Færeyska efnahagsundrið (BJ)

Frjálslyndi flokkurinn er orðinn Framsóknarflokkur. Það var öllum augljóst sem fylgdust með flokksþinginu um helgina. Áherslurnar eru ekki alveg nákvæmlega þær sömu, en ríkisafskipti, sérhagsmunapólitík og innantómt orðagjálfur voru inntak þingsins. Aðdáunin á færeyska efnahagsundrinu leyndi sér ekki heldur. Átján til tuttugu jarðgöng á jafnmörgum árum. Á að hefja útflutning á jarðgöngum?

Guðjón A. Kristinsson er viðkunnanlegur náungi og hefði nýst ágætlega sem almennur þingmaður, ef Sjálfstæðismenn á Vestfjörðum hefðu ekki hafnað honum. En hann virðist enginn stjórnmálajöfur. Að setja fram jarðgangastefnuna sem eitt af sínum meginmálum er dapurleg örlög skynsömum manni. Færeyingar, sem áttu sinn fulltrúa sem heiðursgest á flokksþinginu, grófu alls staðar göng þar sem fjall var fyrir. Á einni eyjunni voru grafin göng til þess að hægt væri að smala kindum með auðveldum og öruggum hætti.

Mér finnst Vestfirðir fallegir og fer oft um þá. En verða þeir fallegri við að vera sundurskornir af göngum? Vissulega verða margar leiðir styttri og öruggari ef hægt er að fara undir fjallið en yfir það. En hversu brýnar eru aðgerðir af þessu tagi? Miklu nær hefði verið að Guðjón og félagar hans í Frjálslynda miðjuflokknum hefðu lagt niður fyrir sér þörf í vegamálum almennt og svo forgangsraðað. Hvað eru til miklir peningar og hvernig nýtast þeir sem best? Vegagerð er besta byggðastefnan og sú eina varanlega. En hún snýr ekki við þróun. Fólk vill vera þar sem fólk er fyrir. Þannig verður það hvort sem mér eða Guðjóni líkar betur eða verr.

Landsmenn eiga að vera jafnir fyrir fjárveitingavaldinu. Á Búnaðarþingi er deilt um einhvern sjóð sem lánar bændum á stöðum sem eru óhagkvæmir til landbúnaðar, ef marka má umræðuna um hann. Guðni Ágústsson á sér þann draum að þessi sjóður, sem nú er sameign þjóðarinnar, verði séreign bænda. Með öðrum orðum að 3.000 bændur fái þriggja milljarða gjöf frá þjóðinni. Ofan á allt annað. Það er milljón á bónda.

Frjálslyndir vilja leggja göng frá Þorskafirði í Vatnsfjörð. Það gæti kostað 20-30 milljarða. Tugir milljóna á hvern íbúa þessa svæðis. En á sama tíma má hvorki selja grunnnet Landssímans né Landsvirkjun. Það má sem sé ekki afla fjár heldur bara eyða því.

Ég er að velta því fyrir mér hvort Frjálslyndi flokkurinn hefði ekki verið betur settur sem eins máls flokkur. Og hvort sá þriðjungur flokksmanna sem vill sveigja til hægri á ekki heima annars staðar?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.