Dagbókin byrjar árið 1891 en árið 1895 koma eftirfarandi færslur (þær eru birtar hér nær stafrétt úr dagbók hans):
25.apríl 1895. Sumardagrinn fyrsti er í dag.
Bindindi stofnuðu fundafélagsmenn hér í víkinni í vetur, um það leyti sem „sjónleikir“ voru haldnir og öll ölföng voru á þrotum. – Gengu í það allflestir Húsvíkingar, enda var það mjög frjálslega stofnað. Voru felögin þrjú reyndar. Hét eitt „barna-bindindi“, í því voru börn og konur. Annar var algjört bindindi í ár, og mátti ekkert bragða. Voru örfáir í því. Þriðja félagið er langfjölmennast. Það er kallað „Bakkabindindi“ eða „móabindindi“ og á að standa 6 mánuði. Má ekki drekka vín í Víkinni sjálfri, en fram á sjó og í öllum ferðum má drekka; þegar upp við Boðsvatn, framan Þorvaldsstaðaá, og utan leiti. Fundir eiga að haldast einusinni í mánuði; sektir eru 25 aurar fyrir fyrsta brot, en tvöfaldast, allt að 4 krónum. Hver má veita vín sem vill. Drukknir meiga menn koma heim í víkina, ef þeir hafa drukkið annarsstaðar. Mun torvelt að semja lög öllu tilslakanlegri en þessi – en eftir er að vita hversu þau verða haldin.
Í árslok kom þessi færsla:
31. des. 1895
Svo fór um bindindi Húsvíkinga, „móabindindið“, að þegar er br.vín kom í land, þá tóku sumir að brjóta; átti að halda fund, en varð aldrei af, og eftir mánaðartíma voru allir búnir að brjóta og lognaðist þá féll. útaf, en engar sektir guldust. Var drukkið heldur í meira lagi í sumar. Heldur var þó drukkið með leynd allra fyrst, þá kvað Júlíus búfræðingur þetta:
„Allir menn eru menn,
því megnar enginn að neita;
þó eru allir menn ei
útvaldir bindindismenn.“
Hin félögin stóðu litlu betur og ultu útaf.“
Árið endar á alls óskyldri færslu:
„Myndasmiðsnefna var hér um tíma í júli, er Gústi hét Benediktsson, frá Vopnafirði. hafði mikla aðsókn og tók borgun fyrirfram, en sveik flesta um myndirnar, og þær sem komu voru flestar herfilegar.“