Stundum lendir maður í honum kröppum. Á fimmtudaginn var hringdi í mig maður og bað mig að tala á Oddfellow fundi kvöldið eftir. Ekki veit ég mikið um Oddfellow en gerði ráð fyrir að þetta væri svipað og Rótarý og Lions, en þar koma menn og halda erindi á fundum um ýmisleg málefni. Á síðasta fundi í mínum klúbbi var erindi um skipulagsmál í Reykjavík.
Ég spurði reyndar um hvað ég ætti að tala en það mátti ég velja sjálfur. Viðmælandinn sagðist hafa heyrt í mér á Útvarpi Sögu um daginn og það hefði verið ljómandi skemmtilegt. Þar var ég í viðtali um málefni aldraðra og lífeyrismál, og þó að það myndi veitast mér létt var ég ekki alveg viss um að menn hefðu mestan áhuga á því á föstudagskvöldi. Eftir vandlega yfirlegu taldi ég að heppilegt gæti verið að lesa upp úr bókum sem ég hef gefið út. Mér hafði skilist að ég ætti að halda klukkutíma erindi að loknu borðhaldi. Klukkutími er svolítið langt, en í bókunum sem annars vegar er bók með stærðfræðiþrautum sem ég gaf út fyrir 17 árum og hins vegar ævisaga pabba sem kom út núna um jólin er býsna mikið efni.
Segir nú ekki af mér frekar fyrr en ég er kominn inn í anddyri Oddfellow hússins með bækurnar undir hendinni klukkan fimm mínútur yfir átta eða fimm mínútum of seint. Þar í anddyrinu voru nokkrir menn og ég þóttist sjá að þeir væru að reykja eftir matinn. Eftir nokkurt þóf tókst mér að koma þeim í skilning um að ég ætti að halda erindi á fundi í húsinu þetta kvöld og hvort maturinn væri ekki örugglega búinn.
Nei, maturinn var ekki byrjaður. Þeir voru rétt búnir með fordrykkinn. Þá sá ég að Oddfellowar eru frjálslyndari en Rótarýmenn í áfengismálum, en hjá okkur er ekki neytt áfengis á fundum. Ekki af því að viljann skorti held ég, en barinn er bara ekki opinn í hádeginu.
Loks fann ég forráðamann klúbbsins og sá sagði mér að ég hefði misskilið þetta alveg. Nú ætluðu menn að borða og svo myndi ég segja nokkur orð eftir að búið væri að bjóða mönnum kokkteila eftir matinn.
Ég er frekar lengi að fatta en þó var smám saman að renna upp fyrir mér að upplestur úr bókum væri ekki rétta efnið fyrir þennan hóp. Því flýtti ég að segja að ég væri búinn að borða og best væri að ég færi heim og kæmi aftur eftir matinn. Þessu var vel tekið.
Fór ég nú heim og lagði bækurnar til hliðar, fann auða pappírsörk og skrifaði niður nokkur stikkorð. Ég man að einhvern tíma var mér sagt að mikilvægast væri að vita hvernig maður ætti að byrja og enda ræðu. Svo kemur hitt að sjálfu sér.
Upphafið gekk út á að það væri mikill heiður að fá að tala á þessum hátíðarfundi.
Þegar ég kom aftur í sal Oddfellowa klukkutíma síðar voru þeir greinilega orðnir mjög glaðir almennt. Kynnir kvöldsins sem var sá sami og ég hafði áður hitt var að ljúka við snæðinginn og ég settist við hans borð og hóf samræður við sessunautinn sem ég þekkti ekkert. Hann var tregur til þess að segja mér frá dagskránni. Hann var nefnilega gestur. Þó vissi hann að kvöldið endaði á málverkauppboði.
En átti hann von á spurningum og umræðum að loknu mínu erindi? Það vissi hann ekki, hann var gestur og þetta var í fyrsta sinn að hann hafði komið á kútmagakvöld í stúkunni. (Þetta var þó alls ekki venjuleg stúka eins og menn eflaust geta sér til). Runnu nú á mig tvær grímur. Af hverju í ósköpunum var ekki hægt að segja mér það strax að ég væri fenginn til þess að halda ræðu á fylleríshátíð ársins?
Þó léttist á mér brúnin þegar veislustjóri tilkynnt að þegar menn hefðu lokið mátíðinni myndi aldursforseti klúbbsins segja nokkur alvarleg orð. Svo yrði ræðan og skemmtikrafturinn. Ég hugsaði með mér að fyrst ég lenti á milli einhvers karlfúsks og skemmtikraftsins þyrfti ég bara að halda sjó í nokkrar mínútur.
Aldursforsetinn brást mér algjörlega. Hann reytti af sér brandarana og tárin láku úr augum veislugesta. Mér tókst þó að spyrja veislustjórann milli þess sem hlátursrokurnar gengu upp úr honum hver skemmtikrafturinn yrði. Hann horfði á mig rannsakandi augum eins og til þess að athuga hvort ekki væri allt í lagi með mig og sagði: „Ræðan þín er skemmtiatriðið.“
Jamm.
Ég reyndi að rifja upp einhverja brandara í snarhasti en gat engan veginn einbeitt mér fyrir þeim gamla sem hins vegar hafði gamanmál á færibandi. En þó leið það leiftursnöggt hjá.
Veislustjórinn fór upp í pontu og sagði að maður hefði gengið undir manns hönd að finna góðan ræðumann. Í þetta sinn hefði valið tekist sérlega vel en því miður hefði það farið svo að ræðumaðurinn hefði í gær þurft að tilkynna forföll með dags fyrirvara. Þá hefði verið leitað að öðrum góðum mönnum en það hefði verið sama hvern þeir hefðu spurt, allir skemmtilegustu mennirnir hefðu sagst vera vitni í Baugsmálinu og mættu ekki tjá sig opinberlega. Loks hefði þeim tekist að finna mann sem hafði ekkert fyrir stafni á föstudagskvöldi og hann væri hér kominn.
Ég rölti upp að ræðustólnum.
Þá var byrjunin ónýt. Mér datt ekki einu sinni í hug að segja þeim að þeir hefðu verið heppnir að ekkert af 278 vitnum hefði komist því að þau myndu lítið sem ekkert.
Næstu þrjú kortérin eru mér í hulu. Ég held að ég hafi farið með nokkur stærðfræðidæmi en er þó ekki viss. Ég man næst eftir mér þegar maður leiddi mig niður úr stólnum og sagði hughreystandi: „Þetta var intellektúal ræða.“ Meðan ég hugsaði hvað það þýddi bætti hann við: „Undanfarin fimmtán ár hafa ræðumenn alltaf farið með þulu af klámbröndurum.“
PS. Sá eftirfarandi klausur um helgina:
EF þú átt eftir að veikjast talaðu við okkur …
Í sunnudagsblöðunum er auglýsing frá Íslenskri erfðagreiningu. Kári ætlar að finna út erfðagalla þeirra sem veikjast af þessari hvimleiðu pest og auglýsti: „Ef þú hefur fengið eða átt eftir að fá inflúensu, hafðu þá samband við X lækni sem hefur umsjón með rannsókninni.“
Og dýrum???
Endirinn á klámbylgjunni birtist í dálkum Salvarar á Netinu. Hún skýrir muninn á klámi og erótík:
„Erótík er hins vegar kynferðislega örvandi efni sem er laust við kynjamismunun, kynþáttarfordóma og fordóma gegn samkynhneigðum og sýnir virðingu fyrir öllum manneskjum og dýrum sem þar birtast.“