Létt próf, en hvað svo? (BJ)

Sumir hafa kvartað undan því að á Viðreisnarprófinu, sem við birtum á netinu og fer hér á eftir, sé nánast óhjákvæmilegt að fá hátt skor. Flestum ætti að vera það fagnaðarefni að finna stjórnmálaflokk sem er sammála þeim í flestu, en auðvitað fara ekki alltaf saman orð og gerðir. Fagurt skal mæla en flátt hyggja er leið margra fram að kosningum.

Margir hafa fengið 70% eða meira og telja það sjálfgefið. En hvernig ætli núverandi ríkisstjórn myndi farnast á prófinu? Skoðum málið.

1. Vilt þú viðskiptafrelsi og afnám hafta, tolla og vörugjalda?

Stjórnarflokkarnir segja nei þegar kemur að landbúnaðarvörum. Þar er núverandi þing búið að samþykkja að þeir litlu tollkvótar sem leyfðir eru eru seldir á himinháu verði. Og það eftir að hafa tekið þessi gjöld ólöglega. Flokkarnir styðja líka óleyfilegar hindranir á innflutningi.

2. Vilt þú að kosningaréttur verði jafn, óháður búsetu?

Stjórnarflokkarnir segja nei. Þeir vildu ekki breyta stjórnarskránni í þessa átt og hafa ekki gert þrátt fyrir fjölmörg tækifæri. Framsóknarflokkurinn hefur tveimur þingmönnum fleira en hann ætti að hafa vegna rangláts atkvæðavægis.

3. Vilt þú beint lýðræði og þjóðaratkvæðagreiðslur um stærri mál?

Stjórnarflokkarnir þykjast vilja þetta fyrir kosningar. Þá lofuðu þeir atkvæðagreiðslu um framhald viðræðna við Evrópusambandið. Eftir kosningar sendu þeir bréf til Brussel og sögðu: Við eru hætt. Þeir segja nei.

4. Vilt þú vestræna samvinnu og sterkari tengsl við Evrópuþjóðir?

Stjórnarflokkarnir hafa ítrekað sagt að þeir vilji ekki nánari tengsl við Evrópusambandið. Þeir segja nei.

5. Vilt þú lægri vexti og stöðugleika með nýjum samkeppnishæfum gjaldmiðli?

Stjórnarflokkarnir vilja halda í krónuna sem þeir segja að hafi reynst okkur vel. Þannig koma þeir í veg fyrir erlenda samkeppni og lága vexti. Þeir segja: Nei!

6. Vilt þú markaðslausnir og að neytendur hafi val á öllum sviðum, þar með talið í landbúnaði?

Ráðherrar stjórnarflokkanna vilja loka á erlenda samkeppni í landbúnaði og viðhalda viðskiptaþvingunum með krónunni. Þeir segja nei.

7. Vilt þú almannahagsmuni umfram sérhagsmuni?

Bændur, útvegsmenn og bankarnir njóta velvildar stjórnarflokkanna, sem ekki vilja leyfa nema lítinn innflutning á landbúnaðarvörum, vilja ekki markaðstengja auðlindagjald og viðhalda gjaldmiðli sem dregur úr erlendum fyrirtækjum að koma til landsins. Þeir segja nei.

8. Vilt þú sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda með það í huga að óskert náttúra er líka auðlind?

Stjórnarflokkarnir hafa ítrekað samið við erlend stórfyrirtæki um ódýrt rafmagn þannig að virkjunarkostnaður nægi aðeins fyrir útlögðum kostnaði en meta náttúruna lítils. Þeir segja kannski já, en breyta ekki samkvæmt því.

9. Vilt þú ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið og bera samning undir þjóðina?

Stjórnin segir nei og vill ekki heyra álit þjóðarinnar.

10. Vilt þú gegnsæja og opna stjórnsýslu?

Stjórnin vill geta makkað með bændum og útgerðarmönnum á „leyndó“ fundum. Svo skrifar hún undir og segir að málið sé búið. Hún segir nei.

11. Vilt þú að jafnrétti kynja verði tryggt á öllum sviðum?

Stjórnin segir örugglega já, en raunin er nei. Stjórnin hefur 38 þingmenn, 23 karla og 15 konur.

12. Vilt þú reisa nýjan Landspítala?

Stjórn sem enn er að ræða staðsetningu spítalans vill drepa málinu á dreif. Hún segir já, já, bara seinna. Þegar við erum hætt.

13. Vilt þú menntakerfi sem stenst samanburð við það besta í OECD?

Auðvitað segir enginn nei upphátt, en við erum langt, langt að baki öðrum. Meira að segja undir meðaltali. Ráðherra leggur áherslu á að stytta nám til stúdentsprófs, vill banna sveigjanleika í námi og gerir ekkert til að bæta árangur.

  1. Vilt þú að sjávarútvegurinn greiði markaðstengt auðlindagjald?

Ríkisstjórnin segir: Nei! Nei! Nei! Ef vinir okkar eiga að borga eitthvað andskotans auðlindagjald þá ákveðum við það. Við viljum ekki sjá markaðstengingu.

Kannski fengju stjórnarflokkarnir 3-4 rétta í orði, en í raun væru þeir við núllið.

Viðreisn er alvöru stjórnmálaafl fyrir frjálslynt fólk. Við erum ánægð hve margir skora hátt á prófinu okkar. Starfið næstu mánuði í Viðreisn snýst um það hvernig við náum þessum markmiðum!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.