Jenna var vinur minn

Það kom svolítið skemmtilegt fyrir í gær. Ég fór í jarðarför hjá Jennu Jensdóttur. Það var auðvitað ekki sérstaklega skemmtilegt að hún væri dáin en hún var orðin gömul kona. Jenna var á sínum tíma frægust fyrir að vera hluti af Jennu og Hreiðari Stefánssyni. En ég man ekki sérstaklega eftir henni fyrir það. Samt var það svolítið spennandi þegar maður kom í Langholtsskólann og vissi þar af þessu þekkta dúói. Á sínum tíma voru þau frægust fyrir Öddubækurnar, en þær hef ég ekki lesið. En allir þekktu Öddu og bækurnar um hana. Ég komst að því í jarðarförinni í gær að þær höfðu allar komið út áður en ég fæddist þannig að kannski var það ekkert skrítið að ég læsi þær ekki. Svo voru þær auðvitað stelpubækur, en þær höfðu jafnmikið aðdráttarafl fyrir stráka og kvennabókmenntir fyrir karla.

Sannast sagna hef ég aldrei lesið neina bók eftir Jennu og Hreiðar Stefánsson. Á þessum árum voru konur synir tengdafeðra sinna. Ég sé þetta stöku sinnum ennþá hjá stjórnmálamönnum. Jenna var samt alls ekki fyrst og fremst partur af einhverju öðru. Hún var býsna sjálfstæð og hafði sínar skoðanir á hlutunum. Hún var auðvitað sjálfstæðismaður á þessum tíma; það voru allir kennarar við Langholtsskólann sjálfstæðismenn. Að minnsta kosti gaf maður sér það nema annað kæmi í ljós. Þau hjón voru meira að segja í rithöfundafélagi andkommúnista. Þannig var þetta allt fram á áttunda áratuginn.

Samt man ég ekki til þess að hún hafi nokkurn tíma rekið neinn áróður. Hún kenndi okkur í gagnfræðaskólanum, var umsjónarkennari í fyrsta og öðrum bekk sem við sögðum, þó að hann hafi heitið 7. og 8. bekkur. Hún kenndi okkur íslensku. Ég kann hana enn þann dag í dag, þannig að líklega hefur hún verið ágætur kennari.

Hún var góður sögumaður, bjó stundum til sögur af okkur krökkunum upp úr sér. Ég held hún hafi verið prófa línur sem hún notaði seinna í bókunum. Ég man eftir einni setningu sem hún notaði oftar en einu sinni. Á þessum árum var bítlatískan í algleymingi og hárið hafði síkkað, þó að ekki væri það enn komið niður á herðar. Einhver strákurinn í sögunni var með sveigða lokka fram á ennið og einhver sagði við hann: „Þú ert eins og hrútur með horn.“ Þessi setning held ég hafi endað í Bítlum og bláklukkum, að minnsta kosti í einhverri bók sem var lesin í útvarpið, því einhvern tíma heyrði ég þessa setningu á hinum frægu öldum ljósvakans.

Ég var í uppáhaldi hjá Jennu. Í jarðarförinni hitti ég kunningja minn sem sagði að hún hafi haft lag á að láta alla halda að þeir væru í uppáhaldi. Ég hugsa að hann hafi líka verið í uppáhaldi. Einu sinni sinnaðist okkur þó. Hún kenndi líka Íslandssögu og á einu prófinu spurði hún hvaða réttindi þjóðin hefði fengið með stjórnarskránni árið 1874. Í bókinni stóð „löggjafarvald og fjárforræði.“ Bjarni bekkjarbróðir minn svaraði „löggjafarvald og fjárveitingavald“ og fékk rangt fyrir. Þetta fannst okkur bekkjarfélögunum vitlaust og þrösuðum mikið yfir, en Jenna gaf sig aldrei og fannst ég hálfgerður svikari að vera með Bjarna í liði. Svo urðum við bestu vinir aftur þegar leið á veturinn.

Einu sinni áttum við að skrifa bókarritdóm. Ég ákvað að skrifa um Kristnihald undir Jökli sem þá var nýkomin út. Laxness var hættur að vera kommi þannig að hún var keypt heima. Eini gallinn var að ég hafði ekki lesið bókina. Það hindraði mig þó ekki í því að skrifa um hana lýsingu. Fyrst tók ég nokkrar setningar sem Karl Kristjánsson bókmenntafræðingur skrifaði innan á kápuna, svo fletti ég á einhverri blaðsíðu og skrifaði um hve snilldargóð frásögnin af Saknússem öðrum væri, en hún var einmitt á þeirri opnu. Svo endaði ég á Karli. Þetta er fyrsti og eini viðurkenndi ritstuldur minn og eina ástæðan fyrir því að ég þori að játa hann er að ég reikna ekki með að Jenna lækki mig úr því sem komið er. Það var ekki fyrr en mörgum árum seinna að ég áttaði mig á því að ég hafði platað sjálfan mig mest á því að lesa ekki þetta snilldarrit.

Ég hitti Jennu einu sinni þegar ég átti leið á Morgunblaðið. Líklega vorið 1983 eða ´84. Hún var að skila af sér grein og sagði mér að hún væri hætt að kenna. „Kennslan átti aldrei við mig“, sagði hún. Mér fannst þetta skrítið, en líklega hefur hún verið eini kennarinn á landinu sem kenndi unglingum nútímaljóðlist. Að minnsta kosti sá eini sem ekki var kommi. Ég bý að þeirri kennslu enn. Mörgum finnst ég skrítinn að lesa órímuð ljóð. Það á ég Jennu að þakka.

Árið 2006 stakk Ingi Bogi Bogason bekkjarbróðir minn frá því í barnaskóla upp á því að við færum að heimsækja Jennu. Hann er ræktarsamur. Ég var til í það og Ingi hringdi í hana og sagði henni að ef hún byði kaffi kæmum við með köku. Henni fannst það ekki merkilegt boð og vildi miklu fremur fara með okkur á kaffihús. Við vorum fákunnandi í kaffihúsum nemendurnir, þó liðlega fimmtugir, en enduðum á Kaffi París við Austurvöll. Þar sagði hún okkur ýmislegt af gömlum dögum. Eitthvað var það öðruvísi en mig minnti sumt, en þó greinilega sömu sögurnar. Hún sagðist hafa þurft að bera ritgerðina mína undir fræðslustjórann í Reykjavík, því að yfirkennarinn í Langholtsskóla sem var prófdómari hefði viljað fella mig fyrir að skrifa um hann skammir. Þetta held ég að sé misminni, en hún hefur eflaust haldið með mér í þeirra rimmu.

Hún sagði okkur líka frá verðlaununum sem hún fékk þegar hún var ung stúlka. Það var mikill viðburður í hennar lífi. Eftirminnilegast úr samtalinu var þó frásögn hennar af samtali við séra Árelíus Níelsson, sem við þekktum vel til, en hann var prestur í Langholtskirkju og frægur maður í borginni á okkar baraskólaárum. Um þetta samtal skrifaði ég í Vísbendingu: „Fyrir nokkrum dögum hitti ég gamlan kennara minn yfir kaffibolla. Það hefði í sjálfu sér ekki verið í frásögur færandi á þessum vettvangi ef hún hefði ekki sagt mér frá ráðleggingu sem prestur gaf henni þegar hún var ung stúlka á leiðinni út í lífið: „Mundu að það er engum að treysta.“

Þessi ráðlegging olli mér heilabrotum. Var ástandið virkilega þannig á millistríðsárunum að prestur gat ekki gefið betri ráð en þetta? Stundum finnst manni, þegar maður fylgist með átökum í viðskiptalífinu, að þessi orð eigi vel við núna, en eiga þau kannski við á öllum tímum? Jón biskup Arason orti fyrir 550 árum: „Vondslega hefír oss veröldin blekkt, vélað og tælt oss nógu frekt“ en líklega var honum vorkunn því að hans beið ekkert nema öxin og jörðin.“

Seinast hitti ég Jennu í sextugsafmæli Langholtsskóla. Þegar ég hafði sagt deili á mér þekkti hún mig vel og við spjölluðum í fimm mínútur. Þegar við kvöddumst sagði hún: „Við sjáumst …“ en svo hugsaði hún sig um og var greinilega ekki viss um að við sæjumst aftur og bætti við. „Ég hef enga trú á því að það sé líf eftir dauðann. Þér finnst kannski skrítið að gömul kona hugsi svona, en þetta held ég nú samt.“ Mér fannst þetta ekkert skrítið, og kvaddi án nokkurra spádóma.

Það kom ekkert sérstaklega skemmtilegt fyrir í gær, en Jenna kenndi okkur að maður ætti alltaf að fanga athyglina í upphafi frásagnar. Þannig eru góðir kennarar. Maður man frá þeim heilræðin alla ævi.

Ég átti eftir að heyra frá Jennu einu sinni enn. Fríða mágkona mín hitti hana á Hrafnistu þar sem hún bjó síðustu mánuðina. Fríða spurði Jennu hvort hún vildi ekki hitta Kristínu, sem er mamma Fríðu. „Nei“, sagði Jenna, „ég ætla ekki að kynnast fleira fólki á ævinni.“ Svo þráttuðu þær um þetta nokkra stund og Jenna gaf sig ekki.

Fríða getur verið þrjósk líka en mætti hér ofurefli. Sagði þó að skilnaði: „Ég ætla að minnsta kosti að segja honum Benedikt mági mínum frá því að þú sért komin hingað.“ Þá mýktist Jenna öll og sagði: „Það er allt annað. Hann er vinur minn.“

Þetta fannst mér falleg lokakveðja frá konu sem mat vináttuna framar öllu.

Færðu inn athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.