Gleymda sumarið ´72 (BJ)

„Sæll, við höfum ekki kynnst formlega, en ég heiti …“

Svona byrjaði símtal sem ég fékk í fyrradag. Viðmælandinn fór svo að segja mér hver pabbi hans væri.

„Við höfum nú heldur betur kynnst“, svaraði ég.

Þögn hinum megin. Hann var greinilega að reyna að rifja upp einhver vandræðaleg augnablik fyrir frama ballstaði fyrir áratugum, en fann ekkert.

Ég ákvað að rjúfa þögnina.

„Við unnum saman í bæjarvinnunni“, sagði ég.

„Bæ-jar-vinn-unn-i“ sagði hann eins og í þessu orði fælist einhver speki sem hann hefði aldrei heyrt áður.

„Unnum er kannski ekki nákvæm lýsing, en við eyddum sumrinu þar milli þess sem við fórum í Vogakaffi.“

„Vogakaffi, já.“ Þetta kveikti greinilega ekki á neinum perum.

„Já, já, niðri í Súðarvogi sumarið ´72“.

Ég hefði getað verið að tala um stað í Síberíu miðað við viðbrögðin. Eftir smátíma heyrðist þó:

„Já ég man eftir Súðarvogi.“

Nú er ég auðvitað hlédrægur maður og hef alla tíð verið, þannig að það var ekki skrítið að maðurinn myndi ekki eftir mér, en hann hlyti að muna eftir Gogga.

„Með Þorgeiri …“ – Stutt hlé – „og Jóa“.

Þessir aldavinir mínir kveiktu ekki á neinum perum.

„Við vorum að leggja þökur“ sagði hann eins og til þess að sanna að hann myndi eitthvað.

Þetta fór að minna á upprifjun Woody Allens á Stríði og friði. „Hún er um Rússland“ sagði hann.

„Pabbi Ómars Ragnarssonar var á vörubílnum sem kom með þökurnar“, bætti hann við.

Það var nú ekki mikið um þökur hjá okkur, en einhverjar þó, og sjálfur man ég ekkert eftir hver kom með þær.

„Jæja“, sagði ég.

Nú heyrði hann að hann var að snúa vörn í sókn og bætti við: „Asskoti skemmtilegur fír.“

Ég leiddi talið að öðru: „Þú ert fæddur ´56  er það ekki.“.

„Þetta manstu“, heyrðist á hinum endanum og honum varð ljóst að þetta vörubílstjóratal hafði ekki virkað eins og hann ætlaðist til.

Ég hélt áfram, því að ég mundi þetta allt eins og við hefðum kvaðst í gær:„Já og fórst í Hamrahlíðarskólann.“

Nú var hann orðinn viss um að ég væri að fletta þessu öllu upp á Google.

„Þá varstu rauðhærður (og þéttvaxinn)“, en svigann hugsaði ég bara því kannski þótti manninum leiðinlegt að ég hefði orð á því.

„Það er löngu liðin tíð“ sagði hann tregafullur. Hafði greinilega ekki heyrt svigann.

„Þú hést líka annað þá“ bætti ég við.

Hann varð að jánka því.

„Ég hét reyndar líka annað þá“, bætti ég. „Þá var ég Benedikt Zoega“, svona eins og til þess að gefa honum séns á að segja: „Já auðvitað, Bensi Zoega, nú man ég þetta allt.“ En ég hefði eins getað heita Albert Einstein. Viðbrögðin voru engin.

Sumarið ´72 er mér kært í minningunni af ýmsum ástæðum. Þá kynntist ég vinum mínum Gogga og Jóa. Reyndar hafði ég vitað af þeim áður því að við vorum saman í Vogaskóla í landsprófi, en það var ekki meira en til þess að heilsa þeim ef við hittumst. Varla nema kinka kolli til þeirra.

En við sem sagt smellpössuðum saman. Í gegnum þá kynntist ég svo Stefáni og Smára sem urðu líka aldavinir mínir. Ekki grunaði mig þá að ég ætti eftir að eyða ævinni með bekkjarsystur þeirra frá því í sjö ára bekk og allan barnaskólann.

En Goggi vissi lengra en nef hans náði. Einhvern tíma kom það í spjallið við Vigdís, gamla skólasystir hans úr Vogaskólanum, hefðum verið saman í bekk fyrsta árið í Menntaskólanum. Hann hefur greinilega heyrt að kæruleysið sem ég gerði mér upp þegar ég talaði um hana var ekki trúverðugt.

„Þið eigið örugglega eftir að gifta ykkur.“

Mínar mótbárur voru snarlega barðar niður og ég leiddi talið að heimsmeistaraeinvíginu í skák.

Rúmlega hálfu ári seinna vorum við orðin par. The rest is history.

Aftur að símtalinu.

Viðmælandinn komst loks að erindinu sem ég leiddi honum kurteislega fyrir sjónir að væri fásinna og hann ætti að gera allt annað. Hann féllst á það heyrðist mér.

Að því afgreiddu sagði hann: „Ég hefði nú gaman af því að hitta þig og spjalla um pólitík.“

Það fannst mér ágæt hugmynd.

„Ég er nú býsna oft sammála þér“, bætti hann við.

„Honum er ekki alls varnað þó að sumarið ´72 hafi þurrkast úr kollinum á honum“ sagði ég við sjálfan mig.

„En kannski ekki öllu“.

Til þess að koma í veg fyrir að hann færi að segja mér frá öllu sem hann væri ósammála mér um flýtti ég mér að segja:

„Meira að segja konan mín er ekki sammála mér í öllu“, þó að ég myndi reyndar ekki eftir néinu sem við erum ósammála um.

Á hinum endanum heyrðist hóstakjöltur, eins og þegar manni svelgist á. Svo sagði hann til þess að fyrirbyggja allan misskilning:

„Ég var nú ekki með hjúskap í huga.“

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.