Engum að treysta

Fyrir nokkrum dögum hitti ég gamlan kennara minn yfir kaffibolla. Það hefði í sjálfu sér ekki verið í frásögur færandi á þessum vettvangi ef hún hefði ekki sagt mér frá ráðleggingu sem prestur gaf henni þegar hún var ung stúlka á leiðinni út í lífið: „Mundu að það er engum að treysta.“ Þessi ráðlegging olli mér heilabrotum. Var ástandið virkilega þannig á millistríðsárunum að prestur gat ekki gefið betri ráð en þetta? Stundum finnst manni, þegar maður fylgist með átökum í viðskiptalífinu, að þessi orð eigi vel við núna, en eiga þau kannski við á öllum tímum? Jón biskup Arason orti fyrir 550 árum: „Vondslega hefir oss veröldin blekkt, vélað og tælt oss nógu frekt“ en líklega var honum vorkunn því að hans beið ekkert nema öxin og jörðin.

Heilræði

Þó að enginn skortur sé á heilræðum þá gildir oft um þau að auðveldara er að gefa en þiggja. Flestir virðast þurfa að reka sig á og reynsla er eitt af því sem illa færist yfir frá einum til annars. Samt vill margt fólk fá ráð, hvort sem það fer svo eftir þeim eða ekki. Sumir vilja bara fá þau ráð sem falla að þeirri ákvörðun sem þeir hafa þegar tekið. Einn þekktur stjórnmálamaður vildi fá sérfræðinga til þess að hjálpa sér að styðja lakan málstað og sagði: „Ég veit að þið eruð ósammála mér en gætuð þið ekki komið með einhver rök sem gagnast minni skoðun?“ Það hefur orðið mörgum að falli að þola ekki að neinn sé ósammála þeim. Slíkir menn hrekja smám saman alla frá sér sem ekki lofa þá og prísa og einangrast því frá umheiminum. Skotgrafahugsun (e: bunker mentality) verður ríkjandi.

Ég hef borið ráð prestsins undir ýmsa og ekki fengið almennar undirtektir. Vandinn við ráð er að sá sem nýtur þeirra á erfitt með að meta hvort þau eru góð eða slæm fyrr en löngu síðar. Samt er það svo að reynslan kennir mönnum að meta á hvaða ráð er rétt að hlusta, með öðrum orðum, hverjum má treysta.

Í 3. tbl. Frjálsrar verslunar 2005 er greinin Besta ráðið sem þú hefur fengið. Þar voru allmargir þekktir menn í viðskiptalífinu beðnir að miðla öðrum af því sem þeir sjálfir hefðu lært á unga aldri. Ráðin voru býsna mörg og ótrúlega fjölbreytileg. Alls birtust ráð 15 Íslendinga og átta útlendinga. Flestir höfðu einhvern formála að ráðinu og þau voru ekki öll í stuttri mergjaðri setningu. Það eitt að menn tiltóku fjölbreytileg ráð gefur til kynna að ekki sé til eitt ráð sem hentar öllum. Hér á eftir eru svörin greind.

Hvað muna menn best?

Minnið velur úr það sem hentar manni best. Það er mikilvægt að hafa það í huga að flestir telja þau ráð hafa dugað sér best sem þeir nýttu sjálfir. Ráðið er ekki bara lýsing á þeim sem gaf það á sínum tíma heldur ekki síður á þeim sem þáði. Útlendingarnir lögðu áherslu á tvennt öðru fremur: jákvæðni og sjálfstraust. Þetta er ríkur þáttur í eðli Bandaríkjamanna en flestir, ef ekki allir, útlendingarnir voru Ameríkanar. Þessir þættir voru fimm útlendu svarendunum af átta efstir í huga. Einn af hinum nefndi sanngirni í samningum. Hér á landi virðist þessi þáttur ekki hafa verið hátt metinn ef horft er á viðskiptalífið með augum leikmanns. Margir virðast hugsa að mikilvægt sé að enda hverja samningalotu með því að „taka snúning“ á mótherjanum, en það er viðskiptaslangur og merkir að snúa á menn, plata þá eða ná einhverju af þeim. Síðustu tvö ráðin eru kannski eftirminnilegust. „Rétt er rétt af því það er rétt en ekki vegna þess að einhverjir jábræður kinka kolli“ og „láttu ekki fortíðina halda aftur af þér“. Það eru einföld sannindi að það er miklu auðveldara að hafa áhrif á framtíðina en fortíðina en eins og svo mörg önnur sannindi vefjast þau fyrir mönnum.

Við viljum vera heiðarleg

Þriðjungur Íslendinganna nefndi heiðarleika sem mikilvægasta eiginleikann í viðskiptum. Þetta bendir til þess að menn telji sig heiðarlega, sem kemur ekki á óvart. Því er eðlilegt að spurt sé hvers vegna ímynd viðskiptalífsins út á við er öll önnur. Margir telja að í viðskiptalífinu ráði samviskulausir og eigingjarnir menn sem hiki ekki við að traðka á öðrum þegar það hentar. Kannski kemur þetta til af því að menn í viðskiptalífinu hugsa ekki nægilega vel um það sem tveir nefndu til sögunnar: Mannleg samskipti.

Þrír nefndu mikilvægi ákvarðanatöku en ráðin voru ekki samhljóma: Einn taldi mikilvægast að vera fljótur að ákveða sig. Nei væri betra en kannski. Hinir töldu aftur á móti rétt að hrapa ekki að ákvörðunum. Ekki er samt víst að ráðin séu eins andstæð og í fljótu bragði virðist. Smámál er gott að afgreiða fljótt og vel, en vanda ætti sig við stóru málin.

Einn vildi að menn væru varkárir í viðskiptum. Sú speki á ekki alltaf upp á pallborðið hjá þeim sem telja að það að hika sé það sama og að tapa. Annar nefndi að gott væri að treysta eigin innsæi. Sjálfstraust er mikilvægt, þó að það sé ekki eins ráðandi hér á landi og í Bandaríkjunum.

Besta ráðið

Besta ráðið finnst mér snúa að fyrirsögn þessarar greinar. Hörður Sigurgestsson, sem kannski hafði fjölbreytilegasta reynslu þeirra sem við var rætt í greininni, sagði: „[Veldu þér] viðskiptafélaga og samstarfsmenn þá sem þér líst svo á að þú getir starfað með til lengri tíma, gætir vænst þess að treysta ævinlega og þá líka þegar á móti blæs og áföll verða.“

Sem sagt: Lærðu hverjum þú getur treyst.


PS Þessi grein birtist í Vísbendingu 30. júní 2006. Það má segja frá því núna að kennarinn sem ég hitti var Jenna Jensdóttir (sem ég fjalla aðeins um hér), sem kenndi mér í Langholtsskólanum, en Ingi Bogi Bogason, bekkjarbróðir minn, stakk upp á því að við skryppum til hennar. Jenna vildi að við færum á kaffihús, sem og við gerðum. Hún var þá farin að nálgast nírætt. Presturinn sem hún talaði um var Árelíus Níelsson, sem var þekktur prestur á sinni tíð og þjónaði í Langholtskirkju.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.