Um jólin lést í Bagdad Saddam Hussein Abd al-Majid al-Tikriti. Saddam var fæddur 28. apríl 1937 og var því tæplega sjötugur þegar hann lést. Á viðburðaríkri ævi voru honum falin ýmis trúnaðarstörf, meðal annars var hann forseti, forsætisráðherra og varaforseti Íraks.
Saddam var af ætt hirðingja af ættkvísl al-Begat.
Faðir: ‘Abd al-Majid hirðingi, hvarf sex mánuðum áður en Saddam fæddist (það hefur ekki sannast að Saddam tengist hvarfinu).
Móðir: Subha Tulfah al-Mussallat (nefnd Subba af nánustu fjöskyldu). Saddam merkir Sá sem er á móti.
K1 1963: Sajida Talfah dóttir Khairallah Talfah, læriföður Saddams. Bróðir hennar Adnan Khairallah Tuffah hershöfðingi var æskuvinur Saddams og síðar myrtur af honum vegna mikilla vinsælda sinna. Börn þeirra:
1) Uday, ritstjóri, valinn blaðamaður aldarinnar af Írakska blaðamannafélaginu. Talinn g. dóttur Izzat Ibrahim ad-Douri (f. 1942). Þau voru barnlaus. Þeim feðgum sinnaðist eftir að Uday drap Kemal Hana Gegeo, einkaþjón og smakkara Saddams með kylfu og kjötskurðarhníf (rafdrifnum). Kemal hafði kynnt Saddam fyrir Samira Shahbandar (sjá K2)
2) Qusay, lífvörður, yfirmaður Varðmanna lýðveldisins. G. og varð fjögurra barna auðið. Meðal þeirra var Mustafa heitinn sem lést með föður sínum og föðurbróður 22. júlí árið 2003. Qusay er talinn heilinn á bak við eyðilegginu á ökrum uppreinarmanna, en með henni náðist að svelta andspyrnuhópa til dauða.
3) Raghad f. 1967, dóttir reyndi að drepa bróður sinn, g. Hussein heitnum Kamel (drepinn af tengdaföður sínum), þau eignuðust fimm börn.
4) Rana, dóttir, reyndi að drepa bróður sinn, g. Saddam heitnum Kamel al-Majid (bróðir Husseins, drepinn af tengdaföður sínum), þau eignuðust fjögur börn og
5) Hala f. 1979, g. Kamal Mustafa Abdallah Sultan al-Tikriti hershöfðingja. Þau eignuðust tvö börn.
K2 1986: Samira Shahbandar (þau Saddam giftust eftir að Saddam fékk fyrri eiginmann hennar til þess að skilja við hana). Barn þeirra: 1) Ali f. 1983.
K3: Nidal al-Hamdani (þau Saddam giftust eftir að Saddam fékk fyrri eiginmann hennar til þess að skilja við hana). Barnlaus.
K4: Wafa el-Mullah al-Howeish (óstaðfest hjónaband, barnlaus).
Dætur Saddams Ragahad og Rana (ekkjur eftir þá bræður Hussein og Saddam Kamel) búa nú í Amman í Jórdaníu og horfa á bak ástríkum föður með stórt hjarta eins og Raghad lýsti honum. Hún vildi færa föður sínum skilaboðin: Ég elska þig og sakna þín. Systir hennar Rana sagði: Hann var svo tilfinningaríkur og var svo blíður við okkur öll.
Saddam með ástríkri dóttur sinni, Rönu.