Enn á ný hefur skapast umræða um það hvort tekjur unnar upp úr skattskrám eigi að vera aðgengilegar almenningi. Frjáls verslun hefur eins og undanfarin ár gefið út blað með tekjum 2.400 einstaklinga. Blaðið gefur mynd af tekjum þeirra einstaklinga sem þar birtast. Það úrtak er ekki valið af handahófi en engu að síður er reynt að gefa allgóða mynd af tekjum manna úr allmörgum stéttum. Til er tekjuhátt fólk sem ekki er á listunum. Til dæmis er allmargt gamalt fólk sem fær mikinn lífeyri ekki á listunum. Listarnir eiga að gefa hugmyndir um laun vinnandi fólks, fólks sem er virkt í þjóðfélaginu, ekki þeirra sem hafa lokið farsælum vinnudegi.
Með því að listarnir birtist getur fólk séð hvaða laun er hægt að búast við að fá í ákveðnum störfum. Þó að þeir séu í sjálfu sér ekki annað en upplýsingar og í blaðinu er ekkert efni sem leggur út af þeim hefur það sýnt sig að þeir hafa haft áhrif á laun mjög margra. Þeir sem hafa beðið um að laun hætti að birtast í blaðinu eru fyrst og fremst atvinnurekendur sem kveinka sér undan því að launþegar mæti með það undir hendinni þegar þeir koma í launaviðtöl.
Það er ekki algengt að einstaklingar kvarti undan því að vera í blaðinu. Í stöku tilvikum kemur það þó fyrir. Langoftast er það vegna þess að menn hafa tímabundið lækkað í tekjum vegna veikinda eða námsleyfa. Einstaka maður er með mjög háar tekjur vegna starfslokasamninga og finnst eðlilegt að það sé skýrt sérstaklega. Einhver var að skilja og vildi fela tekjur sínar fyrir konunni sinni. En allt talið eru þetta ekki margir á hverju ári.
Hinir eru ekki færri sem hafa samband og benda á að þeir séu ekki í blaðinu. Á hverju ári er nokkrum einstaklingum bætt inn samkvæmt þeirra eigin ósk. Vart hefur liðið svo ár að menn hringi ekki og spyrji af hverju þá vanti. „Hvernig veljið þið fólk á þennan lista?“ spyrja þeir sem ekki eru þar en finnst þeir eiga þar fullt erindi.
Ungir sjálfstæðismenn hafa í flestum málum mjög heilbrigðar skoðanir. Þeir aðhyllast frelsi og gagnsæja markaði. Sumir hafa gengið svo langt í frelsisátt að þeir telja að lögleiða eigi eiturlyfjasölu vegna þess að þannig færist fjármagn sem ella lenti hjá glæpamönnum yfir í opið hagkerfi. Þó að ýmsir hafi haft horn í síðu þeirra vegna þessa er ekki hægt að segja annað en að þeir eru sjálfum sér samkvæmir.
Þessa dagana er ungt fólk að berjast gegn ýmsum málum sem misbjóða siðgæðisvitund þess. Á Austurlandi berst hópur manna fyrir að vernda náttúru landsins fyrir stóriðjuframkvæmdum. Í Reykjavík stóð hópur fólks fyrir fundi til þess að mótmæla hernaðarárásum á konur og börn. Hvaða skoðun sem menn hafa á þessum málum verður því ekki mótmælt að stór hluti þjóðarinnar mun hugsa: „Þetta er ungt fólk með hjartað á réttum stað. Ungt fólk hugsar með hjartanu, fullorðið fólk notar heilann.“
Í gamla daga höfðu ungir sjálfstæðismenn skömm á slíkum aðgerðum og fyrirlitu peysukomma sem mótmæltu löglegum aðgerðum stjórnvalda hérlendis eða vestanhafs. Auðvitað var stundum mikill hasar hjá þessu vinstraliði og líklega skemmtilegt, en íhaldsbörn voru vel upp alin og gerðu ekki slíkt.
Fyrir helgina gat hópur ungra sjálfstæðismanna ekki lengur haldið aftur af löngun sinni til þess að slást í hóp aðgerðasinna. Þeir stormuðu inn á Skattstofuna í Reykjavík, hrifsuðu upplýsingamöppu af gömlum manni sem þar var í fullum rétti og sátu svo snyrtilegir með möppur í faðminum þegar fjölmiðlamenn höfðu verið boðaðir á staðinn. Þetta hefur eflaust verið mjög skemmtilegt, en hefur enginn ungur sjálfstæðismaður lagt fyrir sig almannatengsl?
Ekki er skortur á baráttumálum þegar kemur að sköttum. Enn í dag eru skattar hér á landi allt of háir. Þeim mun lægri sem prósentan er því minni ástæða er til þess fyrir auðmenn að flýja í skattaskjól erlendis. Þeim mun fleiri auðmenn sem telja tekjur sínar fram hér á landi þeim mun meira er hægt að lækka skattana almennt. Annað skattamál: Þjóðfélagið yrði miklu sanngjarnara ef skattprósentan væri flöt, undanþágur hyrfu, einstaklingar og fyrirtæki greiddu sömu skattaprósentu. Verndartollar á landbúnaðarvörum sliga neytendur. Baráttumálin eru mörg og góð og skynsamir ungir menn eiga að beina kröftum sínum í réttan farveg.