Ragnhildur Helgadóttir frænka mín er dáin. Ragnhildur var einstaklega ljúf kona, sem ég held að öllum hafi þótt vænt um sem henni kynntust. Hún var auðvitað þekkt af stjórnmálaþátttöku frá unga aldri, en mér þótti alltaf vænst um hana vegna þess hve góð hún var við Ólafíu Pétursdóttur, ömmusystur mína. Móðir Ragnhildar, Kristín Bjarnadóttir, var hálfsystir Ólafíu og þeirra Engeyjarsystra allra. Ein þeirra var Guðrún, amma mín, en hinar Ragnhildur og Maren.
Þegar maður hefur þekkt einhvern allt sitt líf er erfitt að muna hvenær maður hitti hann fyrst. Sterk æskuminning er þegar ég kom til þeirra Ragnhildar og Þórs í Álfheimana. Ólafía var þá flutt til þeirra, minnir mig, að minnsta kosti kom ég örugglega í heimsókn til hennar. Ég var svolítið sérstakt barn því að mér fannst það sjálfsagt alla tíð að heimsækja þær Marenu og Ólafíu. Þær voru vinkonur mínar og ömmusystur líka.
Líklega hafa verið pulsur í matinn, að minnsta kosti féllst ég á að borða með þeim, og ég man eftir því að Þór lék við hvern sinn fingur og sagði frá því þegar hann stalst til þess að hjóla niður Bankastrætið þegar hann var að flýta sér sem sendill, en það hafði verið bannað eftir að hjólreiðamaður dó á hraðferð niður þessa bröttu brekku. Hann tók því þó ekki líklega að gefa sig fram við lögreglu til þess að játa brot sitt eins og Helgi sonur hans stakk upp á.
Inga dóttir Ragnhildar er jafngömul mér og þær mæðgur hafa oft minnt mig á, að ég hafi kallað Ingu stelpuna hennar Ólafíu, en því hefði ég ella gleymt. Ólafía flutti svo með þeim Þór og Ragnhildi í Stigahlíðina og bjó þar til dauðadags. Þegar ég man fyrst eftir Ólafíu bjó hún á Laugavegi 66. Þangað kom ég oft, því að mamma sendi mig til rakara þar beint á móti og eftir klippinguna fór ég alltaf til Ólafíu. Oft fór ég einn í strætó og þótti ekki tiltökumál, en ég man að mér fannst einn rakarinn leiðinlegur. Hann spurði mig hvort ég byggi ekki í Snobb Hill. Ég var sjö ára strákur og átti strax að svara einhverri stríðni sem ég skildi ekki.
Sumum fannst þær Engeyjarsystur ákveðnar, en alltaf voru þær góðar við mig. Þær vildu auðvitað láta fara eftir sínum siðum, en ég var ekki kominn á uppreisnarárin og lét vel að stjórn, enda fannst mér það tilheyra að fá slíkar leiðbeiningar.
Saga er sögð af Bjarna Ben, móðurbróður mínum, daginn sem Alþingi samþykkti að Ísland fylgdi vinaþjóðum og gengi í NATÓ árið 1949. Beinlínis var barist á Austurvelli, þinghúsið grýtt og á endanum var mannfjöldinn leystur upp með táragasi. Inni í Alþingishúsinu var Bjarni, sem var utanríkisráðherra, kallaður hinum verstu nöfnum, landráðamaður og þaðan af verra. Sennilega hefur þetta verið erfiðasti dagur í sögu Alþingis. Sagt er að eftir að þingfundi var lokið hafi Bjarni farið í frakkann og tautað: „Nú er eftir það sem erfiðara er. Að sannfæra Ólafíu móðursystur.“
Aldrei man ég eftir Ragnhildi öðruvísi en brosandi. Þór var mislyndari en hann gat gert að gamni sínu. Þegar Siggi bróðir minn fór einhvern tíma í heimsókn til Ólafíu með mömmu bauð Þór öllum upp á vindla og líka Sigga, sem var enn undir fermingu. Siggi afþakkaði kurteislega, enda vel upp alinn drengur. Þegar Þór bauð svo upp á sérrí sagði hann við Sigga: „Ég er ekkert að bjóða þér fyrst þú afþakkaðir vindilinn.“
Ragnhildur var alltaf létt og lipur en Þór var þyngri. Fyrir nokkrum árum sat ég með þeim til borðs og Þór segir þá upp úr eins manns hljóði: „Getið þið lyft 120 kílóum?“ Viðstöddum vafðist tunga um tönn, en þá bætti hann við: „Það get ég.“ Og stóð upp.
Ég hitti Ólafíu ömmusystur daginn sem hún dó. Eða ætti líklega að segja að ég hefi séð hana. Þetta var 17. júní árið 1977, daginn eftir að við Vigdís giftum okkur. Mamma vildi endilega að við hittum Ólafíu sem vitað var að ætti ekki langt eftir. Þegar við komum sat hún sofandi í stól og Ragnheiður Brynjólfsdóttir, sem var seinni kona Helga Tómassonar, föður Ragnhildar, sat hjá henni. Það var sama hvað reynt var að hrista Ólafíu til og kalla til hennar, ekki vaknaði hún. Ég hélt satt að segja að hún myndi ekki vakna aftur og við fórum aftur heim.
Þetta sama kvöld kom Ragnhildur Helgadóttir til Ólafíu. Ragnhildur hafði verið á ferðalagi erlendis og kom beint úr flugi. Þá vaknaði Ólafía og spjallaði við frænku sína. Svo tók hún út úr sér fölsku tennurnar, lagðist út af, sofnaði og dó. Hún hefur viljað ná að kveðja Ragnhildi.
Nokkrum dögum seinna fengum við brúðargjöf frá Ólafíu, en þær Ragnheiður Brynjólfs höfðu rætt það nokkrum dögum fyrr að nú væri Bensi að fara að gifta sig og Ólafía bað Ragnheiði að kaupa eitthvað fallegt sem hún og gerði.
Árið 1983 varð Ragnhildur menntamálaráðherra. Þá var oft sótt hart að henni og ég man að mömmu þótti það leiðinlegt að frænka hennar varð fyrir aðkasti. Einu sinni þurfti ég að leita til ráðherrans á þeim árum, en ég var þá formaður Félags raungreinakennara í framhaldsskólum. Hún tók mér vel og ekki þurfti ég að bíða mánuði eða ár eftir fundi eins og síðar varð. Ég var með fimm eða sjö atriði á lista, meðal annars varðandi þátttöku Íslendinga í alþjóðlegri keppni í stærðfræði.
Ragnhildur tók erindunum af miklum áhuga og skrifaði athugasemdir niður á blaðið sem ég var með. Þetta var í fyrsta sinn sem ég fór til ráðherra og vissi ekki nema þetta væri eins og í gamla daga þegar þingmannsefnið sagði: „Skrifaðu flugvöll.“ En ekki voru liðnar margar vikur þegar málin voru öll komin nokkuð áleiðis eða í höfn.
Svo skemmtilega vildi til að þau hjón bæði, Ragnhildur og Þór, höfðu mikinn áhuga og skilning á Evrópumálum. Bæði voru þau sannfærð um að Ísland ætti að stefna að fullri aðild að Evrópusambandinu. Ragnhildur var fundarstjóri á stofnfundi Sjálfstæðra Evrópumanna, þegar ríflega 200 manns komu saman í Þjóðmenningarhúsinu og þurftu margir frá að hverfa.
Við ræddum þessi mál oft og Ragnhildi og Þór fannst mjög miður hvernig sumir gamlir félagar þeirra og vinir töluðu um Evrópusambandið. Maður kom ekki að tómum kofanum hjá þeim hjónum þegar þessi mál voru rædd.
En ekki ræddum við alltaf pólitík. Fyrir tveimur árum eða svo spurði ég Ragnhildi að því hvort hún vissi hver hefði verið kærasti Ólafíu í gamla daga, en Ólafía giftist aldrei. Ég hafði einhvern tíma heyrt þær mömmu og Ólöfu systur hennar ræða kærasta Ólafíu, en ekki man ég til þess að þær hafi nefnt hann á nafn.
Jú, Ragnhildur vissi þetta vel. Þessi kærasti hét Tyrfingur Magnússon og var afabróðir Ragnhildar, bróðir Bjarna sem varð seinni maður Ragnhildar Ólafsdóttur, langömmu minnar. Tyrfingur drukknaði þegar kútter Ingvar sökk árið 1906 og allir skipverjar fórust. Skipið steytti á skeri í óveðri við Viðey og mennirnir fórust að fjölmörgum Reykvíkingum ásjáandi. Í Ingólfi birtist þessi frásögn:
„Skipið lagðist þegar á kulborð og varð óstætt á þilfarinu. Leituðu skipverjar í reiðann og sást á öllum athöfnum þeirra, að þeir voru hinir hugrökkustu. Eitt lík rak um kvöldið en hin morguninn eftir og lét Eggert Briem færa þau til kirkju með mikilli fyrirhöfn, og vóru þau kistulögð þar en flutt hingað á miðvikudaginn. Jarðarförin verður á föstudaginn.
Formaður skipsins Tyrfingur Magnússon, bróðir Bjarna bónda í Engey, var 28 ára gamall, ókvæntur. Hann var ágætur sjómaður, stiltur og gætinn, dugnaðarmaður og kjarkmaður mesti og bezti drengur í hvívetna.“
Þá var Benedikt afi minn ritstjóri Ingólfs. Ragnhildur sagði mér að ef Ólafía hefði viljað hrósa einhverjum sérstaklega hefði hún sagt: „Hann er eins og Tyrfingur.“ Það hefði vissulega orðið skemmtilegt að mæðgur hefðu gifst bræðrum. Annars voru þær systur þekktar fyrir að hafa líkan smekk, Guðrún amma og Maren giftust bræðrunum Benedikt og Baldri.
Stutt varð milli þeirra hjóna, Ragnhildar og Þórs. Ragnhildur fæddist tveimur vikum fyrr og dó rúmlega þremur mánuðum seinna. Þau voru gift í 65 ár.
Við leiðarlok er maður dapur, en þó glaður yfir að hafa náð að kynnast og halda tengslum við þetta góða fólk, sem reyndist Ólafíu ömmusystur minni svo vel og örugglega mörgum öðrum.