Gloríur blaðamanna (BJ)

Blaðamenn eru í miklu stuði þessa dagana. Þegar Birgir Leifur Hafþórsson kylfingur átti eftir síðasta daginn á golfmóti sagði fréttamaður Stöðvar 2: „Nú vonum við að Birgir Leifur geri gloríur í dag.“ Honum varð að ósk sinni og Birgir Leifur átti tvo „skolla“ í lokin og endaði í verri stöðu en hann byrjaði.

Í Fréttablaðinu er sagt frá því að Sarkozy hafi fengið 57% atkvæða og hafi unnið með 6% mun. Fékk Royal þá 51%?

Sérfræðingur Samfylkingarinnar í kosningum, Eiríkur Bergmann telur að merkustu tíðindin af forsetakosningunum nú séu góð þátttaka? Maður sér fyrir sér fólk vera að ræða um kosningarnar eftir aldarfjórðung: „Það var einmitt árið 2007 sem kosningaþátttakan var svo góð, en ég man ekki hver var kosinn forseti.“

Á sunnudaginn þegar vika er til kosninga er fimm dálka fyrirsögn á forsíðu Morgunblaðsins: „Plötusala hefur aukist verulega á Íslandi“. Um fátt var rætt meira en þetta á heimilum landsins um helgina. „Veruleg aukning á plötusölu“ er tvímælalaust stærsta fréttin síðan myndirnar af hæstaréttardómurunum birtust.

Þeirri skoðun hefur áður verið lýst á þessum slóðum að Gestur Jónsson hafi náð að auka virðingu sína á Baugsmálinu, einn manna. Um daginn veltu samt margir því fyrir sér hvað hann væri að fara þegar hann tók það sérstaklega fram að Jón Ásgeir hefði margt manna í vinnu í Bretlandi. Hvað kom það þessu máli við? Skiptir nokkuð annað máli en sekt eða sakleysi, ekki hvað menn gera eða hve margir vinna hjá þeim.

Ég sá í návígi fyrstu viðbrögð þriggja einstaklinga við Baugsdómnum í síðustu viku. Hægt var að lesa stjórnmálaskoðanir þeirra út úr svipnum á þeim þegar þeir sáu niðurstöðuna. Það er dapurlegt því að pólitík á ekki að skipta neinu máli í réttarkerfinu.

Þjóðin beið spennt eftir því hvernig blöðin myndu segja frá Baugsdómnum. Og þau brugðust ekki. Mogginn sagði frá því að menn hefðu verið sakfelldir en Fréttablaðið frá því að dómnum yrði áfrýjað. Fréttamennska alveg óháð tengingu blaðanna við fréttina.

Kannski kemur það ekki mest á óvart hvernig sagt er frá því sem fjölmiðlar setja fram heldur að í þessum fréttaannál síðustu daga er engin frétt um kosningarnar sem verða á Íslandi eftir fimm daga. Blaðamenn hafa meiri áhuga á því að gera gloríur en að fjalla um það sem mestu máli skiptir.

Verst að þeir vita ekki hvað það þýðir.


PS mbl.is lætur ekki sitt eftir liggja. Í grein um hljómsveitina Dimmu Borgir 7.5. segir: ,,Bassaleikarinn Vortex er spurður að því hvort sveitinni langi til að spila á einhverjum stað sem hún hafi ekki komið til. „Já, á Íslandi,“ svarar hann.“

Ósköp er fallegt að gefa upprennandi blaðamönnum líka tækifæri á gloríum. Sérstaklega með því að leyfa þeim að skrifa það efni sem mest er lesið.

Svo ætlar listahátíð að láta ,,risessu“ ganga um borgina og takast á við risa. Í gamla daga hétu þær skessur.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.