Sigurvegari helgarinnar (BJ)

Þá eru búin tvö prófkjör um helgina. Mér gekk ágætilega í báðum. Í Reykjavík spáði ég rétt, á Norðvesturlandi komst minn maður (Karl V. Matthíasson) í 2. sætið.

Ég þuldi fyrir þá sem heyra vildu hvernig ég hélt að tólf efstu sætin myndu fara hjá Sjálfstæðismönnum. Ég gerði tvær villur. Ég hélt að Pétur Blöndal myndi vera fyrir ofan Illuga og svo taldi ég að Birgir Ármannsson yrði sæti fyrir ofan Sigurð Kára. Annars var þetta rétt. Það er ekki svo illa af sér vikið.

Gulli vann Björn með heldur minni mun en ég hélt. Ég átti von á að hann fengi vel yfir 50%. Það var sérstakt hvernig talningin þróaðist. Mér er sagt að fyrst hafi verið taldir þeir sem kusu á föstudaginn. Ég ræð það af þessum tölum að meðal „hefðbundinna“ sjálfstæðismanna hafi Björn og Guðlaugur verið hnífjafnir en svo hafi sterkir sérhópar komið seinni daginn og kosið Guðlaug fyrst og fremst. En menn mega ekki gleyma því að yfir 50% þeirra sem kusu völdu þá báða. Allmargir stuðningsmenn Guðlaugs hafa þó sleppt Birni.

Ég hafði velt því fyrir mér hvað Björn gerði ef hann tapaði. Hann gat ekki annað en tekið því að verða þriðji. En hefði hann dottið niður listann gat staðan orðið snúnari. Líklega hefði hann líka orðið að sætta sig við 4. sætið. En neðar en það finnst mér líklegt að hann hefði hætt og það hefði verið skaði. En til þess kom sem betur fer ekki.

Sigríður Andersen var eini frambjóðandinn sem þorði að viðurkenna það að hún væri hægrisinnuð. Það er ekki talið mikilvægt í Sjálfstæðisflokknum. Styrmir Gunnarsson heldur áfram að tala um það í Mogganum að Sjálfstæðisflokkurinn verði að sækja inn á miðjuna því að þar séu kjósendurnir. En hvað varð um þá gamaldags hugsun að stjórnmál ættu að snúast um hugmyndir og stjórnmálamenn ættu að fá kjósendur á sitt band? Líklega segir Styrmir þetta bara af því að hann er á miðjunni. Hann skrifar samt best um stjórnmál í Moggann. En það er innskot.  Flestir frambjóðendur gerðu lítið með stefnumál. Lengi mun hafa staðið á vefsíðu Guðlaugs um stefnumálin: „Í vinnslu.“ En það skipti náttúrlega ekki máli á miðjunni.

Annars er það ósanngjarnt í garð Guðlaugs að kenna hann við miðjumoð. Hann hefur í þeim málum þar sem ég hef heyrt hann setja fram skoðun verið ágætlega hægrisinnaður. Útvarpið dregur alltaf fram Birgi Guðmundsson framsóknarstjórnmálafræðing og hefur eftir honum einhverjar vangaveltur eins og þær séu heilagur sannleikur. Hvers vegna ræða þeir ekki við Hannes Hólmstein stundum líka? Annars held ég að stjórnmálafræðingar viti svo sem ósköp mikið minna en aðrir en nota tækifærið til þess að koma að eigin skoðunum og fordómum undir gervi fræðimennsku.

Prófkjörið hjá Samfylkingunni á Norðurlandi vestra varð mér ánægjuefni. Undir venjulegum kringumstæðum gæti mér ekki verið meira sama hver kemst að í þeirra prófkjöri í dreifbýlinu. Í þetta sinn var ég límdur við síðu þeirra xs.is til þess að sjá nýjustu tölur. Ástæðan var sú að Kalli Matt vinur minn bauð sig fram í 1.-2. sætið. Spekingar höfðu ekki haft mikla trú á honum. Ég heyrði í útvarpinu í gær að fólkið í helgarspjallinu nefndi hann ekki einu sinni á nafn. Þegar ég ræddi við mann sem taldi sig þekkja til mála brosti hann góðlátlega þegar ég spurði hvernig hann héldi að Karli gengi. Mér er sagt að flokksforustan hafi blandað sér í málin og nefnt aðra kandídata í fjögur efstu sætin. En paranoja er auðvitað dagskipun á hlerunartímum.

Síðast (fyrir kosningarnar 2003) beitti flokksforystan sér fyrir því að Gísli V. Einarsson Akurnesingur (nú bæjarstjóri þar og Sjálfstæðismaður) yrði fulltrúi Vestfirðinga í Samfylkingunni. En réttlætið sigraði í þetta sinn og séra Karl kemst væntanlega á þing aftur. Við erum ekki sammála í pólitíkinni en jafngóðir vinir fyrir því. Karl er góður og réttsýnn maður og það er aldrei of mikið af þeim á þingi. (Svo finnst mér ekki ólíklegt að Samfylkingin verði samstarfsflokkur Sjálfstæðisflokks eftir kosningarnar og þá skiptir máli að einhverjir skynsamir menn séu þar í flokki).
En fyrir næsta prófkjör Sjálfstæðismanna. Það væri gott að hafa sameiginlegt prófkjör Reykjavíkur og Suðvesturkjördæmis. Þá hættir þetta hverfapot þeirra þar sem menn hampa Mosfellingum og Kópavogsbúum, sem auðvitað skiptir engu máli í landsmálum. Svo á prófkjörið að vera á einum degi og atkvæðum á að blanda áður en talið er.

Svo gæti ég líka tekið að mér að stilla upp. Það yrði nokkurn veginn rétt og ég myndi taka það að mér fyrir helming þess sem prófkjörsbaráttan kostar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.