Þessa dagana er ég að lesa bókina Koba the Dread eftir Martin Amis. Bókin fjallar um Stalín sem átti sér mörg gælunöfn. Koba var eitt þeirra. Stalín átti sér þá ósk heitasta að komast inn í huga allra Sovétmanna þannig að hann hugsaði fyrir þá. Hann væri snjallari en þeir og þess vegna væri þeim betur borgið þannig. Amis hefur skömm á Stalín og sýnir fram á að hann var mesti fantur sem uppi hefur verið, verri en Hitler að minnsta kosti, en samanburð vantar við Maó.
Hér á landi eru margir sem telja sig vita betur en aðrir. Þeir eru ekki allir illmenni eins og Stalín. Þvert á móti telja þeir sig flestir vera að gera gott. Manneldisstefna segir okkur að borða hollan mat. Ríkisstjórnin er svo sannfærð um þessa stefnu að hún vill hafa sælgæti dýrt þannig að fólk kaupi það síður. Fyrir mörgum árum sagði fjármálaráðherrann sem þá var að hækkun á brennivínsverði ætti að draga úr neyslu … og auðvitað bæta við tekjur ríkissjóðs. Svona er nú tvískinnungurinn. Lítið er um ritskoðun nú á dögum, en margir vita samt hvað við hefðum best af því að lesa. Kvikmyndaeftirlitið heyrir sögunni til, held ég, en áður fyrr höfðu nokkrar gamlar konur þann erfiða starfa að horfa á alls kyns óþverra, til þess að koma í veg fyrir að við þyrftum að gera það.
Ungir Sjálfstæðismenn hafa í mörg ár haft þá stefnu að ekki skuli birta álagningarskrár vegna þess að það valdi fólki óþægindum. Ekki þeim sjálfum heldur öðru fólki. Og þeir eru í fórnfúsri baráttu til þess að koma í veg fyrir að „óviðkomandi“ geti vitað hvað þetta fólk „úti í bæ“ er með í tekjur. Þetta fólk er alls ófært um að láta vita af því sjálft hvað það vill, en þá er gott að einhver hugsar fyrir það.
Björn Bjarnason ræðir birtingu upplýsinga á vefsvæði sínu. Vefur Björns er langbesti vefur stjórnmálamanns og hann segir skoðanir sínar á mörgum málum, en engin ástæða er til þess að vera sammála honum um allt. Hann sagði 2.8. 2006: „Eins og jafnan á þessum árstíma verða töluverðar umræður um tekjur og skatta einstaklinga. Umræður um að skattskrár skuli vera opnar öllum um ákveðinn tíma eru einnig orðnar árvissar. Þær sporna kannski gegn því, að farið verði inn á sömu braut og Norðmenn hafa farið, viti ég rétt, að upplýsingar af þessu tagi séu aðgengilegar öllum, alltaf á netinu – telja má næsta víst, að ritstjóri Frjálsrar verslunar yrði því ekki meðmæltur.“ Nú hef ég ekki rætt þetta við ritstjóra Frjálsrar verslunar, en ég furða mig á því að Björn þykist næsta viss um hvaða skoðun ritstjórinn hefur. Ég er alls ekki viss.
Stalín hugsaði fyrir marga. Honum tókst að láta bestu félaga sína játa „syndir“ sínar fyrir dómara, oftast eftir langa dvöl í pyntingarklefum. Sumir þeirra voru vissir um að ógnaröldinni myndi linna ef Stalín frétti af þessu. Svona geta menn verið firrtir. Bókin Dýrabær eða Félagi Napóleon er eina heimild margra um rússnesku byltinguna. Þeir sem ekkert annað vita halda að Lenín, gamla vitra svínið, hafi verið góður maður. Og þá ekki síður Trotskí, bjarta svínið Snækollur, eða hvað hann nú hét. Í reyndinni voru þeir báðir miklir fantar og bara skárri en Stalín að því leyti að þeir voru ekki jafnlengi við völd og gátu ekki gert jafnmikið af sér.