Þegar Friðrik Ólafsson stórmeistari í skák varð áttræður þann 26. janúar 2015 vann hann enn einn titilinn. Hann var kjörinn heiðursborgari Reykjavíkur. Þeir sem muna glæstan feril Friðriks vita að hann er vel að þessari viðurkenningu kominn. Friðrik komst ungur í fréttirnar fyrir skákafrek. Stikum á nokkrum dagsetningum þegar þjóðin stóð á öndinni:
Árið 1947: Yngsti þátttakandi Skákþingsins er 11 ára gamall, Friðrik Ólafsson að nafni, en það er sá sami sem lengst barðist við Baldur Möller í fjöltefli því er Baldur háði hér nokkru fyrir jólin. Síðar sama ár var sagt frá því að einn 12 ára drengur, Friðrik Ólafsson, hefði keppt um titilinn Hraðskákmeistari Íslands „og er hann talinn sérlega efnilegur skákmaður.“ Ævintýri var hafið.
Ári síðar er þess getið að 13 ára drengur hafi sigrað í 1. flokki, Friðrik Ólafsson, sonur Ólafs Friðrikssonar starfsmanns hjá Rúgbrauðsgerðinni. Fimmtán ára vann Friðrik Norðurlandameistaratitil í meistaraflokki (næsthæsta flokki). Sautján ára varð hann Íslandsmeistari í fyrsta sinn og átján ára varð hann Norðurlandameistari.
Sjötti janúar 1956. Lokaumferð í hinu þekkta Hastingsmóti er að hefjast. Í efsta sæti eftir átta umferðir eru þeir Friðrik Ólafsson og Viktor Kortsnoj frá Sovétríkjunum með 6½ vinning hvor. Íslendingar biðu spenntir eftir úrslitunum. Friðrik hafði þegar unnið marga glæsta sigra, en myndi hann þola spennuna í lokaumferðinni? Íslendingar biðu lokaskákarinnar við Ivkov, þekktan stórmeistara, með öndina í hálsinum. Hvernig myndi hinum tvítuga Íslendingi ganga? Guðmundur Arnlaugsson skákmeistari lýsti stöðunni í hádegisútvarpinu og landsmenn gnístu tönnum þegar þeir heyrðu að staðan væri ekki sem hagstæðust fyrir Friðrik, en á móti kom að Ivkov var kominn í tímaþröng. Óvissan jók vissulega mjög á spenninginn.
Í síðdegisútvarpinu kom Guðmundur aftur með gleðitíðindi: Skákin varð jafntefli og á sama tíma náði lítt þekktur Englendingur, Fuller að nafni, jöfnu við Kortsnoj.
Morgunblaðið birti forsíðufrétt um afrekið daginn eftir og lýsti stemningunni: „Þegar svo fréttir bárust um að skák þeirra Friðriks og Ivkovs hefði orðið jafntefli, lustu menn upp fagnaðarópum og með ýmsum orðum lýstu þeir aðdáun sinni á frábærri frammistöðu Friðriks á skákmóti þessu. Aldrei fyrr hafði íslenzkur skákmaður unnið jafn mikinn sigur sem
Friðrik og víst væri það, að ekki hefði þjóðinni borizt erlendis frá meiri gleðitíðindi síðan Halldór Kiljan Laxness hlaut Nóbelsverðlaunin. Þetta afrek Friðriks væri að nokkru sambærilegt.“
Fyrsti febrúar 1956. Friðrik hafði náð efsta sæti í Norðurlandamótinu árið 1955 ásamt ungum Dana, Bent Larsen að nafni. Ákveðið var að teflt yrði einvígi um titilinn í Reykjavík. Teflt var í Sjómannaskólanum og það er ekki orðum aukið að allt hafi farið á annan endann í Reykjavík vegna þessa. Íslendingar höfðu nýlega náð langþráðu frelsi frá Dönum og engir andstæðingar voru jafn miklir „óvinir“ og þeir. Það leit ekki vel út þegar Friðrik var orðinn undir 1-3 eftir fjórar umferðir. En í sjöundu umferð jafnaði hann metin í spennandi skák. Í 15. leik fórnaði Friðrik peði fyrir sóknaraðstöðu og í 19. leik gaf Larsen kost á mjög hagkvæmum mannakaupum fyrir Friðrik. Við það náði Friðrik sóknarstöðu, sem leiddi til þess að Larsen gaf skákina eftir 24 leiki enda hótaði Friðrik þá máti eftir tvo leiki sem ekki var bjargað.
Landsmenn voru sannfærðir um að Friðrik hefði sigur í lokaskákinni þar sem hann var með hvítt. Tíðindamaður Morgunblaðsins sendi reglulega lýsingu á stöðunni .Klukkan 9:30 voru 16 leikir búnir. Hann sagði:„Mér finnst þetta of mikill „hasar“ og of litið öryggi. Langa hrókunin hjá Friðrik skapar einhverja hættu. En ég sé ekki hvor staðan er betri nú.“
Mikill mannfjöldi var viðstaddur lokaskákina. Vonbrigðin voru gífurleg: „Það verður að segja hverja sögu eins og hún er, að þessi mikli mannfjöldi varð eðlilega fyrir miklum vonbrigðum,“ sagði í frétt Morgunblaðsins sem nánast var í sorgarramma. Friðrik sagði ekkert sérstakt um skákina nema að „g5 var vafasamur leikur“.
Ellefti september 1958. Síðasta umferðin í millisvæðamótinu í Portoroz í Júgóslavíu var að hefjast. Sex efstu menn mundu vinna sér rétt til þess að keppa í áskorendamótinu, en sigurvegari í áskorendamótinu hafði rétt til þess að tefla einvígi um heimsmeistaratitilinn. Friðrik hafði gengið ágætlega í mótinu, meðal annars unnið fjandvin sinn Larsen og bandaríska undrabarnið Bob Fischer, sem svo var nefndur í íslenskum blöðum. Undir lokin lenti hann í öldudal og í næstsíðustu umferð tapaði Friðrik hins vegar fyrir Sherwin og það var mjög undir úrslitum margra skáka í lokaumferðinni komið hvort hann kæmist áfram.
Íslendingar voru límdir við útvarpið þennan mánudag, en ekki vildi betur til en að óveður skall á í Portoroz og fréttir þaðan voru mjög óljósar. Flestir töldu öruggt að Bronstein, sem nær aldrei tapaði skák, myndi ná 12 vinningum, en honum nægði jafntefli til þess. Friðrik varð að vinna til þess að eiga möguleika. Ef Bronstein og undrabarnið Fischer ynnu var Friðrik í vonlausri stöðu þótt hann næði að leggja sinn andstæðing. En eftir æsispennandi lokaumferð fór allt á besta veg. Fischer gerði jafntefli og Bronstein tapaði gegn einum neðsta skákmanni mótsins. Friðrik vann hins vegar sína skák og varð jafn Fischer í 5. sæti. Hann var kominn í hóp hinna bestu í heiminum.
Íslendingum leið eins og heimsmeistaratitillinn væri í höfn. Morgunblaðið sagði: „Álit og vinsældir Friðriks um þann víða heim, byggjast ekki eingöngu á taflmennsku hans, sem þó hefir frá upphafi vakið athygli vegna glæsibragða þeirra, sem honum hafa ávallt verið svo lagin. Einmitt þessir hæfileikar hans í skákinni hafa farið svo sérstaklega vel við hina mannlegu kosti hans, látleysi og hógværð, sem hefur unnið huga manna engu síður en snilld hans. – Margur hefur misst jafnvægið af minna tilefni á sigurbraut sinni en Friðrik, sem nú er 23 ára gamall, með fleiri skáksigra að baki en hægt er að muna svo að nærri lagi sé, er sami prúði pilturinn og þegar hann 11 ára gamall tefldi sitt fyrsta skákmót í Alþýðubrauðgerðarsalnum haustið 1946.“
Draumurinn: Sigríði Símonardóttur, móður Friðriks Ólafssonar, skákmeistara, dreymdi einkennilegan draum rétt eftir að skákmótið í Portoroz hófst. – Henni fannst í draumnum sem hún væri ein á báti með syni sínum á leið frá Reykjavik til Akraness. En fjallháar öldur risu allt í kring, og henni fannst sem bátskelin myndi þá og þegar fara niður, er hún stakkst í stærstu öldudalina. En Friðrik tókst að stýra það vel – sem kom henni mest á óvart í draumnum, þar sem hún vissi að hann hafði aldrei verið á sjó, – að honum tókst að forðast stærstu boðana og að lokum að ná öruggri höfn – eftir mikla baráttu.
Friðrik varð ekki heimsmeistari en hann vann mörg fleiri skákafrek. Hann hefur unnið Tal, Fischer, Petrosjan og Karpov sem allir hafa verið heimsmeistarar og fjölmarga aðra af bestu skákmönnum heimsins. Þó að margir íslenskir skákmenn hafi orðið stórmeistarar og þeir unnið fjölmörg afrek hefur enginn þeirra enn náð þeirri stöðu sem Friðrik hafði. Hann var og er fyrirmynd allra íslenskra skákmanna.
Greinin birtist í 1. tbl. Skýja árið 2015.