„Þú hefur logið að mér og þú hefur stolið frá mér og það get ég fyrirgefið. En að þegar þú ferð að hallmæla Stalín, þá get ég aldrei tekið þig í sátt.“ Ég var staddur á Norðfirði og vissi ekki almennilega hvaðan á mig stóð veðrið. Það var frændi minn sem talaði og þó að hann sé Norðfirðingur vissi ég ekki að sérstakri ást hans á Stalín. Ég var löngu búinn að gleyma því að tveimur dögum áður skrifaði ég pistil þar sem rætt var um þá kumpána Stalín og Hitler. En undanfarna viku hef ég ekkert verið að hugsa um þá leiðu dela. Við brugðum undir okkur betri fætinum og fórum austur á land. Það var snilldarbragð.
Hafi ég einhvern tíma efast um að Ísland er frábærlega fallegt land dreg ég það allt til baka. Undanfarin vika er stórkostleg upplifun. Við fórum í Loðmundarfjörð (ég reyndi að sannfæra Vigdísi um að þangað færi maður bara til þess að segjast hafa farið þangað). Við fórum fyrst á Borgarfjörð eystri og skoðuðum Álfastein, steinaverksmiðjuna frægu, Kjarvalssafnið og altaristöfluna sem hann málaði af frelsaranum á Dyrfjöllum, naívistamynd sem máluð var 1929 minnir mig. Eflaust er eitthvað að mér en þessi altaristafla gaf mér sömu tilfinningu og útitónleikar Sigurrósar (hvernig er hægt að semja svona fallega tónlist var spurt í Mogganum). Nýju fötin keisarans er ágæt saga.
Við ætluðum að skoða Hvítserk, fallegt líparítfjall á milli Borgarfjarðar og Húsavíkur. Við vorum nýbúin að fara að Hvítserk í Húnaflóa. (Austfirðingar eru kannski ekki frumlegustu nafnasmiðir landsins) Þegar við komum að fjallinu var það hulið þoku. Þá var svosem ekki annað að gera en að keyra áfram í Loðmundarfjörðinn þannig að Vigdís bættist í þann fámenna hóp sem þangað hefur komið. Eins og síðast þegar ég kom var hann hulinn þoku og ekkert að sjá. Við ókum inn að Klyppsstöðum í kirkjuna, sem státar af því að þar var pabbi (eða var það afi) Eysteins Jónssonar prestur. Ekki fannst mér það sérstaklega merkilegt, en það hefur ekki margt gerst í Loðmundarfirði. í firðinum var þegar hér var komið sögu líklega enginn nema við hjónin og svolítið af fuglum. Allt svart af krækiberjum og mikið af bláberjum og aðalbláberjum líka. Fjörðurinn varð strax búsældarlegri. Við ókum út í fjöru og horfðum yfir fjörðinn þar sem þokunni hafði létt að hluta og kyrrðin var einstök. Eftir tveggja tíma dvöl snerum við til baka og þegar við horfðum yfir fjörðinn og áfram í minni Seyðisfjarðar varð ég að viðurkenna að þetta væri bara fallegt.
Þokan var samt áfram í Húsavíkinni og Hvítserkur sást ekki nema óljóst. En viti menn! Eftir því sem við ókum nær fjallinu hörfaði þokan og loks hvarf hún alveg. Þó að degi væri farið að halla ákváðum við að freista þess að ganga á þetta óvenjulega fjall. Fjallabókin eftir Pétur og Ara segir að þetta sé mjög létt ganga, en þá höfum við ekki farið rétta leið. Okkur fannst þetta bratt og miklar skriður. Efst var svolítið glæfralegt að sjá. En útsýnið var stórkostlegt og óvíða til jafnfallegur fjallahringur og þarna. Þessi dagur var frábær. Samt var hann ekkert betri en hinir dagarnir fyrir austan.
Sýnishorn af dagskránni:
Heimsókn á Norðfjörð *****
Snæfell *****
Gunnarssafn á Skriðuklaustri ***
Hádegisverðarhlaðborð á Skriðuklaustri *****
Heimsókn í Kárahnjúka *****
Hafrahvammagljúfur *****
Laugavalladalur ***
Hótel Aldan Seyðisfirði, kvöldverður *****
Steinasafn Petru Stöðvarfirði ****
Hótel Svartiskógur, kvöldverður ***
Fransmannasafnið Fáskrúðsfirði lokað (Fermé aujourd’hui)
Hvað var frændi minn að hugsa með Stalín? Hann var að vitna í einhvern einfeldning sem hafði viðhaft þessi orð fyrir 50-60 árum eða svo. Svona töluðu menn í alvöru á Norðfirði á þessum tíma.
PS. Mér gafst ekki tími til þess að lesa blöðin nákvæmlega í fríinu. Þó var ég ánægður að sjá eftirfarandi leiðréttingu í Mogganum 10. ágúst. Hún birtist hér í heild sinni því að fleiri gætu hafa vaðið í villu og svíma um málið en ég.
„Göngustígur á Esju
Í grein um bættan göngustíg á Esjuna sem birtist í Morgunblaðinu sl. laugardag var ranglega sagt að Skógræktarfélag Íslands hefði annast framkvæmdir við stíginn. Hið rétta er að Skógræktarfélag Íslands hafði veg og vanda af framkvæmdunum. Beðist er velvirðingar á mistökunum.“
Feginn er ég að þetta er nú komið á hreint.