Í baði (BJ)

Á laugardaginn fór ég í bað. Sumum fyndist slíkt eflaust ekki í frásögur færandi en hjá mér var þetta meiriháttar upplifun. Enda var ég ekki einn í baðinu. Réttara væri reyndar að segja að ég hefði farið í böð því að ég fór í böðin í Laugum. Líklega er maður ótrúlega hallærislegur að vera svona seinn til að fara, en betra er seint en aldrei.

Ég skráði mig í Laugar fyrir hálfum mánuði. Eftir að hafa gefið upp kennitölu og látið skanna á mér hægra augað spurði ég eins og flón hvort ég fengi aðgangskort í pósti. Þeim fannst ég greinilega svolítið kjánalegur en svöruðu mér að það væri nóg að koma með hægra augað.

Svo leið og beið og ekki fór ég í ræktina. Á því má finna margar skýringar. Þeir sem vita hvar ég bý vita að um langan veg er að fara. En á laugardaginn var mætti ég sem sé á staðinn klukkan rúmlega fimm. Ég var með hópi fólks sem allt þurfti að kaupa sig inn en ég gekk keikur beint að hliðinu og starði með hægra auganu í linsu við aðgangshliðið. Ekkert gerðist en ensk rödd úr linsunni sagði mér að færa mig aftar. Það var auðsótt mál, en þá brá svo við að hún bað mig að koma nær.

Eftir nokkrar tilfæringar fram og tilbaka endaði ég loks í réttri fjarlægð en ekki gladdi það vélina því að hún þekkti alls ekki augað og bað mig að tala við afgreiðsluna. Ég sætti mig ekki við þetta og ákvað að prófa vinstra augað en eftir hæfilegar tilfæringar fór allt á sömu lund. Ég prófaði meira að segja hitt hliðið sem talaði íslensku, en konan í þeirri vél kannaðist heldur ekkert við mig. Það var ekkert annað að gera en fara að afgreiðsluborðinu. Allt samferðafólkið var löngu komið inn.

Afgreiðslustúlkurnar voru liðlegri en stúlkurnar bakvið linsurnar og eftir að hafa farið í gegnum tölvuna með kennitöluna mína sögðu þær mér að óhætt væri að prófa aftur.

Linsan gaf sömu svör og áður: Aðgangur bannaður. Þá kallaði önnur stúlkan á eftir mér að ég skyldi halda hendinni yfir vinstra auganu. Ég hugsaði með mér: Heldur hún að ég sé svona rangeygur, bölvuð, en gerði nú samt eins og mér var sagt og viti menn, þá loks opnaðist hliðið.

Eflaust þarf ég ekki að lýsa því fyrir lesendum að við tók hver linsan á fætur annarri. Maður kemst ekki í gegnum neinar dyr nema með því að stara í myndavélaop. Til þess að lenda ekki sömu hremmingum og áður hélt ég mig alltaf rétt á eftir einhverjum öðrum og laumaði mér inn um leið og þeir.

Ef ske kynni að einhver lesandi hefði ekki farið í böðin í Laugum vil ég koma einum mjög mikilvægum upplýsingum að: Ekki mæta með handklæði. Maður fær handklæði á staðnum. Þeir sem koma með handklæði hafa greinilega aldrei komið áður og sýna hvað þeir eru miklir lúðar. Ég kom með handklæði með mér og sá að menn voru strax farnir að gefa mér auga í búningsklefanum.

Reyndar fær maður slopp líka, en ég á ekki von á að neinn taki slopp með sér. Ég kom að minnsta kosti ekki með slopp.

Segir nú ekki af mér fyrr en ég er á leið í átt að böðunum í sloppnum. (Tek það fram að ég fór í sturtu, ef baðvörðurinn skyldi lesa pistilinn. Það finnst mér reyndar ólíklegt því að hann var með austrænt yfirbragð). Eftir enn einn augnlesturinn komumst við inn.

Þessi böð eru engu lík. Þarna eru gufuböð með alls kyns yfirbragði – og alls kyns lykt reyndar. Í einu er piparmynta, í öðru blómailmur, fura, vanilla og bláber. Sumir sátu í fótabaði en mest fjörið virtist í freyðandi nuddpotti. Það var ágætt að sitja þar, en vissara er að fara úr sloppnum áður. Mér fannst ég finna saltbragð í munninum og velti því fyrir mér hvort það væri eftir rokið kvöldið áður. Vildi ekki hafa orð á þessu við neinn því að annars var ég hræddur um að baðvörðurinn kæmi og héldi að ég hefði ekki verið nægilega lengi í sturtunni.

Næst var að fara í tunnu sem er full af vatni. Ekki sá ég mikið fútt í því en breytti snarlega um skoðun þegar ég stakk stóru tánni ofan í hana. Vatnið var ískalt. Þrautin er að fara allur ofan í, sérstaklega með höfuðið. Það var erfitt fyrst en verra í annað sinn því að þá vissi maður hve erfitt það var í fyrstu lotu. Svo fann ég það út að vatnið í tunnunni er salt. Nú veit ég hvernig saltsíld í tunnu líður.

Eftir að hafa þrætt öll gufuböðin fórum við í slökunarherbergið þar sem eldur logar í miðju og tónlist eftir Friðrik yfirslakara kemur úr hátölurum. Þarna á maður að slappa alveg af en það truflaði mig að með tónlistinni var eitthvert brak sem fór mjög í taugarnar á mér. Svo var líka fólk að hvíslast á, en þarna má ekki tala upphátt. Það var því mikill léttir þegar einhver kom inn og spurði mjög hátt hvort einhver hefði tekið sloppinn hans með kreditkorti. Ég sagði ekkert en laumaðist út, frelsinu feginn. Svo lítið bar á kannaði ég hvort ég væri í svona góðum sloppi sem kæmi með korti. Það var nefnilega bar hinum megin í böðunum og þar væri gott að vera með greiðslukort.

Þeir voru með ágætis rauðvín.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.