður og Kjalvegsgangan auglýst en ekkert heyrðist af jöklinum. Mér datt helst í hug að staðan hefði verið endurmetin og við nánari athugun hefðu engin hörkutól fundist í hópnum. Því vildi ég ekki una og sótti það fast að ferðin yrði ákveðin. Úr varð að ákveðið var að fara 9. eða 10. júní.
Hunangsflugan lætur á sér kræla
Glöggir lesendur muna að ég fór í græningjapróf í píanóleik í vor. Að námskeiði loknu fékk ég nýtt og glæsilegt píanó. Það fengu reyndar ekki allir nemendur nýtt píanó og eiginlega kom þetta píanó námskeiðinu ekkert við. Ég keypti það bara nokkru eftir að námskeiðinu lauk. En ég hugsaði með mér að með þennan kjörgrip ætti ég að reyna að læra að spila eitthvað verulega erfitt. Staðnæmdist ég þá við Flug hunangsflugunnar eftir Rimsky-Korsakov. Menn kannast við það úr útvarpinu. Það hljómar eins og suðandi fluga sem kemur nær og flýgur svo burtu.
S s s s s s s s, S s s s s s s s, …. S S S S, S, S S S, S og svo framvegis. Á endanum flýgur flugan burt.
Þetta lag er eiginlega bara skalaæfingar upp og niður og svolítið gaman að prófa það. Svo er það spilað mjög hratt eða presto, og ef maður gæti náð því hljómar maður eins og alvöru píanóleikari.
Kosturinn við presto lög er að þau tekur fljótt af og maður getur spilað þau mjög oft á skömmum tíma.
Þetta lag hefði ekki átt að tengjast þessari ferð neitt en margt fer öðruvísi en ætlað er. Á miðvikudagskvöldið var settist ég við píanóið og var þreyttur. Galdurinn við að geta spilað vel er að vera afslappaður, en það er hægara sagt en gert að spila presto og ætla að hitta nokkurn veginn á allar nóturnar. Maður stífnar ósjálfrátt upp. Ég fann fyrir þreytu í hægri upphandlegg og mjóhrygg. En tók samt nokkrar æfingar enn.
Daginn eftir fór ég á fyrirlestur um morguninn. Það finnst mér yfirleitt firnaleiðinlegt ef ég er ekki sjálfur að tala. En nú var erindið svosem ágætt, en átti dapurlegan endi fyrir mig. Því að í því að ég stóð upp fann ég að liðþófar í mjóhryggnum höfðu gefið sig og þrýstu með krafti á mænuna. Í þessu hef ég lent áður og vissi að eina ráðið var að fara heim, bryðja íbúfen, sem er bólgueyðandi verkjalyf og leggjast útaf. Næst sást svo lífsmark með mér á föstudagsmorgni.
Ekki var verkurinn horfinn og ég velti því fyrir mér fram til hádegis hvort ég ætti að greiða staðfestingargjaldið. Ég var búinn að hlakka til ferðarinnar frá því í vetur. Að vísu var búið að flakka til með það alla vikuna hvort ferðin yrði farin yfirhöfuð vegna veðurs. Stundum áttum við að fara á laugardegi, stundum sunnudegi og stundum líklega ekki neitt. Hvað sem ákveðið yrði var ljóst að veðrið yrði leiðinlegt. Lokaúrskurðurinn var laugardagur. Tvær mínútur fyrir tólf borgaði ég ferðina. Það var síðast séns.
Við Vigdís höfðum ákveðið að sofa á hótelinu á Skógum þessa nótt. Gott að vakna úthvíldur og þurfa ekki að aka tvo tíma um morguninn. Íbúfen í morgunmat, hádegismat og kvöldmat. Það var enginn vandi að sofna um kvöldið.
Klukkan fjögur um nóttina vaknaði ég. Það var fluga komin inn í herbergið. Undir venjulegum kringumstæðum hefði það ekki truflað mig mikið en þessi fluga hafði sérstakan áhuga á mér. Það var sagt um einn frænda minn að kvenfólk flykktist að honum eins og mý að mykjuskán. Kannski ekki falleg myndlíking en þó allt í lagi að kvenfólk flykkist að manni. Flugur er leiðinlegra mál.
Þetta var reyndar ekki hunangsfluga heldur venjuleg húsfluga. Hún hafði mikinn áhuga á eyranu á mér. Ég heyrði hana nálgast: S s s s, S s s s, S S S S. Mér var hætt að lítast á blikuna og setti sængina upp fyrir höfuð. Eftir fimm mínútur gægðist ég upp úr henni aftur. Allt var friðsælt. Ég lygndi aftur augunum, andardrátturinn var smám saman reglulegri og … S s s s, S s s s, S S S S. Hún virtist staðráðin í að fara inn í eyrað á mér. Þetta fór að verða þreytandi. Ég vildi ekki vekja Vigdísi og lá þess vegna og lét lítið á mér kræla. Ef ég setti koddann við bæði eyru kæmist hún ekki að mér. Aftur ró. Allt í einu heyri ég dauft suð í gegnum koddann. Svo ekki neitt. Þá loftárás á nefið á mér. Þar þóttist hún greinilega hafa fundið sér verðugan bústað.
Þetta endurtók sig með afbrigðum til klukkan 7.30. Flugan hafði ekki minnsta áhuga á Vigdísi sem svaf eins og steinn og vissi ekkert um næturævintýri mín. Þá loksins vaknaði hún. Ég fór að taka mig til fyrir daginn, bursta tennurnar, raka mig og baða. Þegar ég kom til baka sat flugan á rúminu. Ég lét handklæðið vaða á hana.
Vúss. S s s s, S s s s, S S S S.
Ekki gekk það. Hún flaug út að glugganum og ég smellti handklæðinu yfir hana.
S s s s, S s s s.
Ég strauk lófanum yfir handklæðið.
S s s s, S s s s, S S S S krjass.
Ég lét hana hanga á rúðunni. Enn einu sinni hafði hvíti kynstofninn sannað yfirburði sína.
Í þoku
Klukkan tíu voru allir tilbúnir við Seljavallalaug. Ég byrjaði daginn á tveimur íbúafen. Við vorum tuttugu allt í allt með leiðsögumönnum. Það var þétt þoka. Ein úr hópnum sagði minnug Hvannadalshnjúksins: „Ég hélt að við værum alltaf svo heppin.“ Enginn þorði að segja neitt um það.
Aðalmaðurinn var Árni frá Stóru-Mörk. Hann fór hægt og skynsamlega upp. Í 800 metra hæð byrjaði jökullinn. Ég var dauðþreyttur. Þetta er heil Esja. Og önnur eins eftir. Þá voru allir bundnir saman. Svo héldum við inn í sortann. Nú var ekki hægt að snúa við.
„Þetta verður svipaður halli alla leiðina“ sagði Árni leiðsögumaður. Við sáum ekkert. Eftir mjög langa göngu stoppuðum við og fengum okkur vatn. Ég spurði hvað við værum komin hátt. „Í 1.080 metra“ sagði Árni. Ég dauðsá eftir að hafa spurt. En í því að við héldum af stað byrjaði einn ferðafélaginn að kasta upp. „Háfjallaveiki“ sagði einhver og af því að ég er svo trúgjarn hugsaði ég ekki meira um það. Hann gubbaði á 20 metra fresti, en sagði alltaf að það væri ekkert að sér. Ég býð ekki í það ef hann hefði verið veikur.
Allt í einu var eins og tjald hefði verið dregið frá og tindurinn blasti við. Guðnasteinn heitir hann, glæsilegur tindur upp úr ísnum. Það er ekkert fallegra en tindur uppi á jökli. Skyndilega hafði gangan öðlast tilgang á ný.
Ég var með tónlist í eyrunum. Ég las það einhvern tíma í New York Times að margir héldu því fram að Ipodinn hefði yfirnáttúrulegt samband við notendur. Joggarar sögðu frá því að þegar þeir voru að hníga niður af þreytu kom uppáhaldslagið þeirra skyndilega. Ég beið eftir merki frá mínum Ipod. En þar var hvert blúslagið á fætur öðru. Eric Clapton söng: „I’ve had enough. I can’t go on anymore.“
Við vorum komin að brekku með mjúkum snjó þar sem maður sökk í hverju skrefi. Þetta var hræðilega erfitt. Íbúfenið hélt bakinu góðu, en það sótti sterkt á mig að leggja mig þarna í snjónum.
Félaginn á undan hélt áfram að kasta upp. Skyndilega kallaði Vigdís að hún væri komin með krampa og við urðum að stoppa. Ósköp var ég henni þakklátur og hafði ekki rænu á að vorkenna henni. En þreytan hvarf ekki og hvert skref var öðru þyngra. Skyndilega heyrði ég að Mick Jagger vinur minn var farinn að syngja. „Loksins, loksins“, hugsaði ég. Eitthvað uppörvandi.
Skilaboðin voru skýr: „Here comes your nineteenth nervous breakdown.“ Fæturnir voru eins og blý og sukku djúpt ofan í snjóinn. Nú sáum við að hinn hópurinn hafði stoppað á brúninni og var byrjaður að narta í nestið sitt. „Ekki nema 50 skref eftir“ hugsaði ég og taldi: Eitt, tvö, þrjú, … Mick söng á meðan: „Here it comes, here it comes …“ Fjörutíu og níu og fimmtíu. Nokkuð eftir enn. Tuttugu og fimm skref í viðbót. Dugði ekki til. En nú fann ég að eitthvað hafði breyst. Mick var hættur að syngja og félaginn á undan mér var hættur að æla. Í þrítugasta og áttunda skrefi settist ég.
Eftir þetta gekk allt eins og í sögu. Við átum og drukkum og þessir hundrað metrar sem við áttum eftir upp á tindinn voru auðveldir. Árni frá Stóru-Mörk sagði okkur að af Guðnasteini færum við yfir á tindinn austan við. Sá væri stundum kallaður Hámundur, en það nafn tæki hann sér aldrei í munn. Þannig að eiginlega héti hann ekki neitt. Að minnsta kosti ekki Hámundur. Þá var hann búinn að taka sér það heiti tvisvar í munn.
Þetta voru stórkostlegir tindar. Jökullinn er eiginlega einn risastór gígur. Útsýnið yfir hann var frábært. Á Guðnasteini voru sérkennilegir ískristallar, allt annars konar snjór en annars staðar á jöklinum. Nafnlausi tindurinn er 1.666 metrar yfir sjávarmál, heldur hærri en Guðnasteinn. Neðst lá skýjahula yfir öllu.
Ferðin niður gekk vel. Enginn krampi, engin háfjallaveiki (svo var mér sagt að það hefði staðið í honum harðfiskur) og enginn datt í sprunguna sem varð á vegi okkar. Við jökulsporðinn tók þokan aftur við aftur. Þegar maður leit um öxl sá maður hvílíka óraleið við höfðum gengið.
Halldór Laxness gekk einhvern tíma á Eyjafjallajökul. Einhver sagði mér að niðurlagið á Heimsljósi sé byggt á þeirri göngu (hans stafsetning):
„Það var kyrt veður með túngli í hásuðri og kaldri bláleitri birtu. Hann stefndi beint til fjals. Neðra voru lángir brattar, efra tóku við atlíðandi mosaflesjur, síðan urðir, loks óslitin fönn. Mynd túnglsins dofnaði þegar birti. Yfir hafinu var svartur veðramökkur í aðsigi. Hann heldur áfram inná jökulinn, á vit aftureldíngarinnar, búngu af búngu, í djúpum nýföllnum snjó, án þess að gefa þeim óveðrum gaum, sem kunna að elta hann. Barn hafði hann staðið í fjörunni við Ljósuvík og horft á landölduna sogast að og frá, en nú stefndi hann burt frá sjónum. Hugsaðu um mig þegar þú ert í miklu sólskini. Bráðum skín sól upprisudagsins yfir hinar björtu leiðir þar sem hún bíður skálds síns.
Og fegurðin mun ríkja ein.“