Komminn, Þjóðverjavinurinn, elskhugarnir og konur þeirra (BJ)

Gunnar Gunnarsson og Þórbergur voru gerólíkir rithöfundar sem mikið var hampað á sinni tíð. Nú hefur Halldór Guðmundsson komið þeim saman í bók og Mogginn auglýsir hana með gömlum kjaftasögum og skammast svo yfir í Staksteinum. En bók Halldórs er miklu merkilegri en þær sögur sem Mogginn notar úr henni í baksíðufréttir.

Ég hlakkaði ósköpin öll til að lesa þessa bók og þegar ég frétti að hún hefði komið út á miðvikudaginn var ók ég sem leið lá út í JPV forlag til þess að tryggja mér eintak. Þangað hef ég komið einu sinni áður og það voru mér mikil vonbrigði að þegar ég var kominn á rétt horn var forlagið horfið og klukkan alveg að verða sex. Í örvæntingu velti ég fyrir mér hvernig ég fyndi út hvert útgáfan hefði flutt og taldi líklegast að hún væri komin upp í Ártúnsholt úr Vesturbænum. Í því að ég fálma eftir farsímanum undir stýri og bjó mig undir að auka hraðann í 70 á svæði þar sem alls ekki má aka hraðar en á 30, sé ég að húsið hefur verið flutt eina 100 metra frá því sem ég mundi glöggt að það var, svo ég lagði bílnum upp á gangstétt og tók á sprett. Gagnstætt því sem ég hafði haldið var ekki fullt út úr dyrum af spenntum lesendum. Þvert á móti var búið að læsa, slökkva í afgreiðslunni og enginn sjáanlegur. Ég gafst þó ekki upp við svo búið, barði húsið allt utan og eftir drykklanga stund kom sonur forleggjarans til dyra og tók mér vel. Bókin var ekki einu sinni komin upp úr kassanum, þessi örfáu eintök sem komið höfðu í hús. Hann plataði mig líka til þess að kaupa Ólafíu Jóhannsdóttur og Matthías Jochumsson. Ég hugsa að ég gluggi í Ólafíu en efast um Matthías.

Er þetta hægt?

En það var ýmsu að sinna öðru en þeim Þórbergi og Gunnari þannig að þrátt fyrir mikla elju tókst mér ekki að ljúka bókinni fyrr en í kvöld. Fyrst hélt ég reyndar að Halldór væri að missa flugið. Æskuár eru yfirleitt ekki fjörug í ævisögum (nema hjá Nonna) og í fyrstu köflum hélt ég að bókin yrði ekki bara tvöföld ævisaga heldur þreföld þar sem Halldór Laxness yrði sífellt nálægur. En fljótlega lifnaði yfir bókinni og Laxness var ekki yfirþyrmandi.

Ég er ekki nógu vel að mér í Gunnari til þess að vita af eigin raun hvort hann skrifaði skemmtilegar sögur. Yfirleitt hef ég gefist upp á bókum hans að Svartfugli undanteknum. Ég ætlaði hins vegar að lesa hann aftur um daginn og gafst upp. Orðskrúðið og tilgerðin í byrjun var of mikil. Ef ég skil lýsingar Halldórs rétt eru sögurnar flestar sveitarómanar sem þó færri Íslendingar hafa lesið en verk Guðrúnar frá Lundi (Halldór getur hennar reyndar ekki).

Mér fannst skemmtilegt að lesa um líf Gunnars í Danmörku. Hann átti sitt sultartímabil en var einbeittur í þeim ásetningi að verða rithöfundur og það tókst vonum framar. Það kom mér mest á óvart hve mikill Kasanova hann hefur verið, bæði fyrir og eftir hjónaband. Mér sýndust reyndar hvorki ljósmyndir af honum né lýsingar benda til þess að hann hefði verið heillandi maður, en það sýnir örugglega fyrst og fremst skilningsleysi mitt. Samt held ég að myndirnar af Gunnari mætti taka upp í næstu útgáfu af bókinni „Enn er von. Handbók piparsveinsins.“

Gunnar var mikill Norðurlandasinni og Þýskalandsvinur. Hvorugt þykir sérstaklega ljótt nú á tímum en þá var Hitlerstíminn að renna upp og Gunnar galt þess síðar. Hann hitti Foringjann sem frægt er orðið og lýsti ekki vanþóknun á nasismanum eða gyðingaofsóknum, en reyndar ekki sérstakri velþóknun heldur. Hann telur það hafa orðið sér til lífs að vera á Íslandi í stríðslok en danskir andspyrnuhreyfingarmenn skutu Guðmund Kamban, hinn íslenska rithöfundinn í Danmörku.

En Gunnar var ekki nasisti þó að hann ætti vingott við stjórnarherra Þriðja ríkisins. Hann gerði sér líka á endanum grein fyrir því hvílíkur slúbbert Hitler var. Þórbergur var Stalínisti fram í andlátið, ekki vegna hrifningar á grimmdarverkum Georgíumannsins heldur vegna þess að hann neitaði að viðurkenna þau. Hvorugur viðurkenndi mistök sín opinberlega eins og Laxness gerði þó. En hann var líka meiri sölumaður en þeir báðir.

Ég sá að það hafði komið syni Gunnars og danskrar ástkonu hans á óvart hve gamansamur hann gat verið. Það kom mér líka á óvart. Grínið drýpur ekki beinlínis af bréfum sem vitnað er til og Halldór segir frá því að allt vinnufólk hafi fyrirvaralaust yfirgefið þau hjón á Skriðuklaustri. Það virðist að sagnir þar eystra um virðingu fyrir Fransiscu konu Gunnars hafi ekki nægt til þess að halda fólki í vinnu. Sumt gleymist líka á hálfri öld.

Hversu góð skáld?

Þórbergur er skemmtilegur karl í þeim bókum sem eru lesandi eftir hann. Bréf til LáruOfvitinn og Íslenskur aðall eru ágætar og líka margar ritgerðir. Aðrar bækurnar eru svo leiðinlegar að menn halda ekki sönsum ef þeir klára þær. Sálmurinn um blómið er líklega leiðinlegasta bók sem rituð hefur verið á íslensku. Halldór kemst mjög kurteislega frá henni og reyndar fleiri af lakari bókum Þórbergs. Svona eftir á að hyggja segir hann ekki svo mikið um bækur þeirra stórskáldanna sem hann fæst við. Hann segir svolítið frá þeim mörgum en minna um þær, nema framantaldar bækur Þórbergs og Svartfugl Gunnars. Kannski þarf maður að lesa Aðventu líka. Fjallkirkjan bíður líka en hún er mjög löng og tilvitnanir Halldórs í hana benda til þess að hún sé býsna tilgerðarleg.

Ég stórefaðist um að þessi tvö skáld væru nóg efni í bók. Ævi þeirra virtist hreinlega miklu flatneskjulegri en til dæmis saga Halldórs Laxness. En Halldór Guðmundsson hefur fundið margt áhugavert um þá báða og ekki er hægt að efast um það að Gunnar var margoft orðaður við Nóbelsverðlaunin. Ég man eftir því að Þorvaldur Sæmundsson barnaskólakennari minn sagði okkur frá því að mikill áhugi ákveðinna aðila hefði verið á því að Gunnar fengi verðlaunin. Þetta var árið 1967 þannig að margir hafa vitað þetta hér á landi löngu áður en Halldór Guðmundsson og Hannes Hólmsteinn sögðu frá þessu í bókum og greinum. Og það hefur líklega ekki verið Jóni Helgasyni og Sigurði Nordal að kenna eða þakka að hann fékk þau ekki.

Halldór getur sér þess til að Þórbergur hafi haft Asberger heilkenni sem mun vera afbrigði af einhverfu. Kannski er það rétt. Hann var að minnsta kosti mjög skrítinn karl. Á mynd í bókinni sést hann vera að herma eftir séra Árna Þórarinssyni en nærstaddir horfa eitthvert annað.

Bókin

Þessi bók er skemmtileg og þeir sem hafa áhuga á íslenskum skáldum eiga allir að lesa hana sem fyrst. Halldór skrifar lipurlega og ágallar fáir. Þó hefði verið gaman að vita meira um hverjir eru á myndum, hvar þær eru teknar og hvenær. Mynd af fjórum einstaklingum sem alla má vel þekkja en Erlendur Guðmundsson einn nafngreindur (bls. 253). Voru hinir of ómerkilegir til þess að nefna þá? (Minnir mig reyndar á bekkjarmynd af 5.-X, fjölmennum bekk, sem birt var í Vetri, gamanblaði í MR árið 1971. Textinn var: Hannes Gissurarson)

Pappírinn er heldur leiðinlegur, mattur og gulleitur (kremaður) og það verður til þess að myndir eru ekki eins skýrar og á glanspappír. Gamlar myndir hefði mátt laga og skerpa, en það er væntanlega viljandi ekki gert. Forsíðan er ekki spennandi. Verkið heitir Skáldalífmeð undirtitli: Ofvitinn úr Suðursveit og skáldið á Skriðuklaustri. Í útvarpinu var lesið: „Oddvitinn úr Suðursveit …“ Nú á dögum veit fólk ekkert og best hefði verið að nefna þá félaga. Myndin af Halldóri innan á kápu er hins vegar ágæt.

Halldór segist hafa leiðrétt mál- og prentvillur umyrðalaust en á einum stað er vitnað í dagbókarfærslu frá 31. nóvember. Kannski hefur það átt að vera grín. Mér finnst það ekki fallegt að skrifa einsog og líktog í einu orði, sérstaklega vegna þess að ég las þau sem ein-sog og lík-tog, en væntanlega er það vegna lesblindusnerts hjá mér.

Halldór hefur meðal annars notið mikillar vinnu Sveins Skorra Höskuldssonar sem vann að ævisögu Gunnars en lauk aldrei. Á bls. 32 er vitnað í hana: „Ef hann hefur komið sem leið liggur neðan Hérað og gegnum Hallormsstaðaskóg hefur hann séð hlíðar Norðurdalsins sveigjast saman eins og bug stefnis og yfir það hefjast fannhvíta ásýnd Snæfellsins líkt og vængjaða sigurgyðjuna Nike er forðum sveif yfir stöfnum grískra sæfarenda eða drekahöfuð sem vísaði víkingum leið.“ Það var gott að það var Halldór sem skrifaði ævisöguna en ekki Sveinn.

Þetta er skemmtileg og fróðleg bók og höfundi til mikils sóma.

Benedikt Jóhannesson

Sjá einnig: „Skáldið“ á Dyngjuveginum (BJ) 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.