Móabindindið árið 1895 á Húsavík (BJ)

Hér birtist stutt dagbókarbrot frá afa mínum Benedikt Sveinssyni, alþingismanni og skjalaverði.  Benedikt var fæddur árið 1877 á Húsavík. Hann var þekktur að því að tala ákaflega fagurt og forneskjulegt mál. Hann hafði líka á sínum fullorðinsárum litlar mætur á bindindismönnum og Dönum. Sagðist hann aldrei hafa komist í hann jafn krappan og þegar hann lenti milli Danakonungs og andramms bindindismanns á Alþingishátíðinni 1930, en Benedikt var þá forseti neðri deildar Alþingis.

Dagbókin byrjar árið 1891 en árið 1895 koma eftirfarandi færslur (þær eru birtar hér nær stafrétt úr dagbók hans):

25.apríl 1895. Sumardagrinn fyrsti er í dag.

Bindindi stofnuðu fundafélagsmenn hér í víkinni í vetur, um það leyti sem „sjónleikir“ voru haldnir og öll ölföng voru á þrotum. – Gengu í það allflestir Húsvíkingar, enda var það mjög frjálslega stofnað. Voru felögin þrjú reyndar. Hét eitt „barna-bindindi“, í því voru börn og konur. Annar var algjört bindindi í ár, og mátti ekkert bragða. Voru örfáir í því. Þriðja félagið er langfjölmennast. Það er kallað „Bakkabindindi“ eða „móabindindi“ og á að standa 6 mánuði. Má ekki drekka vín í Víkinni sjálfri, en fram á sjó og í öllum ferðum má drekka; þegar upp við Boðsvatn, framan Þorvaldsstaðaá, og utan leiti. Fundir eiga að haldast einusinni í mánuði; sektir eru 25 aurar fyrir fyrsta brot, en tvöfaldast, allt að 4 krónum. Hver má veita vín sem vill. Drukknir meiga menn koma heim í víkina, ef þeir hafa drukkið annarsstaðar. Mun torvelt að semja lög öllu tilslakanlegri en þessi – en eftir er að vita hversu þau verða haldin.

Í árslok kom þessi færsla:

31. des. 1895

Svo fór um bindindi Húsvíkinga, „móabindindið“, að þegar er br.vín kom í land, þá tóku sumir að brjóta; átti að halda fund, en varð aldrei af, og eftir mánaðartíma voru allir búnir að brjóta og lognaðist þá féll. útaf, en engar sektir guldust. Var drukkið heldur í meira lagi í sumar. Heldur var þó drukkið með leynd allra fyrst, þá kvað Júlíus búfræðingur þetta:

„Allir menn eru menn,
því megnar enginn að neita;
þó eru allir menn ei
útvaldir bindindismenn.“

Hin félögin stóðu litlu betur og ultu útaf.“

Árið endar á alls óskyldri færslu:

„Myndasmiðsnefna var hér um tíma í júli, er Gústi hét Benediktsson, frá Vopnafirði. hafði mikla aðsókn og tók borgun fyrirfram, en sveik flesta um myndirnar, og þær sem komu voru flestar herfilegar.“

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.