Ég er sókndjarfur og fórnfús skákmaður

Árið 2006 hafði Páll Skúlason lögfræðingur samband við mig og tók viðtal fyrir blað sitt Skjöld. Ekki veit ég hve margir áskrifendur voru að því blaði, en skemmst er frá því að segja að við þessu viðtali fékk ég engin viðbrögð, ekki heldur frá þeim sem sögðust lesa blaðið reglulega. Viðtalið kemur hér á eftir:

Segðu mér aðeins frá þínum uppruna.

Móðir mín hét Guðrún Benediktsdóttir og var fædd og uppalin við Skólavörðustíg í Reykjavík en ættuð frá Engey en margir kannast við Engeyjarætt. Faðir minn var Jóhannes Zoëga hitaveitustjóri. Hann var fæddur á Norðfirði og bjó þar til unglingsára en Tómas faðir hans var sparisjóðsstjóri þar. Þótt faðir minn væri fæddur á Norðfirði voru foreldrar hans bæði ættuð að sunnan, Steinunn amma mín úr Borgarfirðinum og afi frá Akranesi og Reykjavík. Hinn afi minn, Benedikt Sveinsson, var Þingeyingur, fæddur á Húsavík en átti ætti að rekja í Kelduhverfi og víðar. Hann var alþingismaður og skjalavörður og var á sínum tíma þjóðþekktur maður, einkum fyrir skörulega afstöðu sína í sjálfstæðismálinu. Guðrún amma mín fæddist í Engey og var þekkt fyrir forystu í Kvenréttindamálum. Sjálfur er ég fæddur árið 1955 og bjó til tvítugs í Laugarásnum og gekk í Langholtsskólann og síðar Vogaskóla. Nú er ég aftur kominn á fornar slóðir því að ég bý í Laugarnesinu.

Pabbi átti dálítið merkilegt lífshlaup. Hann ólst upp á Norðfirði og þar var mikill uppgangur og útgerð á þeim árum. Hann fór í Menntaskólann á Akureyri og tók þaðan gagnfræðapróf en fluttist svo til Reykjavíkur og tók þaðan stúdentspróf árið 1936. Hann vildi verða stúdent frá Reykjavík af því að hann ætlaði í stærðfræðilegt nám. Að loknu stúdentsprófi vildi hann fara til háskólanáms í Þýskalandi vegna þess að þar var talið að bestu menntun væri að fá í raunvísindum. En hann fékk ekki gjaldeyrisleyfi til fararinnar. Framsóknarmenn voru við stjórn og þeir neituðu honum um gjaldeyrisleyfi. Pabbi var eini stúdentinn sem ekki fékk gjaldeyrisleyfi til háskólanáms. Jónas Jónsson frá Hriflu, sem þá var mikill áhrifamaður, á að hafa sagt að það væri nóg að hafa einn Zoëga verkfræðing, en Geir Zoëga var þá vegamálastjóri og Jónasi fannst hann víst ekki alltaf nógu leiðitamur.

Nú, gjaldeyrisyfirfærslan fékkst loksins tæplega ári seinna og pabbi byrjaði sitt verkfræðinám í Þýskalandi vorið 1937 og var úti  til 1939 en þá skreppur hann heim að hálfnuðu námi. Þá skall stríðið á en  hann vildi fara út til þess að ljúka náminu svo hann fór út í október og komst til Þýskalands og lauk þar náminu vorið 1941. Þar voru nokkrir Íslendingar við nám, m.a. Gunnar Böðvarsson síðar prófessor og Stefán Bjarnason verkfræðingur. Tveir óperusöngvarar voru þarna um tíma, Sigurður Skagfield og Eggert Stefánsson.

Hvað viltu segja mér frá æskuárum þínum? Þú elst upp í Laugarásnum, sagðir þú mér.

Þetta var heldur frjálst líf. Ég var í Vatnaskógi á sumrin og eitt sumar var ég í sveit í Kílakoti í Kelduhverfi hjá Birni Þórarinssyni, bróður Sveins listmálara en þeir voru frændur afa eins og margir fleiri Keldhverfingar. Á sumrin var ég sendill, fyrst hjá Mogganum og síðar hjá verkfræðistofunni Fjarhitun. Ég bar líka út Moggann á Laugarásveginum.

Ég fór í MR að loknu landsprófi í Vogaskólanum og tók þar mikinn þátt í félagslífinu. Ég varð meðal annars kosinn í stjórn Framtíðarinnar tveimur mánuðum eftir að ég byrjaði í skólanum og sat í stjórninni í þrjú ár, síðast sem forseti. Framtíðin er málfundafélag og helsta félagið í MR, stofnað árið 1883. Það er með elstu félögum í landinu. Fjölmargir ættingjar mínir hafa setið í stjórn Framtíðarinnar meðal annars voru bæði Benedikt afi minn og Bjarni móðurbróðir minn forsetar og synir mínir tveir setið þar í stjórn. Á síðustu námsvetrunum fór ég að einbeita mér að stærðfræðinni. Mér fannst það eiginlega vera skylda mín að gera það úr því að ég átti gott með að læra hana.

Þegar ég kom út til Bandaríkjanna í háskólanám við University of Wisconsin, en þangað fór ég strax eftir stúdentspróf, fékk ég viðurkennt 1½ ár af menntaskólanáminu til háskólanáms. Ég lagði aðaláherslu á stærðfræðina en tók líka fleiri greinar. Til dæmis las ég rússnesku í tvö og hálft ár en ekki skilaði það þó miklum árangri því að ég hef ekkert haldið henni við síðan. Ég hef alltaf haft áhuga á slavneskri menningu og svo eru Rússar líka góðir stærðfræðingar. En ég þurfti líka að taka eitt námskeið í enskum stíl, sem gerði mér gott, og svo las ég þýskar bókmenntir, Kafka, Brecht og fleiri. Sá sem kenndi það hét Peter Kroner, þýskur maður sem hafði kynnst Brodda Jóhannessyni rektor Kennaraháskólans fyrir stríð í Þýskalandi.

Þetta var yfirleitt frjálst val hjá mér en ég varð að taka kúrsus í hagfræði þvert gegn vilja mínum en þegar ég fór að kynna mér hagfræðina fékk ég áhuga á henni og hef það enn í dag.

Ég var ekki einn, konan mín Vigdís Jónsdóttir var einnig við nám á sama stað. Okkur fannst kalt í Wisconsin á veturna og því varð það úr að við fórum til Flórída eftir BS námið. Ég lagði fyrir mig tölfræði og hagnýta stærðfræði við Florida State University (FSU) í Tallahassee. Þangað komum við á gamlársdag 1977 og leist strax vel á okkur. Vigdís, kona mín, fór í sagnfræði við FSU og lærði líka ýmislegt sem lýtur að stjórnun skjalasafna. Strax og við komum heim til Íslands árið 1982 varð hún  skjalavörður Alþingis og er núna forstöðumaður þingfundasviðs Alþingis.

Ég var aftur á móti í tölfræði og mitt sérsvið var aðgerðagreining. Það er svo að við einföldum hlutina svolítið, leitin að bestu lausnum á flóknum vandamálum. Þetta nám hefur nýst mér vel í störfum mínum og það hefur hvatt mann til þess að velta hlutunum fyrir sér frá óvenjulegu sjónarhorni.

Eftir fjögur ár í Flórída ákváðum við að fara aftur á kaldari slóði og fórum til Montreal í Kanada. Ég var við franskan háskóla, Université de Montréal, við rannsóknir og þar var gaman að vera. Við vorum komin með tvö börn og þurftum að venja okkur á að fara vel með peningana sem var manni hollt og gott. Það var framandi að vera í frönsku andrúmslofti en því fylgdi nokkurt ofstæki. Þarna var bókabúð sem hét Bibliofil eða bókavinur. Í glugganum var búið að setja lítinn bréfmiða sem á stóð „An English Bookstore“. Það var bannað að hafa skilti á öðrum málum en frönsku og einhver unglingur kærið búðina fyrir tungumálalögreglunni.

Nú ertu með þitt eigið fyrirtæki. Hvers vegna fórstu í útgáfu tímarita?

Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á útgáfu, fór fyrst að gefa út blað 10 ára gamall, Íþróttamanninn, sem fjallaði reyndar um flest annað en íþróttir. Svo sá ég um ýmis blöð í skóla og víðar þannig að ég hef lengi haft áhuga á þessu. Þegar við vorum komnir með Vísbendingu fór útgáfan smám saman að vindu upp á sig. Við keyptum útgáfu Frjálsrar verslunar sem er eitt elsta tímarit landsins árið 1995. Fyrir nokkrum árum keyptum við Iceland Review útgáfuna og ýmislegt fleira erum við að sýsla við.

Vinnan hjá mér skiptist í þrennt: Stjórnun þeirra fyrirtækja sem ég á sjálfur stærstan hlut í, í öðru lagi ráðgjöf á viðskiptasviðinu og loks ritstörf, því að ég skrifa talsvert sjálfur. Ég skrifa til dæmis á Netið og pistla mína má finna á vefsvæðinu www.bjz.is.

Árið 2000 var ég kosinn í stjórn Eimskipafélags Íslands og árið 2003 varð ég formaður stjórnar. Ekki varð það mjög lengi því að ótök urðu til þess að nýir eigendur tóku við stjórninni sama haust. Eimskipafélagið á sér merka sögu og er fyrsta og lengst af raunverulega eina almenningshlutafélagið. Ég held að það sé mjög æskilegt að almenningur eigi hlut í atvinnurekstri. Þegar ég var í stjórn Eimskips voru hluthafar um 20 þúsund. Nú er það dótturfélag Avion.

Ég hef áhuga á skák og tefldi mikið sem unglingur. Enn í dag mæti ég á skákmót sem áhorfandi og tók reyndar þátt í minningarmóti um Harald heitinn Blöndal, frænda minn, nú í vor. Ég er sókndjarfur og fórnfús skákmaður, þ.e. fús að fórna mönnum. Ég tek oft áhættu í skákinni, stundum of mikla. Í daglegu lífi held ég að ég sé varfærnari.

Mér finnst gaman að ganga á fjöll og nú í vor gekk ég á Hvannadalshnjúk. Það var erfitt og menn þurfa að vera í góðu formi til þess að leggja í hann. En maður verður að hafa kjark til þess að leggja í stærstu tindana.

Þú hefur átt þátt í að skipuleggja stærðfræðikeppni hér á landi. Hvað getur þú sagt mér af því?

Þegar ég var formaður Félags raungreinakennara í framhaldsskólum árið 1983-5 komum við á keppni hér á landi meðal nemenda í framhaldsskólum bæði í eðlisfræði og stærðfræði. Þá hófum við líka þátttöku í svonefndum ólympíukeppnum í þessum greinum. Það er keppni þar sem keppa bestu stærðfræðingar í hverju landi, yngri en tvítugir. Ég hef verið viðloðandi við þetta síðan. Svo hef ég líka tekið mikinn þátt í skipulagningu á svonefndri Eystrasaltskeppni, en í henni taka þátt Norðurlönd og lönd við Eystrasaltið. Upprunalega var hún aðeins í Eistlandi, Lettlandi og Litháen en eftir að þjóðirnar náðu sjálfstæði var fleiri þjóðum bætt við. Loks má geta þess að ég var upphafsmaður að Norðurlandakeppni í stærðfræði. Allt er þetta keppni menntaskólanema. Ég hef líka þátt í útgáfustarfsemi þessu tengdri, bæði hér heima og í Lettlandi. Við höfum gefið út bækur með keppnum og kennslubækur í stærðfræðinni sem notuð er.

Mig langar að spyrja þig hvaða álit þú hefur á því að stærsti hluti fjölmiðla sé í eigu sama fyrirtækis? [Á þessum tíma átti fyrirtæki Jóns Ásgeirs Jóhannessonar marga fjölmiðla].

Það eitt og sér hefur ekki valdið mér teljandi áhyggjum. Auðvitað hefur það áhrif  á fjölmiðla hver á þá, eigandinn getur alltaf átt síðasta orðið, hvort sem hann kýs að eiga það eða ekki. Blaðamenn eru meðvitaðir um þetta, ekki bara hér á landi heldur alls staðar. Það er kjánalegt að láta eins og svo sé ekki. Það er ekki þar með sagt að eigendur ritskoði hverja einustu grein. Oft koma fram í fjölmiðlum sjónarmið sem eru ekki að skapi eigenda, en það heldur enginn áfram til lengdar að gefa eitthvað út sem hann er ekki sáttur við. Lesendur hafa náttúrlega líka mikið að segja eins og við sáum þegar DV varð að leggja upp laupana eftir langan taprekstur. Útgáfunni var þó ekki hætt fyrr en blaðið og ritstjórar þess gengu fram af almenningi. Ég veit ekki hvort það var ákvörðun eigenda að gefa út subbublað. En þeir hafa að minnsta kosti ákveðið að hætta útgáfunni. [DV hætti útgáfu um sinn og kom svo út aftur].

Mér finnst það miklu verra hve rekstrarumhverfi fjölmiðla er óheilbrigt. Á undanförnum árum hafa tvö dagblöð farið á hausinn (og fleiri reyndar ef litið er til lengri tíma) og Fróði varð gjaldþrota fyrir tveimur árum. Það er enn víða taprekstur á þessu sviði. Það er mjög vont þegar útgáfu er haldið úti árum saman ef hún er stöðugt með tapi. Þá sýkir hún allan markaðinn. Stundum er tapið fært til innan fyrirtækjasamsteypu eins og þegar Sambandsfyrirtækin voru skylduð til þess að auglýsa í Tímanum og ekki annars staðar.


Myndin er tekin vorið 2014 á skákmóti rótarýklúbba á Íslandi. Ég hef aldrei náð í svona sterkan hóp skákmanna, hvorki fyrr né síðar.

Á myndinni eru handhafar 20 Íslandsmeistaratitla, fjórir stórmeistarar, tveir keppendur úr áskorendakeppni (átta bestu skákmenn heims), einn fyrrverandi forseti Alþjóða skáksambandsins, forseti Skáksambands Íslands frá einvígi aldarinnar og ég.

[Jón L. Árnason, Guðmundur G. Þórarinsson, Helgi Ólafsson, ég, Jóhann Hjartarson og Friðrik Ólafsson]. Myndina tók Gunnar Björnsson.

Ég kom meira að segja heim með verðlaunapening (2. verðlaun í sveitakeppni)!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.