Ég var í Danmörku um helgina. Það er alltaf huggulegt. Ekki nokkur maður atyrti okkur á götu þó að við leyndum því ekki að við værum Íslendingar. Mér sýndist þeir bara vera að gera það gott. Í fyrra flutti óperan úr Konunglega leikhúsinu í glæsilegt hús gegnt höllinni Amalíuborg. Við það varð svo rúmt um leikhússtarfsemina að þeim reyndist nauðsynlegt að byggja nýtt leikhús út af Nýhöfn hinum megin við sundið frá óperunni. Svo finnst þeim við vitlaus!
Þetta var róleg ferð og ekki hlaðin dagskrá. Það var ágætt. Á laugardeginum fórum við í ferð sem ég hafði ekki lagt í áður, í hús Karenar Blixen í Rungsted, skammt suður af Helsingjaeyri. Karen Blixen er núna frægust sem fyrirmynd Meryll Streep í myndinni Out of Africa. Mér fannst alltaf Bandaríkjamenn fara skelfilega frjálslega með þegar þeir kölluðu myndina Out of Africa, en hún hét Jörð í Afríku á íslensku. Ekki brá mér minna þegar ég sá að Danir voru búnir að kalla bókina Den Afrikanske Farm á dönsku. Var Jord i Afrika ekki fullboðleg fyrir þá? Óttaleg ameríkanisering og Hollívúddvæðing er þetta, hugsaði ég með mér.
En menntahrokinn og málsnobbið varð mér að falli í þetta sinn, því að það var engin önnur en Karen Blixen sjálf sem skrifaði bókina Out of Africa á ensku og var gefin út í Bandaríkjunum undir höfundarnafninu Isak Dinesen. Svo skrifaði hún bókina eins og fleiri bækur sínar upp á nýtt á dönsku. Og valdi henni þetta nafn sem mér þótti svo lítið til um.
En húsið hennar er sem sé út við sjóinn í Rungsted. Þegar við komum keyrandi að sáum við konu í garðinum og mér sýndist fyrst að þarna væri Karen sjálf, en svo sáum við að þessi var minnst tvöfalt þyngri, en það er ekkert afrek, Karen Blixen var komin undir 40 kíló þegar hún dó. Hún hafði eyðilagt í sér magann. Miðasölukonan sagði okkur að klukkan þrjú stundvíslega yrði heimili hennar (Karenar) lokað og við yrðum að passa okkur á því að þetta væri alveg á mínútunni. Af því að klukkuna vantaði tíu mínútur í þrjú fannst mér ekki til setunnar boðið, en þá var ég umsvifalaust stoppaður. Í raun var það svo að klukkan þrjú var húsið opnað fyrir gestum. Ég sór og sárt við lagði að hún hefði sagt „lukket“ en þá hafði hún víst sagt „lukket op“. Það er ekki von að Karenu hafi gengið vel að finna heiti á skáldsögurnar sínar þegar þetta fólk talar svona mál.
Safnið var ágætt, við sáum stólana hennar og borðin, meira að segja bókasafnið. Svo drukkum við teið hennar á kaffistofunni sem var víst ekki opin á hennar tíma. En þetta hét Karen Blixen te og nú veit ég á hverju hún eyðilagði magann í sér.
Að lokum ákváðum við að ganga að gröf Karenar heitinnar. Í fyrravor gekk ég marga kílómetra að gröfum Kennedy-bræðra í Washington og munaði ekki um að fara 300 metra að gröf Karenar Blixen. Eins og áður sagði skrifaði hún undir öðru nafni í Bandaríkjunum en Kennedy forseti lét hins vegar annan mann skrifa undir sínu nafni bókina Profiles in Courage. Og vann Pulitzer verðlaunin fyrir. Kennedy og Clinton eru mínir menn. Þetta var ég að hugsa þegar ég gekk að gröfinni þennan fyrsta apríldag ársins 2006.
Gröfin var sögð vera uppi á hæð bakvið hús skáldkonunnar, um 300 metra gang. Og viti menn. Uppi á hæðinni var einmitt bautasteinn og með því að þræða einstigi sem var heldur erfitt yfirferðar í rigningunni komumst við að honum. Okkur varð að orði að það mætti splæsa í steina í moldugan stíginn. En þegar upp á hæðina var komið (og þetta var nú ekki neinn Everest tindur, þó að ég sé lengi að koma þessu frá mér) sá maður greinilega mótað í steininn: Iohannes Ewald. Aprílgöbb gerast ekki miklu betri en að senda mann mörg hundruð metra að rangri gröf.
Gegnum rigninguna sást húsið í fjarlægð. Þokan var svo þétt að ekki sá út á sjó. Maður var hálfniðurlútur eftir þessa sneypuför. Það vildi okkur til happs því að þá sá ég legstein neðan við hæðina undir stóru tré. Þar var Karen Blixen grafin.
Er þetta safn þess virði að sjá það? Spenningurinn er minni en í Tívolí en gott ef þetta safn snertir mann ekki meira og endurminningin varir ekki lengur.
Tívolíið var líka lokað.