Ég sé að Geir Haarde er vinsælastur af leiðtogum flokkanna. Það kemur ekki á óvart. Geir er mjög viðkunnanlegur maður og farsæll stjórnmálamaður. Satt að segja sé ég ekki annað forsætisráðherraefni. Sama könnun sýndi að Ingibjörg Sólrún hefur neikvæð viðhorf flestra. Það kemur líka lítið á óvart eftir hrakfarir Samfylkingarinnar í skoðanakönnunum að undanförnu. Eftir að Ingibjörg sveik loforð sitt um að sitja sem borgarstjóri út kjörtímabilið missti hún trúverðugleika. Margir aðrir hefðu getað kraflað sig út úr slíkum vandræðum, stjórnmálamenn segja svo margt, en Ingibjörgu hefur ekki tekist það. Sannast sagna hefur hún varla borið sitt barr síðan þá. Þó vann hún Össur svila sinn í formannskosningum með 2/3 hlutum atkvæða. Þá var Samfylkingin talsvert yfir kjörfylgi í skoðanakönnunum. Í prófkjörinu nú í haust fékk Ingibjörg um 2/3 hluta atkvæða. Það er frekar lítið af formanni að vera, sérstaklega þegar ekki er mótframboð. Nú er Samfylkingin í könnunum með um 2/3 hluta af því fylgi sem hún fékk í kosningunum 2003.
Samfylkingin er svolítið skrítinn flokkur. Síðast bætti hún við sig fjórum þingmönnum og aðeins munaði tveimur þingmönnum á henni og Sjálfstæðisflokki. Samt sem áður leit almenningur svo á að hún hefði tapað. Ingibjörg forsætisráðherraefni komst ekki á þing og flokknum varð ekkert úr sigrinum. Stærsti sigur flokksins er að forsetinn beitti neitunarvaldi í fjölmiðlamálinu og tryggði þannig að auðhringar geta stjórnað íslenskum fjölmiðlum. Eftir það völdu tæplega sex af tíu Íslendingum að kjósa hann ekki, skila auðu eða sitja heima, þrátt fyrir að mótframbjóðendur væru lítt þekktir eða ekki til forystu fallnir. Einörð andstaða Ingibjargar vakti ekki síst athygli vegna þess að hún hafði í frægri Borgarnesræðu gerst sérstakur verndari Jóns Ásgeirs og Jóns Ólafssonar. Það kom á óvart því að oftast standa stjórnmálamenn til hlés í umræðum um mál sem eru til rannsóknar hjá yfirvöldum og bíða niðurstöðu.
Umræður um fjárhagsleg tengsl fyrirtækja og stjórnmálaflokka snerust lengst af einkum um Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk. Sá fyrrnefndi var af andstæðingum sagður á framfæri heildsala og hinn hjá Sambandinu. Alþýðuflokkur fékk stuðning frá krataflokkum á Norðurlöndum og sósíalistar fengu Rússagull. Úr þessu öllu raknaði síðar þegar styrktaraðilar hurfu hver á fætur öðrum. Það var þó ekki fyrr en í vor að settar voru skorður við því hve mikið mætti gefa til flokkanna og að gjafir lögaðila yrðu opinberar. Vonandi dregur við þetta úr fjárhagslegum stuðningi fyrirtækjasamstæða við einstaka flokka þannig að ekki þurfi að koma til tortryggni um stuðningur í einstökum málum hafi verið keyptur. Að vísu munu óprúttnir aðilar í Verkamannaflokknum breska (systurflokki Samfylkingarinnar) hafa fundið leiðir til þess að fara á svig við lögin. Hætt er við að svipað verði upp á teningnum hér.
Fréttablaðið slær því upp á forsíðu að stjórnarflokkarnir hafi svikið mörg kosningaloforð. Þessi frétt vekur auðvitað athygli, ekki síst vegna þess að ritstjóri Fréttablaðsins er fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins og maður með meiri reynslu af trúnaðarstörfum fyrir flokkinn en flestir núlifandi menn. Með þetta í huga er sérstakt hvernig fréttin er unnin. Fréttamenn fara í ályktanir landsfunda flokkanna. Allir sem til þekkja vita að í ályktununum kemur fram stefna flokkanna almennt þau mál sem menn vildu koma í gegn ef þeir réðu einir. Því fer þó fjarri að öll þessi mál séu sett á oddinn í kosningunum.
Hefði blaðið viljað sjá hvaða loforð hefðu verið svikin hefði verið eðlilegast að skoða stjórnarsáttmálann. Í honum koma fram þau mál sem flokkarnir ná saman um. Þá hefði meðal annars komið í leitirnar auðlindaákvæðið umdeilda, en það hefði ekki hentað jafnvel, því að þá hefði orðið að rifja upp að Samfylkingin gekk á bak orða sinna að greiða slíku ákvæði leið í gegnum þingið. Kannski hefði það þá líka þurft að koma fram að ritstjóri blaðsins situr í stjórnarskrárnefndinni sem ekki gat komið sér saman um slíkt ákvæði. Skýringin á þessum fréttaflutningi hlýtur að liggja í því að ritstjórinn sé í páskaleyfi og hafi því ekki getað leiðrétt þennan misskilning blaðamannanna.
Sólskinsdagar með Nonna
Í síðasta pistli sagði ég frá því að ég hefði eignast nokkrar Nonnabækur á Akureyri. Nú er ég búinn að lesa allar þær sem ég á, fimm að tölu. Af því má ráða að mér hafi ekki leiðst lesturinn því að líklega eru þetta rúmlega þúsund blaðsíður. Að vísu með stóru letri og oft góðu línubili.
Freysteinn Gunnarsson skólastjóri þýddi allar bækurnar. Sums staðar hefði hann mátt vanda sig meira. Á einum stað stendur: „Sást þú það ekki lýka Nonni?“ Svo grunar mig að hann hafi ekki alltaf verið sem nákvæmastur í þýðingum. Að minnsta kosti er það svo að í bókinni Á Skipalóni er kafli sem heitir Fyrstu vinirnir mínir dönsku. Í bókinni Nonni segir frá er kaflinn Þar sem allar dyr eru ólæstar. Svo langt hefur liðið á milli þess sem Freysteinn þýddi þessar bækur að hann hefur verið búinn að gleyma fyrri þýðingunni og þýðir upp á nýtt. Reyndar gæti líka verið að Nonni hafi breytt kaflanum í millitíðinni. Tökum dæmi:
Nonni segir frá:
„Einn daginn var ég sérstaklega heppinn.
Ég hafði verið að leika mér í fjörunni rétt framan við húsið okkar. Ég horfði á stórar öldurnar, sem streymdu hægt að ströndu í sífellu og lognuðust þar út af jafnharðan, og ég virti fyrir mér sjófuglana, sem léku listir sínar bæði fljúgandi og syndandi.“Á Skipalóni:
„Einu sinni var ég sérstaklega heppinn.
Þá var sólskin og sumarveður, og ég var niðri í fjöru að horfa á öldurnar, sem veltust í sífellu upp að ströndinni, en hjöðnuðu þar jafnóðum. Ég horfði líka á fuglana, sem voru á sífelldri ferð og flugi, ýmist uppi í loftinu eða þá á sundi á sjónum.“
Húsið og leikurinn eru ekki í Skipalónsútgáfunni, en í staðinn er komið sólskin og sumarveður. Að öðru leyti er þetta svipað. Það var verra þegar fólk gleymdist, en ekkert sem maður tók þegar maður las jafnhratt og ég gerði..
Síðast las ég bókina Sólskinsdaga. Nonni kallaði hana þetta „af því að hún hefur inni að halda frásagnir og atburði, sem gerðust á sólheiðum æskudögum mínum“. Og hvaða sögur skyldu það vera?
Fyrst greinir frá Júlla vinnumanni og vini Nonna sem varð úti í stórhríð. Næst er sagt frá Þorleifi sem varð sturlaður og skar sig á háls og vitraðist þannig Kjartani litla syni sínum. Þá víkur sögunni að litla lambinu sem hrafninn hjó augun úr. Í næsta kafla kom Þórdís völva í heimsókn. Maðurinn hennar var fjarskalega vondur við hana. Þegar hann drukknaði í Eyjafjarðará dauðadrukkinn birtist hann Þórdísi holdvotur um nóttina, en hún kallaði upp yfir sig: „Farðu frá mér, bölvaður!“ Í sögunni þar á eftir lenti Nonni í blindhríð á leiðinni í afmæli hjá vini sínum. Hann datt í gjótu með hestinum sínum og hundinum og var næstum orðinn úti. Bókin endar á því þegar félagarnir fóru saman út á Eyjafjörðinn í niðamyrkri, Nonni rakst á akkeri sem hafði verið híft upp, rotaðist og féll í sjóinn. Við lá að hann drukknaði.
Sólskinsdagar er svo sannarlega réttnefni á þessari bók.