Hvers vegna nýtur Alþingi ekki lengur almenns trausts og virðingar samkvæmt könnunum á skoðunum almennings? Sagt er að fjarlægðin geri fjöllin blá og mennina mikla og í endurminningunni finnst mér eins og virðulegri menn hafi setið á þingi í gamla daga. En skyldi það vera rétt?
Svo einkennilegt sem það kann að virðast fer virðing Alþingis oft eftir þeim sem minnstrar virðingar nýtur. Nú er návígi almennings við þingið svo mikið að allur almenningur getur fylgst með þingstörfum frá degi til dags. Meira en það. Útsendingar frá þinginu eru beinar í sjónvarpi þannig að menn geta bæði heyrt hverja stunu og hósta og sjá jafnframt hverja grettu þingmanna í ræðustól. Ég er ekki viss um að þingmenn geri sér góða grein fyrir þessu.
Í janúar hitti ég einn af foringjum stjórnarandstöðunnar í samkvæmi. Hann bar sig býsna vel og taldi hag sinn góðan enda stæði hann í málþófi þá dagana gegn Ríkisútvarpinu ohf. Ég sagðist halda að það væri ekki skynsamlegt hjá honum því að mér heyrðist þetta fara illa í fólk. Það hafði hann ekki heyrt frá neinum persónulega. Að vísu hefði einhver félaga hans varað við því að almenningur væri orðinn þreyttur á málþófinu, en ekki hafði viðmælandi minn trú á því.
Ég fylgdist með umræðum um málið og var aldrei neinu nær um hvers vegna stjórnarandstaðan lagðist svo þvert gegn því. Kannski héldu foringjar hennar að þjóðin vildi ekki að útvarpi allra landsmanna yrði breytt á nokkurn hátt. Gagnrýni hennar gekk út á að Ríkisútvarpið yrði veikt mikið yrði frumvarpið að lögum. Keppinautur RÚV taldi hins vegar að útvarpið yrði allt of sterkt ef frumvarpið yrði að lögum.
Tveimur dögum eftir að ég hitti áðurnefndan mann birtist fyrsta skoðanakönnunin sem sýndi að Samfylkingin væri komin í kringum 20% fylgi og jafnframt að hún væri jafnstór eða jafnvel minni en VG. Málþófið hætti strax.
Ekki þarf að horfa lengi á umræður frá Alþingi til þess að sjá að þingmenn virðast ekki bera mikla virðingu fyrir því um hvað er verið að fjalla. Liðurinn fundarstjórn forseta virðist oftar en ekki nýttur til þess að ræða mál efnislega. Margar ræður eru greinilega illa undirbúnar, þingmenn tafsa og tuldra, endurtaka sig og þá rekur í vörðurnar. Sumir koma aftur og aftur upp til þess að segja það sama. Nokkrir eru beinlínis dónalegir og orðljótir.
Menn hafa áður verið orðljótir á Alþingi. Bjarni Guðnason talaði um Hannibal og Björn Jónsson sem „rumpulýð“ í þingræðu árið 1974. Ekki hlaut hann neina virðingu af því og flokkur sem hann hafði nýlega stofnað fjaraði út af fylgisskorti. Sumir sögðu að þingmanninum hefði dvalist lengur en góðu hófi gegndi á Hótel Borg fyrir fundinn. Það er ólíklegt því að þingfundurinn var haldinn klukkan tvö eftir hádegi minnir mig. Ræðan varð ekki til þess að auka orðstír Alþingis.
Baugsmálið er í fréttum á hverju degi. Aðaldómarinn í málinu virðist óspar á athugasemdir, jafnvel gamanmál. Hvorugt hefur aukið virðingu fyrir dómnum. Gamanmál eru ágæt þar sem þau eiga við, en mér finnst að dómari eigi að vera virðulegur og gæta þess að segja ekkert í réttarsalnum sem gefur upp hvaða skoðun hann hefur á málinu. Miðað við frásagnir fjölmiðla virðist lítill vafi á því hverjar lyktir málsins verða og langdregin réttarhöld hálfgerður farsi. Ekki er við dómarann einan að sakast, en hann eykur ekki traust á dómskerfinu með léttúðugu fasi.
Í gamla daga kenndi ég bæði við Verslunarskólann og Háskóla Íslands. Ekki hafði ég kennt lengi þegar ég komst að því að ekki væri vel við hæfi að ég klæddi mig að hætti nemenda. Gallabuxurnar viku og síða hárið fljótlega. Það kom mér kannski mest á óvart var að nemendur tóku mark á öllu því sem ég sagði. Kaldhæðni var tekin sem mikil speki mælt af vörum kennarans. Smám saman hvarf hún líka.
Á þeim tíma voru kennarar oft beðnir um frí. Heilu bekkirnir vildu fá frí í síðasta tíma vegna þess að kennarinn í næsta tíma á undan var veikur. Fljótlega ákvað ég að gefa aldrei frí af þessum ástæðum. Kennararnir voru auðvitað fyrst og fremst að gefa sjálfum sér frí. Ekki leið á löngu áður en nemendur hættu að biðja mig um frí. Nemendur vissu að í mínum tímum var kennt.
Eflaust hef ég verið jafnlatur og hinir kennararnir en mér fannst það ekki við hæfi að ég mætti ekki til kennslu í tíma sem ég fékk greitt fyrir. Ég hugsaði svolítið um virðingu skólans. Eða kannski var ég bara svona sérvitur.
Alþingismenn ættu líka að hugsa um virðingu þingsins. Formenn flokka ættu að hugsa um það hvernig hægt er að breyta þinginu þannig að þar fari fram málefnalegar og uppbyggilegar umræður en ekki þvarg og þóf.
Ég er ekki viss um að menn hafi lært mikið af RÚV-málinu. Stjórnarskrármálið er dæmi um hvernig enginn virðist meina það sem hann segir. Það sem í gær var svart er hvítt í dag. Enginn fór af þeim vettvangi virtari en hann kom.