Svona verður umræðan þegar rökin vantar (BJ)

Landbúnaðarráðherra fékk fjármálaráðherra í lið með sér og gekk frá samningi við bændur. Til þess að spara tíma ræddu þeir þennan samning bara við bændur, enga aðra. Ekki einu sinni þingmenn, nema auðvitað Harald Benediktsson þingmann eins bændaflokksins. Hinir hafa væntanlega ekkert vit á málinu. Neytendur eða skattgreiðendur hafa enga aðkomu enda eiga þeir sér fáa formælendur á þingi og engan í ríkisstjórn.

Samningurinn er til tíu ára og á að koma í veg fyrir að löglega kjörnir fulltrúar geti bætt hag neytenda næsta áratuginn. Hann kostar á þessu tímabili rúmlega 200 milljarða króna, sem er að minnsta kosti tveir og hálfur Landspítali.

Þeir sem hafa slæman málstað að verja grípa oft til raka sem ekkert hald er í, en geta þó blekkt fólk. Auðvitað er ekkert um það að segja að kjánar beiti falsrökum eða rökleysum, en leiðinlegt þegar greint fólk fellur í sama brunn, því að það veit betur.

Tökum nokkur dæmi úr umræðunni undanfarinn sólarhring. Mörg þeirra eru tekin úr athugasemdakerfi samfélagsmiðla:

Þeir sem samþykkja ekki 20 milljarða álögur á neytendur hata bændur

Forsætisráðherra heldur því fram að þeir sem ekki samþykkja samninginn séu að „atast í bændum“. Á Viðskiptaþingi sagði hann. „Til dæmis hætta að eyða kröftum í að atast í bændum eða ímynda sér að það geti verið skynsamlegt að gera Ísland að losunarstað fyrir umframframleiðslu á heimsmarkaði á meðan önnur ríki viðhalda tollum gagnvart okkur.“

Íslendingar eru 0,0045% af íbúum heimsins og það er erfitt að hugsa sér landið sem „losunarstað fyrir umframframleiðslu“ nema menn hafi mjög fjörugt ímyndunarafl.

Landbúnaðarframleiðsla sparar gjaldeyri

Aftur er það forsætisráðherrann sem er með þessi rök. Þetta var notað á sínum tíma til þess að mótmæla innflutningi á sælgæti, fötum, litsjónvörpum (svarthvítu sjónvörpin voru ódýrari og spöruðu gjaldeyri) og nánast öllu sem keypt hefur verið frá útlöndum. Það er alþekkt lögmál í hagfræði sem kennd er á fyrsta ári í viðskiptafræði, að lönd hafa hag af frjálsum viðskiptum. Mikilvægt allir einbeiti sér að því sem þeir geta best, þá verður hagur heildarinnar bestur. Gjaldeyrisstreymi hefur verið mikið inn í landið undanfarin ár. Hvað á að gera við þann gjaldeyri? Ekki vilja ráðamenn að við notum hann í viðskiptum innanlands.

Landbúnaður er þjóðlegur

Einhver spyr: „Eru þið ekki Íslendingar!“ (stafrétt) Það er stutt í þjóðerniskenndina hjá mörgum. Útlendingar eru kannski ekki vont fólk en áreiðanlega ekki eins góðir og Íslendingar, amk ekki eins góðir og íslenskir bændur.

Greiðslur til bænda eru neytendastyrkir

„Það er verið að greiða niður matvöru fyrir neytendur.“ Greiðslurnar til bænda og tollverndin eru jafngildi rúmlega 20 milljarða króna. Það eru 60 til 65 þúsund krónur á mann. Neytendur myndu örugglega þiggja að fá þá beint í vasann og fá að kaupa þær vörur sem hugur þeirra girntist, en ekki þær vörur sem stjórnmálamönnum þóknast að leyfa.

Aðrir gera þetta líka

„Hvar er landbúnaður ekki styrktur?“ Það er vissulega rétt að víðast hvar er landbúnaður styrktur, en óvíða jafnmikið og hér á landi. Í Evrópusambandinu er styrkurinn um helmingur af því sem hér er og eru landbúnaðarútgjöld þó helstu útgjöld sambandsins. En hvenær vöru það góð rök fyrir því að gera eitthvað vitlaust að aðrir séu líka vitlausir?

Útlenskur matur er óhollur

„Ekki gleyma því að samkvæmt Dönskum miðlum er meira af eituefnum í grænmeti frá ESB enn í dönsku grænmeti.“ Danir eru reyndar í Evrópusambandinu þannig að þessi rök duga skammt. Fræg voru líka ummæli forsætisráðherrans um bogfrymilinn sem olli geðbilun heilla þjóða. Það er eiginlega ljótt að ræða það frekar.

Bændur hafa það skítt

„Ég held að bændur séu nú ekki öfundsverðir af sínum kjörum, hvar í nágrannalöndum okkar er landbúnaður ekki styrktur? Og hvernig í ósköpunum er á að vera hægt að reka fyrirtækji ef menn hafa ekki einhverja hugmynd um rekstrargrundvöll einhver ár fram í tímann. Og svo ættu menn að leiða hugann að því að þegar bændur eru búnir að borga skatta og gjöl er útkoman yfirleitt þannig að þeir hafa í raun engan styrk fengið, standa á slétu ef svo má segja.“

Önnur ummæli í svipuðum dúr: „Ég er nú sammála Hermanni og svo væri gaman að vita hverjir vilja fá í eftirlaun Ellilífeyri og svo úr lífeyrissjóð um 20 þúsund : Þettað er veruleiki margra bænda og skýrir hvað þeir eru lengi í búskap og enginn tilbúinn að kaupa jörðina og halda áfram.“

Ef þetta er raunin, sem getur vel verið, eru það örugglega ekki rök til þess að halda mönnum sem lengst í landbúnaði. Þvert á móti ætti að styðja menn til þess að komast í arðbærari störf, sem er einmitt það sem þetta snýst allt um.

Á að banna íslenska bændur?

„Við flytjum nú þegar inn mun meira af landbúnaðarvöru en aðrar þjóðir“ sagði einn og spurði hvort ætti að flytja inn allan mat. Annar hjó í sama knérunn með slaufu í lokin: „Eigum við ekki bara að flytja allann matinn inn þá þarf enga samninga við íslenska bændur, þeir hafa víst lengi verið mara á þjóð vorri …… eða hvað þið heimskingjar Ragheiður og fleiri“.

Enginn vill banna bændum að framleiða góðan mat. Flestum finnst íslenskur matur góður og þeir myndu kaupa hann áfram. Málið snýst um að neytendur hafi val. Sumir munu velja dýra vöru frá Íslandi meðan aðrir munu aðhyllast erlenda rétti. Líklegast er þó að þegar samkeppni verður virk muni íslenskir bændur verða samkeppnishæfir. Rétt eins og bakarar, sælgætisgerðarmenn og fjölmargir aðrir.

Fæðuöryggi

Fæðuöryggið er vinsæl röksemd. Vandinn er sá að ef landið lokast fyrir innflutningi verður fljótlega þorrið eldsneyti bænda, áburður og fóðurbætir. Ólíklegt er að gripið verði til gamla orfsins og ljás í stórum stíl. Öryggið er ekkert.

Bændur veita öðrum vinnu

„Veistu hvað margir starfa við matvælaframleiðslu á Íslandi, úrvinnslu, iðnað, afleidd störf. Viltu færa þau til nágrannalandanna eða jafnvel vestur um haf?“ Guð forði okkur frá því að flytja störf vestur um haf, það hlýtur að vera hræðilegt fólk þar.

En vandinn er sá að allt kerfið er ósamkeppnishæft. Og við vitum ekki einu sinni hvort það á möguleika. Hvernig væru íslenskir fótbolta- eða handboltamenn ef þeim væri bannað að keppa við útlendinga? Þeir hafa orðið með þeim bestu í heimi með því að keppa við þá bestu í heimi. Samkeppnin styrkir og stælir, ofverndun veikir.

Samkeppnin er ósanngjörn

„Við leyfum ekki undirboð á vinnumarkaði, þetta er af sama toga. Það fást bæði viðskiptafræðingar og verkamenn á mun lægri launum en hér eru greidd, það gæti líka lækkað kostnað og matarverð að opna vinnumarkaðinn.“ Aðalvandi landbúnaðar á Íslandi er veðrið. Spretta er og verður betri sunnar á hnettinum hversu lengi sem menn stunda hundalógik á Íslandi. Erlendir markaðir eru líka mikil stærri og þar næst stærðarhagkvæmni sem aldrei næst hér. Þess vegna munu Íslendingar keppa á gæðum og sérstöðu íslenskra afurða.

Óhrekjanleg rök

„Benidikt.. hélt í einlægni að meira væri í þig spunnið..en þar fór það.“

„Þssir umræddu þingmenn eru bara samfóistar í raun ,ættu bart að far þangað sem þeir eiga heima.“

„Benedikt Jóhannesson, óskaplega eru þetta grunnhyggin skrif hjá þér.“

Þegar svona þungavigt er lögð á borðið er augljóst að annar hvor er kominn út í horn. En hvor?

Benedikt Jóhannesson bj@heimur.is

PS Bæti hér við færslu frá því um daginn, svona svo allt sé á sama stað:

Um hættuna á smiti að utan:

Nú í dag hefur verið bent á eftirtaldar smitleiðir (áhættu) vegna erlendra sýkla sem ekki hafa þrifist hér:

1. Útlendir fuglar koma til Íslands. Þetta hefur viðgengist nokkuð lengi
2. Útlendingar koma til Íslands. Þeir eru líklega um fjórum sinnum fleiri en Íslendingar í ár og þykja aufúsugestir.
3. Hingað koma mýs og rottur með skipum, komast í land og setjast hér að.
4. Útlent grænmeti og ávextir eru flutt til Íslands. Með þeim berst stundum óværa.
5. Útlendar plöntur (sjá 4)
6. Útlendingar sem hingað koma eru í óþvegnum fötum sem geta borið með sér sýkla
7. Útlendingar koma á bílum til landsins. Bílarnir eru ekki sótthreinsaðir. Sumir þeirra hafa keyrt um landbúnaðarhéruð í útlöndum skömmu áður en þeir komu hingað
8. Íslendingar fara til útlanda. Sumir þeirra borða þar mat, klæðast fötum og koma heim í bílum.
9. Útlendingar sem hingað koma hafa iðulega með sér mat (sem auðvitað er bannað, en gerist samt)
10. Íslenskir sjómenn og flugfólk hafa gegnum tíðina smyglað inn erlendum mat (þetta er auðvitað löngu hætt, en maður hefur lesið um þetta)
11. Íslenskir veitingastaðir hafa boðið upp á smyglvarning, en yfirleitt ekki auglýst það mikið.
12. Íslenskir kaupmenn buðu stundum í gamla daga upp á smyglað kjöt af ýmsu tagi.
13. Ferðamenn hafa árum saman smyglað kjöti til landsins
14. Sumir Íslendingar dvelja langdvölum erlendis við nám og störf. Sumir eru árlega nokkra mánuði á ári erlendis, t.d. í Suður-Evrópu eða Flórída.

Sjálfur hef ég líklega dvalist erlendis um fimmtung af ævinni eftir að ég varð tvítugur. Konan mín og börnin líka. Enginn efast um að öllu þessu geta fylgt ýmsar hættur. Þó man ég ekki eftir því að ég væri sérstaklega varaður við að borða mat í útlöndum. Ég efast um, þó að ég geti ekki fullyrt það, að hinir ágætu læknar og heilbrigðisstarfsmenn sem vara nú við innflutningi á hráu kjöti myndu banna börnum sínum að fara utan í framhaldsnám, sem þó hlýtur að vera miklu hættulegra fyrir þau, en að borða stöku sinnum kjöt af erlendum uppruna hér heima.

Ég er lítið fyrir að borða hrátt kjöt jafnvel þótt íslenskt sé. Til innflutts kjöts yrðu gerðar allar sömu kröfur og til hins íslenska og flestir hugsa ég að eldi sinn mat.

Menn tala eins og allt íslenskt kjöt hverfi og ekkert verði hér til matar en hrátt útlent kjöt. En auðvitað myndi ég og aðrir unnendur íslensks matar vilja borða hann, Ekki vegna tilskipunar frá stjórnvöldum eða bændasamtökunum heldur af því að hann er góður. Kjötið yrði merkt eins og alltaf er gert með mat (nema írska smjörið sem Guðni plataði ofan í okkur, en það var gott í smátíma, þó að við lítum auðvitað ekki við því núna, enda bannað).

Einn sérfræðingurinn í dag taldi hættuna aðallega liggja í því að fólk notaði kamra eftir að það æti útlenda kjötið eða engin salerni yfirhöfuð. Ég er ekki alveg viss um hvernig þetta er á Keldum, en meira að segja í sveitinni hjá mér fyrir 50 árum var klósett.

Öllu getur fylgt áhætta, en það er afar ólíklegt að sú áhætta sem fylgir innflutningi á hráu kjöti undir matvælaeftirliti og merktu upprunalandi bæti við þá áhættu sem fyrir er sem nokkru nemur.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.