Höfundur Njálu (BJ)

Ég hef sökkt mér ofan í íslensk fræði að undanförnu. Bæði með rannsóknum á vettvangi og bóklestri. Fyrst skoðaði ég aðstæður á Hjörleifshöfða og hef svo verið að lesa bækur Jóns Karls Helgasonar um Njálu. Í Landnámusegir að eftir að Ingólfur og hans menn komu að Hjörleifi vegnum við Hjörleifshöfða hafi þeir gengið upp á höfðann og séð þá reyk stíga upp af eyjum. Þangað fóru þeir og fundu Vestmennina (Írana) og drápu og bera eyjarnar nafn af þeim. Ég hafði lesið það einhvers staðar að þetta stæðist ekki því að ekki sæist til Eyja úr Hjörleifshöfða. Ég er svolítið líkur Tómasi postula að ég trúi ekki fyrr en ég tek á og af landabréfum var alls ekki ljóst hvort sjónlína er úr höfðanum til Eyja eða ekki. Við hjón gengum því á höfðann fyrir um hálfum mánuði í góðu skyggni.

Þó að menn ætli ekki að kanna gildi fornsagnanna er gönguferð á Hjörleifshöfða góð skemmtun. Gangan er létt og farið er eftir slóða framhjá heilmiklum mannvistarleifum, en búið var í höfðanum langt fram á 20. öldina. Efst á höfðanum er haugur Hjörleifs, en auk þess er þar heimagrafreitur með þremur legsteinum, allt fólk sem var jarðsett á fyrri helmingi 20. aldar. Fyrr í sumar gekk ég að meintum haug Ingólfs á Ingólfsfjalli. Hann er sagður heygður í Inghól, sem er þó greinilega jarðmyndun en ekki haugur, ólíkt Hjörleifshaug.

Mér til hrellingar sá ég ekki til Eyja af hæsta punkti höfðans. Reynisfjall skyggir á. Ég á ekki von á því að þeir Ingólfur hafi séð eyjarnar heldur nema þeir hafi verið mjög hávaxnir. Þetta útilokaði þó ekki söguna, því að þeir hefðu getað staðið fremst á höfðanum, en þangað fór ég ekki í þetta sinn. Hins vegar fórum við rakleiðis í Dyrhólaey og þegar ég stóð allra syðst á henni sá ég syðsta punt Hjörleifshöfða. Ef ég gekk  tvo metra í norður hvarf höfðinn sjónum. Reynisfjallið skyggir því mjög á útsýni úr Hjörleifshöfða og efasemdir komu skyndilega upp um sannsögli Landnámu. Mér datt í hug hvort höfundurinn hefði getað ruglast á Hjörleifshöfða og Dyrhólaey. Þetta hefði náttúrulega getað skolast til í minni þeirra Ingólfs, þeir nýkomnir til landsins og þessir staðir vart búnir að fá nöfn. En þegar neyðin er stærst er hjálpin næst. Vigfús vinnufélagi minn er ættaður frá þessum slóðum og öllum hnútum kunnugur. Hann segir mér að rétt framan við Hjörleifshöfða sjáist við sérstakar aðstæður til Eyja. Nú veit enginn hvernig sandarnir voru á þessum tíma, en er ólíklegt að þeir hafi verið eins þá? Þrælarnir þurftu að þræða strandlengjuna til þess að leita að öndvegissúlunum og hefðu því vel getað séð til Eyja framan við höfðann.

Í framhjáhlaupi skal þess getið að úr höfðanum rennur lækur og kringum hann eru fallegar hvannir. Hann liggur fram á sandinn við bílastæðið en þar hverfur hann. Oft hef ég séð á spretta upp úr jörðinni en aldrei hverfa ofan í jörðina. Rámar þó í að í hinni klassísku bók Enidar Blyton Ævintýrafljótinu hafi þetta gerst.

Hver er höfundur Njálu?

Þegar ég var búinn að kippa stoðunum undan ádeilu á Landnámu var ég tilbúinn til þess að snúa mér af mikilli alvöru að Njálu. Ég las hana fyrir nokkrum árum í útgáfu Jóns Karls Helgasonar bókmenntafræðings. Hann skrifar pistla í Morgunblaðið en þó er hann alls ekki eins þekktur og vera skyldi. Fyrir nokkrum árum gaf hann út bókina Ferðalok um afdrif beina Jónasar Hallgrímssonar. Því miður hafa ekki nægilega margir lesið þessa bók en í henni jarðar hann Jónas og bein hans í eitt skipti fyrir öll og gerir frekari umræðu um það mál óþarfa. Jón Karl er einstaklega laginn við að sýna fram á hve kjánalega margir hafa gengið fram í umræðu um beinin bæði fyrr og síðar, en þó með þeim hætti að þeir sem í raun eru dregnir sundur og saman í háði geta hvergi fundið setningu þar sem orði er á þá hallað.

Fyrri bók Jóns Karls um Njálu ber nafnið Hetjan og höfundurinn. Í henni rekur höfundurinn það hvernig umræða um fornbókmenntir hefur þróast og skoðanir manna breyst. Aðallega snýst umræðan um Njálu og í bókinni er sagt frá fjölmörgum hugleiðingum um þessa gersemi bókmenntanna, bæði fyrr og síðar. Jón Karl gefur lítið út á umræðuna um það hver sé höfundur Njálu, en segist í fjölskylduboðum hafa komið sér upp því svari að það sé Einar Ólafur Sveinsson. Skýringin er sú að Einar Ólafur hafi fjallað öðrum meira og betur um Njáls sögu.

Í bókinni eru dregin fram ótrúlega mörg dæmi um túlkun manna á efni Njálu. Raktar eru draumfarir manna og frásagnir miðla, rímur, sagnaljóð og styttingar. Jafnvel deilur um stafsetningu. Það er gaman að sjá hvernig skoðanir manna á efni sögunnar hefur breyst í gegnum tíðina. Hallgerður var lengst af hið verst flagð en á seinni öldum, ekki síst á þeirri tuttugustu, hefur hún eignast sína málsvara. Bent er á eitt, sem mér kom reyndar í hug þegar ég heyrði söguna fyrst fyrir meira en fjörutíu árum, að hárlokkur virðist ekki gott efni í bogastreng. Mér er líka spurn: Hvers vegna hafði Gunnar ekki aukastreng við höndina? Líklegast hefur hann fallið fyrir eigin vömm en þjóðin svo árum saman skellt skuldinni á Hallgerði.

Kenning Jóns Karls er að smám saman hafi hetjurnar vikið sem fyrirmyndir Íslendinga og höfundarnir tekið þeirra sess. Nefnir hann fjölmörg dæmi um þetta og rekur ýmsar sögur og er af öllu hin mesta skemmtan. Umfjöllun um peningaseðla og gullfót fannst mér reyndar langdregin og langsótt, en að öðru leyti var bókin skemmtilestur frá upphafi til enda.

Höfundar Njálu er einskonar framhald fyrri bókarinnar nema þar sýnir Jón Karl fram á að sköpun Njálu er í raun aldrei lokið. Fjölmargir aðilar, flestir útlendir, hafa endurritað söguna með frjálslegum hætti. Þessi frásögn öll er mjög skemmtileg. Margir hafa túlkað Njálu með sínum hætti og aukið við hana, getið í eyður eða einfaldlega breytt sögunni til þess að fella það betur að þeirri sögu sem höfundurinn vill segja. Þessar stöðugu tilraunir til þess að túlka Njálu eða að minnsta kosti nota hana til stuðnings geta líka gefið hugmynd um það hvernig fornsögurnar hafa þróast.

Jón Karl rekur í formála bókarinnar frásögn Gunnars Lambasonar af því þegar Skarphéðinn grét í brennunni. Gekk þá Kári fram og fór með vísu og hjó svo höfuðið af Gunnari. Höfuðið fauk upp á borðið fyrir konunginn og jarlana. Eftir nokkur orðaskipti fer Kári frjáls ferða sinna og hirðmenn hreinsa borðið. Ekki létu menn þetta þó raska ró sinni heldur hélt Flosi áfram frásögninni og sagði rétt frá. Þessi saga sýnir í hversu miklu jafnvægi menn voru í gamla daga. Ef þetta gerðis nú yrði að kalla til lögreglu, lækna og loks sálfræðinga til þess að veita hinum áfallahjálp.

Með þessum bókum sínum fer Jón Karl Helgason að slaga upp í Einar Ólaf sem höfundur Njálu.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.