Íslendingar njóta enn þeirra forréttinda að fá hverja stórstjörnuna á fætur annarri til landsins. Og það er eitthvað fyrir alla. Í liðinni viku voru tvennir tónleikar með valinkunnum stjörnum: Joe Cocker (eða gamla brýnið, sem skv. blöðum viriðst vera samheiti um eldri rokkara) og Franz Ferdinand. Ég held að ég hafi verið eini Íslendingurinn sem fór á báða tónleikana.
Ég þjáist af heilkenni sem sem einkennir flesta á mínum aldri. Mér finnst ég vera miklu yngri en ég er. Þess vegna fannst mér fólkið sem sótti Joe Cocker tónleikana upp til hópa vera miklu eldra en ég, þó að það hefði ef til vill ekki allt verið staðfest með nafnskírteinum. Ég hætti að fara á 68-kynslóðar böllin vegna þess að mér fannst ég alls ekki eiga heima þar aldurs vegna (og var þó Ólafur Ragnar hættur að sækja þau þá). Ég fékk þá snilldarhugmynd að setja af stað 78 samtök, en komst svo að því að einhver hafði verið á undan mér með þá hugmynd og þar átti ég ekkert betur heima.
Þegar við komum í Höllina hímdu nokkrar hræður frammi á gangi og fengu sér reyk, en annars fóru flestir beint inn, einstaka með bjórglas, en ekki margir sýndist mér. Á þessum aldri eru flestir japlandi nikótíntyggjó og búnir að fara í tvær, þrjár meðferðir á Vogi. Upphitunarbandið, sem var einhver snotur stúlka, var að ljúka síðasta lagi. Klukkuna vantaði þrjár mínútur í hálf níu. Cocker átti að byrja klukkan hálf níu, en við bjuggumst við bið í að minnsta kosti hálftíma. Ég fór að litast í kringum mig og virtist það staðfestast sem mig grunaði. Þetta rúnum rista lið var allt miklu eldra en ég, hugsaði ég, en í því sá ég Kjartan hennar Maríu. Ég veit að hann er þremur dögum yngri en ég, þannig að ég var þá líklega næstyngstur. En í því slokknuðu ljósin og hljómsveitin steig á sviðið og byrjaði, tvær mínútur yfir hálf.
Gamla brýnið hafði engu gleymt, söng hvert lagið á fætru öðru með sinni íðilfögru rödd (hann hefði getað tekið undir með Leonard Cohen: „I was born with the gift of a golden voice“.) Ég þekkti flest öll lögin og var í feikna stuði. Þó hef ég vissar áhyggjur af því að einhver tvö lög þekkti ég ekki, en það voru einmitt lögin sem flestir fögnuðu ákaft. Líklega eru það lög sem hann hefur tekið eftir 1970, en þá hætti ég að fylgjast með honum. Joe var í megastuði og þegar best lét stökk hann upp í loftið í lok laganna, stundum hátt í tvo sentimetra, sýndist mér. Hann hafði líkla lært íslensku, sagði „takk“. Manni fannst tónleikarnir varla vera byrjaðir þegar hljómsveitin gekk út, rétt um tíu leytið. Tvisvar klappaður upp. Í seinna skiptið flutti hann „You are so beautiful“ fallegt 30 ára gamalt lag. Og hópur kvenna kveikti á kveikjurum í myrkrinu og það var ósköp hugljúft. Hinir sem voru mellow en hættir að reykja lyftu farsímunum sem lýstu líka dæmalaust fallega. Hver segir að gamalt fólk geti ekki nýtt sér tæknina?
Franz Ferdinand var allt annar kafli. Þar var ungviðið saman safnað. Þegar ég sagði frá því að ég ætlaði að fara að sjá Franz Ferdinand voru viðbrögðin flest á einn veg: „Bíddu nú við, hver er hann“? Ég tók eftir því nú í vor að eitthvert liðið í framhaldsskólakeppninni Gettu betur, hafði aldrei heyrt þessara kappa getið. Þó voru þeir valdir hljómsveit ársins í Bretlandi í fyrra, fjögur skosk ungmenni, frá Glasgow. Vegna þess að ég geri ráð fyrir að flestir lesendur þekki lítið til í nútímarokki, læt ég þess getið að hljómsveitin flytur gleðirokk, ef svo má segja, stuðrokk sem minnir á Kinks eða stundum David Bowie, svo einhverjir séu nefndir sem lesendur gætu kannast við. Langflestir á staðnum voru svo ungir að ég hefði getað verið faðir þeirra. Þannig var það þó bara í einu tilviki. Líkt og kvöldið áður var upphitunarband sem hætti að spila um hálfníu og við sáum síðasta lagið sem var ágætt. Eina góða lagið sagði einhver sem hafði hlustað frá átta. Jeff who? hét þetta band og kann ég ekki meira frá því að segja. En ekki veit ég fyrir hvað þeir áttu að hita upp, því að nú tók við mjög langur kafli með múskik af diskum, eithhvert leiðinda diskópopp, sem ég kunni ekki að meta. Afar hátt leikið og mér fannst ég skyndilega vera orðinn býsna gamall. Við vinirnir skárum okkur greinilega úr hópnum, en allt í einu hnippir Raggi í mig og segir: „Þessi gæti verið eldri en við“ og benti á einn sköllóttan. En ég er hræddur um að það hafi bara verið hárleysi sem hrjáði hann, ekki elli. Í einu horninu var seldur bjór sem tónleikagestir drukku ótæpilega. Mér sýndist gott eftirlit vera haft með því að menn sönnuðu aldur með skilríkjum þar til ég fór inn sjálfur og gat keypt tvo bjóra án þess að draga upp ökuskírteinið. Allt í kringum okkur reykti fólk inni í salnum. Væntingar voru miklar. Einn gesta sagði mér að þetta yrðu tónleikar aldarinnar.
Klukkan rétt fyrir hálftíu birtust goðin og byrjuðu að spila. Þeir höfðu lært meira í ástkæra, ylhýra málinu en Cocker, því að þeir gátu spurt „Eruð þið ekki í stuði“ og við vorum öll í miklu stuði. Franz Ferdinand hafa bara gefið út eina plötu og þeir sem þekkja þá á annað borð þekkja þá þessa einu, sem þeir spiluðu flest öll lögin af, við miklar undirtektir. Nokkur lög flutu með af þeirri sem kemur út í október og ég hugsa að hún verði ekki síðri. Franz Ferdinand flytur stutt lög með gleðisvip, ólíkt þungarokkurunum sem báru allar áhyggjur heimsins á herðunum. Þeirra prógram var líka stutt, rúmur klukkutími, en dynjandi stuð allan tímann. Þegar þeir uppgötva að róleg lög eru líka lög, þá verða þeir klassísk hljómsveit, spái ég. Þeir gátu hreyft sig heldur meira en gamli Joe, stukku upp á trommusettið með tilþrifum. Lokalagið var rokkari eins og öll hin: „This fire is out of control, I’m gonna burn this city“. Örugglega engum dottið í hug að tengja við Írak eða New Orleans. Dagar samviskupopparanna eru liðnir.
Því til sönnunar ætla ég ekki að sjá Patty Smith.