Græningi á taugum (BJ)

Nú halda eflaust einhverjir að ég ætli að taka þá fyrir Ögmund eða Steingrím Joð eftir að þeir fóru að dala aftur í könnunum. Það er hins vegar ekki umræðuefnið í dag heldur það að á laugardaginn var gekk ég undir próf í fyrsta sinn í mörg ár. Ég fór sem sé í tónlistarskóla haustið 2005. Það hafði ég ætlað mér lengi, en af ýmsum ástæðum ekkert orðið úr.

Þegar ég var strákur fór ég í tíma til Aage Lorange píanóleikara. Ég byrjaði ekki fyrr en fjórtán ára gamall. Ekki vegna þess að mig skorti áhuga heldur af því að Tómas bróðir minn hafði verið settur í tíma hjá einhverri konu sem ég kann ekki að nefna en hvorki hún né heimilisfólkið beðið þess bætur síðan. Amma fór víst alltaf upp á loft þegar Tómas byrjaði að æfa sig, en það gerði hann ekki mjög oft. Eftir árið hætti hann og hafði til þess fullan stuðning fjölskyldunnar. Eftir þetta fannst mömmu ekki rétt að leggja hlekki tónlistarnámsins á næsta son sinn eða fjölskylduna.

Ég fór að læra hjá Aage og það voru skemmtilegir tímar. Hann var kominn yfir sextugt þegar þetta var en í fullu fjöri. Í gamla daga var hann einn aðalhljómsveitargaurinn í bænum. Reyndar alls ekki gaur, því að hann var manna kurteisastur og mjög músíkalskur tónlistarmaður sem gat spilað allt mögulegt. Ætli ég hafi ekki tekið ein þrjú ár hjá Aage en ég lærði með hléum fram að tvítugu. Svo spilaði ég ekki í tuttugu ár. Þá bauðst mamma til að gefa mér píanóið sitt og eftir langa umhugsun þáði ég boðið, reyndar svo langa að mamma var búin að gleyma því í millitíðinni að hún hefði ætlað að gefa mér það og hugsaði sig lengi um áður en hún lét það af hendi, en gerði það að lokum.

Píanóið hefur fylgt mér síðan í líklega ein tólf ár. Ekki er hægt að segja að það hafi verið sérstakur gleðigjafi á heimilinu því að mér hafði ekki beinlínis farið fram í þessi tuttugu ár sem ég spilaði ekki neitt. En ég hafði gaman af því að reyna við einföld lög og svo fór ég að reyna að raða saman nótum með einum putta. Þá var ég fljótur að fara fram úr tónfræðikunnáttu minni.

Fyrir tveimur árum sá ég að ég varð að læra eitthvað um hljómasetningu. Einhver sagði mér að Ástvaldur Traustason píanóleikari kenndi fólki að spila eftir eyranu. Mig minnir reyndar að fyrir mörgum árum hafi ég reynt að skrá mig á námskeið hjá honum en ekki tekist. Ekki vegna þess að hann hafi tekið mig í inntökupróf heldur var námskeiðið einfaldlega fullskipað (eða svo var mér sagt).

Skemmst er frá því að segja að í skólanum Tónheimum var ákkurat kennt það sem ég vildi, það er undirstöðuatriði í hljómafræði. Í fyrsta tímanum var farið yfir tónverkið Góða mamma sem ég komst sæmilega í gegnum. Eftir tíu vikur (eða hvað önnin er nú löng) var ég búinn að læra hátt í tíu hljóma og vissi út á hvað námið gekk.

Núna í vetur hef ég verið í tímum hjá Ástvaldi skólastjóra. Hann er flottur kennari, hvetur menn áfram og segir vel til. Mér skilst að hann sé búddisti (ég er ekki viss um að mér hefði litist á skólann ef ég hefði vitað það fyrirfram) en líklega verður það til þess að hann skiptir aldrei skapi, sem hlýtur að vera mikilvægt hjá píanókennara fyrir byrjendur. Svo er hann í flottum hljómsveitum til að mynda Milljónamæringunum og Tangósveit lýðveldisins.

Við vorum fjórir karlar í mínum bekk. Hver um sig situr við rafmagnspíanó með heyrnartól þannig að hinir heyra ekkert. Ég veit ekkert hvað hinir geta en geri ráð fyrir því að þeir séu mjög seigir. Kannski halda þeir líka að ég geti eitthvað. Fyrsti píanókennarinn sem ég hafði í Tónheimum gekk á milli og stakk heyrnartólum í samband til þess að heyra í okkur en Ástvaldur horfir bara á nóturnar sem maður slær á og kinnkar kolli. Þegar maður er algjörlega úti að aka segir hann eitthvað á þessa leið: „Það mætti kannski reyna þetta, en mér dettur í hug að betra væri að taka F-sjöund.“

Fyrir jólin sagði hann okkur að hann væri kominn með námsskrá fyrir skólann. Þeir sem vildu gætu farið í græna prófið í vor. Einhverjum okkar leist strax vel á þetta og svo spönuðum við hver annan upp þannig að á endanum ákváðu allir að fara í prófið. Við vorum einu nemendurnir yfir tólf ára sem þreyttum prófið.

Við þetta snarbreyttist andinn í bekknum. Í stað þess að menn kæmu léttir og kátir til leiks stigu allir einbeittir inn í stofuna, gengu beint að píanóinu, settu á sig heyrnartólin og byrjuðu að æfa. Ef hópurinn á undan sat of lengi ýttum við þeim einfaldlega út af bekknum og hófum leikinn.

Við áttum að kunna eina tuttugu eða þrjátíu skala og þegar þeir voru ekki komnir á Netið strax kvörtuðum við sáran. Áhyggjuefnið var samt ekki skalarnir heldur sex lög sem við áttum að geta leikið fumlaust í prófinu. Mér fannst eðlilegt að velja ólík lög. Fyrst valdi ég Blús í G eftir Magnús Eiríksson. Það hélt ég að ég kynni. Svo datt mér í hug I got Rythm. Ég hafði bætti smá kafla í það, en það var einmitt skylda samkvæmt námsskránni. Ég kunni grunninn í A Day in a Life með Bítlunum og þurfti bara að bæta við intróinu, millikaflanum með sinfóníunni og niðurlaginu þar sem hljómsveitin tryllist. Fats Waller hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér og Ain’t Misbehavin’ var óneitanlega freistandi þó að ég kynni það ekki beint. Svo var Wonderful Tonight með Clapton skemmtilegt. Loks ætlaði ég að spila Söng Solveigar eftir Grieg. Það er fallegt lag, sem ég kunni reyndar ekki.

Eitthvað ræddi ég valið við kennarann en honum fannst vanta vals og stakk upp á Lítill fugl eftir Sigfús Halldórsson. Sigfús kenndi mér í gamla daga og var góður vinur minn. Þess vegna skipti ég Söng Solveigar út fyrir Fúsa með glöðu geði.

Próf hafa ekki tekið mjög á taugarnar hjá mér í gegnum tíðina. Enda er langt síðan ég fann bestu aðferðina við prófskrekk. Kunna allt efnið og þá er allt í lagi. Svo ég settist við að spila þessi sex lög. Skalarnir vöfðust meira fyrir mér en ég hélt, sérstaklega hljómhvörfin, sem ég hafði aldrei heyrt getið áður. Fyrir þremur vikum fannst mér ég samt kunna lögin þokkalega.

Þá fór ég að laga það sem mér fannst að. Hljómagangurinn í valsinum var leiðinlegur og ég flækti hann aðeins og lærði forspil. Svo datt mér í hug einfaldari leið til þess að spila hljómsúpuna í Ain’t Misbehavin’. Ástvaldur benti mér á að ég væri með of langar þagnir í blúsnum og það kallaði á æfingar. Skiptingar yfir í millikaflana hjá Lennon voru of hægar og klaufalegar.

Viku fyrir prófið sýndist mér þetta vita vonlaust mál. Það eina sem ég var nokkurn veginn sjúr á var C-dúr skalinn. Kennarinn sagði okkur sögu af nemanda sem stamaði og þegar hann kom í prófið kom hann ekki upp einu orði. Svo gat hann heldur ekki spilað eina einustu nótu.

Ætli ég verði svona? hugsaði ég. En ég stama að minnsta kosti ekki.

Laugardagurinn var einhver lengsti dagur sem ég man eftir. Ég byrjaði að spila eldsnemma um morguninn og fór tíu sinnum í gegnum prógrammið. Svo spilaði ég það tuttugu sinnum enn. Um miðjan daginn þurfti ég að fara út en kom svo heim klukkan fjögur og spilaði allt einu sinni enn. Mig verkjaði í axlirnar og lagðist útaf í kortér. Svo fór ég að lesa.

Loksins sló klukkan fimm og ég fór út í bíl. Ákvað að taka með mér allar nóturnar þó að ég ætti að kunna þetta utanbókar. Allur er varinn góður.

Ég hélt ég væri tímanlega í því en líklega hefur sá sem átti að vera á undan mér ekki mætt því að Ástvaldur var að borða epli frammi á gangi og ég fékk það strax á tilfinninguna að ég væri allt of seinn. Líklega hafa hann og prófdómarinn séð að ástandið var ekki sem best á mér því að þau töluðu afar vingjarnlega við mig og buðu mér að setjast við píanóið og byrja.

Ég veit ekki hvort ég sagði nokkuð. Kannski hef ég stamað.

Fyrst átti ég að leika G-dúr skala minnir mig. Ég gerði villu í fyrstu tilraun. Ég reyndi að ræskja mig mjög hátt og umlaði eitthvað. Svo gat ég spilað skalann klakklaust. Og nokkra enn. Þau buðu mér að spila skalana bara með annarri hendi en ég hafði æft þá með báðum og var viss um að ruglast ef ég notaði ekki tvær hendur. Ég endaði á gagnvirkum skala. Þá datt mér í hug að vera fyndinn og spyrja hvort ég mætti spila hann með annarri. Þetta er torskilinn brandari fyrir þá sem eru ekki vel að sér í skölum, en til skýringar get ég þess að gagnvirkir skalar byggja á því að spilað sé með báðum höndum samtímis.

Svo hugsaði ég að kannski fyndist prófdómaranum ekki neitt gaman að bröndurum af þessu tagi og sagði ekkert.

Í heilræðum til nemenda á Netinu segir: „Hafðu ekki áhyggjur þótt þú þurfir að byrja verk eða tónstiga oftar en einu sinni, þú fellur ekki bara vegna þess.“

Af hverju stóð „ekki bara“?

Þá var komið að lögunum. Ég mundi ekkert hvaða lög ég ætlaði að taka en byrjaði á Lennon. Eitthvað ruglaðist ég en lagið kláraðist eftir fimm mínútur eða svo. Það var með vilja að ég tók svona langt lag fyrst. hélt að þá þyrfti ég ekki að spila jafnmörg.

Þetta slapp. Nú reyndi heldur betur á prófdómarann að róa mig og hún spurði hvort ég hefði farið á Lennon tónleikana með sinfóníunni. Nei það sagði ég að mér hefði fundist alveg sérlega lúðalegir tónleikar sem mér hefði ekki komið til hugar að fara á. Líklega var það ekki skynsamlegt því að hún sagðist hafa haft sérstaklega gaman að þessum hljómleikum.

I got Rythm var næst. Það bar ekki nafn með rentu í flutningi mínum. Litli fingurinn á vinstri hendi hreinlega skalf meðan ég spilaði. Þessu hef ég aldrei lent í áður.

Ain’t Misbehavin’ var ekki mjög glæsilegt heldur. Um morguninn hafði ég bætt við það endaspili, en þegar ég þurfti að spila síðasta taktinn þrisvar til þess að ná honum ákvað ég að sleppa tilraunastarfsemi.

Ég fékk að velja lokalagið og tók Magga Eiríks. Þá dró ég fyrst fram nóturnar en leit svo ekkert á þær og ruglaðist eins og vera ber. Lokahljómnum náði ég þó í þessu lagi og endaði því ekki alveg á botninum.

Prófinu var lokið og ég var alveg búinn líka. En prófdómarinn brosti sínu blíðasta og sagði að þetta hefðu verið sérlega ánægjulegir tónleikar, falleg lög, (sem er reyndar rétt) og ég væri kominn af græna stiginu yfir á það gula.

Mér datt í hug að hún hefði verið með heyrnartæki allan tímann að hlusta á eitthvað allt annað prógramm. Kannski mætti hún með ipodinn sinn. Hef ekki áhyggjur af því.

Nú hef  ég skírteini upp á að vera ekki lengur græningi.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.